fimmtudagur, 27. ágúst 2015

Ný viðbót við brunchinn


Hún Helena systir mín er þvílíkur sælkeri og algjör snillingur þegar kemur að því að útbúa girnilegan brunch eða dögurð eins og hann er víst kallaður á íslensku. Hún býður okkur fjölskyldunni reglulega í helgarbrunch með alls kyns kræsingum en allra bestar þykir mér bananapönnukökurnar sem hún gerir. Þær eru svo léttar og endalaust gómsætar! Systa var svo sæt að gefa mér uppskriftina að bananapönnukökunum og ég tek mér það bessaleyfi að deila henni með ykkur.


Bananapönnukökur

1 bolli AB mjólk
2 egg
2 msk olía
90 g brætt smjör
180 g hveiti
4 tsk lyftiduft
6 tsk púðursykur
1/2 tsk salt
2 tsk vanilludropar
1 stappaður banani

Hrærið saman í skál AB mjólk, egg, olíu og brætt smjör. Blandið saman í aðra skál hveiti, lyftidufti, púðursykri og salti. Hrærið síðan eggjablöndunni saman við þurrefnin ásamt vanilludropum og stöppuðum banana. Látið pönnukökudeigið standa í 5-10 mínútur.

Bræðið smjörklípu á pönnu og skammtið deigi á pönnuna með matskeið þannig að úr verði þrjár litlar pönnukökur. Mér þykir best að nota stóra steikarpönnu því þá get ég steikt fleiri pönnukökur í einu. Steikið pönnukökurnar við miðlungs hita í um 2 mínútur þar til þær hafa brúnast að neðanverðu og loftbólur myndast að ofanverðu. Snúið pönnukökunum þá við og steikið áfram í um 1 mínútu eða þar til þær verða fallega brúnar á báðum hliðum.

Berið pönnukökurnar fram með smjöri, pönnukökusýrópi og ef til vill ferskum berjum.


Öll hráefni í þessar dásamlegu bananapönnukökur fást í Fjarðarkaupum. Nú standa yfir bröns-dagar þar sem þeir í Fjarðarkaupum hafa tínt saman allt það helsta sem þarf í ljúffengan dögurð og selja nú á tilboði. Það væri ekki úr vegi að skella sér í Fjarðarkaup og versla í eins og einn brunch fyrir helgina.

Í tilefni af bröns-dögum í Fjarðarkaupum er verslunin með bröns-leik á Facebooksíðu sinni. Ég hvet ykkur til að taka þátt.


Góða helgi kæru vinir!


Tinna Björg
 

miðvikudagur, 12. ágúst 2015

Tilvalinn kvöldverður á svona haustkvöldi


Í grátlegu haustveðri sem þessu á ég það til að breytast í svolitla sófaklessu. Enda ekki margt annað hægt að gera í grenjandi rigningu en að hjúfra sig inn í teppi heima og borða góðan mat, svínslegi nautnaseggurinn sem ég er. Það er svo huggulegt að elda góðan mat í svona inniveðri. Þá er heitur réttur sem veitir yl í kroppinn alveg tilvalinn.

Chili con carne er kjötréttur sem samanstendur aðallega af nautakjöti, chilipipar og öðrum sterkum kryddum. Uppruni réttarins er umdeildur en talið er að sú aðferð að elda kjöt og krydd með þessum hætti hafi borist til Ameríku með innflytjendum frá Kanaríeyjum sem settust að í San Antonio í Texas-fylki á 18. öld. Þótt rétturinn hafi breiðst út frá San Antonio víðsvegar um Ameríku hefur chili con carne löngum verið talinn einkennisréttur Texas. Þar er mikil menning fyrir þessum bragðgóða rétti en því sterkari sem hann er, þeim mun betri þykir heimamönnum hann. Hið hefðbundna chili con carne inniheldur nautakjöt í bitum en í seinni tíð hefur einnig tíðkast að gera réttinn með nautahakki.

 Ég ætla að deila með ykkur minni útgáfu af chili con carne sem ég mæli með að þið prófið að elda í þessari fyrstu haustlægð. Með réttinum ber ég fram uppáhaldið hans föður míns; amerískt kornbrauð.


Texas Chili

4 msk olía
1 laukur
3 skalottlaukar
3 hvítlauksrif
500 g nautahakk eða nautagúllas
2-3 teningar nautakraftur
1 dl heitt vatn
1 græn paprika
1 rauður chilipipar
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dós nýrnabaunir
1 dós tómatsósa
6 msk tómatpúrra
2 msk chiliduft
2 tsk paprikuduft
1 msk cumin
1/2 tsk cayennepipar
svartur pipar
sjávarsalt
4 msk fersk steinselja

Saxið lauk, skalottlauk og hvítlauk og steikið upp úr olíu í stórum potti í 5 mínútur eða þar til laukurinn verður mjúkur. Setjið nautahakk í pottinn og brúnið með lauknum. Leysið upp nautakraft í heitu vatni og hellið í pottinn. Saxið papriku, chilipipar og niðursoðna tómata og blandið saman við nautahakkið ásamt öllum þeim hráefnum sem eftir standa nema steinselju. Smakkið til með sjávarsalti, svörtum pipar og ef til vill fleiri kryddum. Látið réttinn krauma við vægan hita í að minnsta kosti eina klukkustund. Bestur er chilirétturinn þegar hann hefur fengið að malla í 4-5 klukkustundir. Saxið steinselju og bætið í pottinn á síðustu mínútunum.

Gott er að bera Texas Chili fram með rifnum cheddarosti og sýrðum rjóma. Kornbrauð þykir mér ómissandi með þessum rétti því sætt brauðið vegur svo vel upp á móti sterku bragði chilisins.Kornbrauð

2 bollar kornmjöl
1/2 bolli hveiti
2/3 bolli sykur
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
2 bollar AB mjólk (um 650 ml)
1 bolli mjólk
1 stórt egg
4 msk brætt smjör

 Blandið saman í skál kornmjöli, hveiti, sykri, lyftidufti, matarsóda og salti. Hrærið saman í annarri skál AB mjólk, mjólk og eggjum og blandið síðan vel saman við þurrefnin. Bætið að lokum við bræddu smjöri. Smyrjið ferhyrnt kökuform vel og vandlega með smjöri eða Pam-spreyi og hellið deiginu í formið. Bakið við 165° í 45-55 múnútur að þar til tannstöngull eða prjónn, sem stungið hefur verið í kornbrauðið, kemur hreinn upp. Kælið kornbrauðið í kökuforminu, skerið það í hæfilega stóra ferninga og berið fram með Texas Chili.Öll hráefni í þessa dásamlegu rétt fást í Fjarðarkaupum.Kærar þakkir fyrir að fylgjast með mér!


Tinna Björg