laugardagur, 31. ágúst 2013

Dásamlegar bananamuffins - Enginn sykur og ekkert hvítt hveiti


Eins og svo margir er ég mjög áhugasöm um hollan en samt sem áður góðan mat. Margir halda að þrusuhollur matur geti ekki verið góður en það er langt frá því að vera rétt. Við erum svo heppin að eiga marga góða veitingastaði á Íslandi sem bjóða upp á holla og staðgóða rétti en svo er alltaf hægt að skipta út óhollum hráefnum fyrir hollari kosti í eldamennskunni.

Mér finnst gaman að prófa mig áfram með uppskriftir og þá sérstaklega að skipta út sykri og hveiti. Þótt ég kjósi að elda eða baka úr hráefnum í hollari kantinum er ekki þar með sagt að réttirnir séu kolvetnasnauðir en ég er ekki mikið fyrir öfgar í þeim málum.

Ég er mikill sælkeri og get ómögulega sleppt því að fá mér eitthvað sætt yfir daginn. Þá er gott að grípa í þessar guðdómlegu bananamuffins.

Grunnuppskriftin er bananabrauðsuppskrift sem fengin er að láni af íslenskri matarbloggsíðu sem kallast Bakarí Gullu. Ég breytti uppskriftinni þónokkuð og skipti hveitinu út fyrir möndlumjöl og spelt.


Bananamúffur

200-225 g döðlur
2 1/2 dl vatn
3 stappaðir bananar
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
150 g möndlumjöl
150 g spelt
2 egg
2 msk ólífuolía
2 tsk vanilludropar


Sjóðið döðlur í vatninu í nokkrar mínútur þar til þær verða mjúkar. Maukið döðlurnar í blandara með vatninu.

Blandið þurrefnum saman í skál og hrærið eggjum, ólífuolíu, vanilludropum, stöppuðum bönunum og döðlumauki saman við.Smyrjið eða spreyið muffinsform með feiti og hellið deiginu í.
Uppskriftin dugar í 12 múffur.

Bakið við 200° í 15-20 mínútur.


Ég notaði 200 g af döðlum í uppskriftina en fyrir þá sem vilja hafa þær mjög sætar er ágætt að bæta 25 g við. Athugið að þær verða mun sætari daginn eftir.

Möndlumjölið gefur múffunum ofboðslega fyllt og gott bragð og skemmtilega áferð. Þessar múffur er afar gott að eiga í frysti og hafa sem nesti í vinnuna eða skólann.

Nágrannakonan var svo elskuleg að koma færandi hendi með banana fyrir mig til að baka úr þannig að framundan er heljarinnar muffinsbakstur.


Njótið vel!

Tinna Björg

miðvikudagur, 28. ágúst 2013

Létt og laggott kjúklingasalat


Það er búið að vera svolítið mikið að gera síðustu daga og ekki mikið verið um bakstur eða eldamennsku síðan á sunnudaginn en þá djúpsteiktum við systur kleinuhringi, langa-jóna og kanilbollur með dyggri aðstoð foreldra okkar. Ég mun deila uppskriftum að herlegheitunum með ykkur innan tíðar.
 Fyrst við vorum að hafa fyrir því að djúpsteikja skelltum við líka í eina leynilega fjölskylduuppskrift að ástarpungum, ég auðvitað gleymdi að taka mynd af þeim áður en þeir voru frystir.

Þrátt fyrir smá annríki gerði ég fljótlegt kjúklingasalat á mánudaginn.
 Þegar mig langar í léttan kvöldverð geri ég stundum þetta ljúffenga salat. Það er einfalt og fyrirhöfnin afar lítil.


Kjúklingasalat með grænu pestó
fyrir 3-4

1 pakki salatblanda
1 rauð paprika
1 agúrka
1/2 - 1 pakki furuhnetur
1 krukka fetaostur
3 kjúklingabringur
salt
hvítur pipar
hvítlauksduft
1 krukka grænt pestó

Rífið salatblöð í skál. Skerið papriku og agúrku smátt og blandið saman við salatblöðin.

Þurristið furuhnetur á pönnu og sáldrið yfir salatið ásamt fetaosti án olíunnar.

Kryddið kjúklingabringur með salti, pipar og hvítlauksdufti. Hafið í huga að pestóið er mjög salt svo það dugar að setja örlítið salt öðru megin á kjúklingabringurnar.

Steikið kjúklingabringur í ofni við 180° í um 40 mínútur.

Skerið bringurnar í hæfilega stóra bita og setjið í skál.
Hrærið grænu pestó saman við kjúklingabringubitana og blandið saman við salatið.

Einfalt, fljótlegt og ljómandi gott!Eigið góðan dag.


Tinna Björg

sunnudagur, 25. ágúst 2013

Steikt eggjabrauð með jarðarberjum og bláberjum


Í fyrradag birtist smá viðtal við mig í Lífinu sem fylgir Fréttablaðinu á föstudögum. Þar er aðeins fjallað um mig og minn bakgrunn en einnig fylgir uppskriftin að myntuskyrtertunni minni.
Viðtalið getið þið séð hér.

Menningarnótt var í gær og í tilefni dagsins gerðumst við fjölskyldan svolítið menningarleg. Faðir minn bauð okkur í Perluna þar sem við gæddum okkur á mat, kaffi, kökum og ís. Eftir herlegheitin fórum við á Sögusafnið sem er staðsett í einum tankinum í Perlunni. Á safninu kynnist maður Íslandssögunni á ofboðslega skemmtilegan hátt en sýningargripirnir eru eins konar vax- eða sílíkonfígúrur sem eru alveg skuggalega raunverulegar. 
Sjón er sögu ríkari og ég mæli með því að þið kíkið á safnið og takið börnin með ykkur. Hægt er að klæða sig upp sem víkingar og þar fást trésverð fyrir börnin.

Eftir dýrindis Perluferð lá leið okkar niður í miðbæ í stutt bæjarrölt.


Við vöknuðum þennan fína sunnudag útsofin og fengum okkur amerískan morgunverð eins og hann gerist bestur.
Faðir minn vann hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli í fjölda ára og lærði eitt og annað af Kananum sem við í fjölskyldunni höfum tileinkað okkur í gegn um árin. Eitt af því er steikt eggjabrauð eða ,,french toast'' eins og það er víst kallað. Mér þykir eggjabrauðið betra en amerískar pönnukökur en það er tilvalið í brunch með eggjum og beikoni


Steikt eggjabrauð
2 egg
1/2 dl  mjólk
salt
hvítur pipar
3 brauðsneiðar

pönnukökusýróp
smjörklípa
jarðarber
bláber

Pískið egg og mjólk saman í skál.
 Saltið og piprið eftir smekk. 


Veltið báðum hliðum brauðsneiðanna upp úr eggjablöndunni og látið liggja í bleyti í stutta stund.


 
Steikið brauðsneiðar á báðum hliðum þar til þær verða fallega brúnar. Þegar miðjan hefur bólgnað upp eru eggin elduð og brauðsneiðarnar tilbúnar.

Setjið brauðsneiðarnar á disk og smyrjið með smjöri. Hellið svo pönnukökusýrópi og sáldrið berjum yfir þær.


Gott er að nota brauð sem farið er að þorna því það drekkur betur í sig eggjablönduna. Því er tilvalið að steikja eggjabrauð ofan í fjölskylduna þegar brauðið á heimilinu er farið að nálgast síðasta söludag.


Verði ykkur að góðu og njótið þess að dansa í rigningunni í dag!


Tinna Björg

föstudagur, 23. ágúst 2013

Pizzaveisla á föstudegi

Nú er kærkomið helgarfrí gengið í garð eftir fyrstu skólavikuna. Vikan gekk vel og 14 vikna ungfrúin stóð sig með prýði mömmulaus á meðan ég mætti í skólann. Ég verð þó að viðurkenna að mömmuhjartað tók nokkur auka slög en hún var í góðum höndum og þau feðginin áttu góðar morgunstundir saman.

Ég eyddi restinni af deginum í frágang á peysu sem ég er að prjóna á dóttur mína eins og gömlum sálum sæmir en systir mín kom svo með fjölskylduna sína í pizzapartí á þessu fína föstudagskvöldi.

Þessi uppskrift hefur verið notuð í fjölskyldunni alla mína tíð og pizzur voru með því fyrsta sem ég bakaði. Ég fullyrði ekki að myndirnar séu girnilegustu pizzamyndir í heimi en bragðið er alveg hreint afbragð.


Pizza

2 1/2 tsk þurrger
1 1/2 dl volgt vatn
3/4 tsk salt
1 msk ólífuolía
3 1/2 dl hveiti

Leysið þurrger upp í vel volgu vatni.
Hrærið salti og ólífuolíu saman við.
Blandið hveiti saman við og hnoðið í hrærivél þar til deigið verður örlítið seigt.
 Leggið rakt viskastykki yfir skálina og látið hefast í 30-40 mínútur.

Ég er ekkert sérlega þolinmóð og finnst ekkert leiðinlegra en að bíða eftir að deig lyfti sér svo ég legg skálina með deiginu á stofuofninn og hækka hann í botn. Með þessari aðferð er nóg að láta deigið hefast í 20-25 mínútur.

Ég kaupi venjulega tilbúna pizzasósu en ákvað að breyta til í þetta skipti og prófaði að gera svipaða sósu og Jói Fel gerði í einum af skemmtilegu grillþáttunum sínum. Áður en ég set pizzasósuna á smyr ég þunnu lagi af tómatpúrru á deigið.

Skerið niður álegg eftir smekk og búið til sósu á meðan deigið hefast.

Sósa

3 skallottlaukar
2 stór hvítlauksrif
ólífuolía
1 flaska tómatpassata frá Himneskt
3-4 msk tómatpúrra
3 tsk oregano
3 tsk basilika
3-4 tsk pizzakrydd
salt
pipar

Saxið skallottlauk og hvítlauk smátt og steikið í potti upp úr smá ólífuolíu við vægan hita þannig að hann svissist.
Bætið tómatpassata og tómatpúrru saman við laukinn ásamt oregano, basiliku og pizzakryddi.
Hitið upp að suðu og látið svo krauma við vægan hita í nokkrar mínútur.
Smakkið til með salti og pipar.


Ein pizzauppskrift fyllir út í eina bökunarplötu ef hún er höfð ferhrynd. Ef pizzurnar eiga að vera kringlóttar dugar deigið í tvær.

Mótið slétta kúlu úr deiginu og fletjið út.
Leggið útflatt deigið á smjörpappír og smyrjið það með þunnu lagi af tómatpúrru.

Smyrjið sósunni svo yfir pizzuna.

Dreifið áleggi yfir pizzuna og sáldrið rifnum osti yfir. Ég nota tilbúinn pizzaost í pokum.
Ég set áleggið alltaf undir ostinn því ég vil hafa hann dökkan og stökkan en sumir vilja hafa hann undir og áleggið ofan á.

Áleggið verður hver og einn auðvitað að velja fyrir sig en ég gerði tvær með pepperoni og sveppum, eina með pepperoni, sveppum, lauk og ólífum fyrir föður minn og eina afar sérkennilega með pepperoni, banana og gráðaosti fyrir systur mína.


Bakið pizzuna við 200° í 15-20 mínútur eða þar til osturinn verður fallega brúnn.

Afgangurinn af sósunni geymist í lokaðri krukku í 1-2 vikur í ísskáp.


Verði ykkur að góðu og njótið morgundagsins í Reykjavík kæru vinir!

miðvikudagur, 21. ágúst 2013

Súrt og sætt jarðarberja- og hindberjapæ

Nú er öðrum skóladegi lokið og ég er ennþá að reyna að koma mér inn í rútínuna. Það er hægara sagt en gert að rífa sig upp eldsnemma á morgnana til að mæta í skólann þegar mann langar til að sofa og kúra til hádegis með litla gullinu sínu. Þetta venst þó vonandi allt saman á endanum.

Þótt skóladagurinn hafi nú ekki verið langur var ég eitthvað sérlega þreytt og buguð þegar ég kom heim en þegar ég er þreytt langar mig alltaf í sykur. Ég fór því út í garð og tíndi jarðarber til að gera þetta ljómandi góða jarðarberja- og hindberjapæ.

Jarðarberja- og hindberjapæ

200 g mjúkt smjör
200 g hveiti
200 g púðursykur
500 g fersk jarðarber
300 g frosin hindber

Hnoðið smjör, hveiti og púðursykur saman í skál.
Setjið jarðarber og hindber í botninn á eldföstu móti og dreifið deiginu yfir í bitum þannig að það hylji berin.
Bakið við 200° í 25-30 mínútur.

Berið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.


Þetta pæ er svo ljúffengt að þið hreinlega verðið að smakka það. Púðursykurinn og smjörið bragðast eins og karamella sem passar svo vel við súr berin.

Verði ykkur að góðu!

mánudagur, 19. ágúst 2013

Holusteikt lambalæri með sveppasósuÉg fór með fjölskyldunni upp í bústað um helgina til að nýta restina af sumrinu svona rétt áður en skólinn byrjar. Við fengum ágætis veður en þó ekki sólina sem var í Reykjavík.

Á meðan foreldrar mínir brugðu sér í berjamó skrapp ég og tíndi blóðberg. Mér finnst ofboðslega gott að krydda kjöt með blóðbergi en á laugardagskvöldið holusteikti ég lambalæri og hafði sveppasósu með.


Á þessum tíma sumarsins er blóðbergið oftast búið að blómstra fyrir vestan og getur verið aðeins erfiðara að finna plönturnar en ég fann þó dágóðan slatta og sumt ennþá blómstrandi.


Holusteik er í algjöru uppáhaldi en fjölskyldan mín hefur steikt lambalæri með þessum hætti í fjölda ára. Það er alveg tilvalið að hafa eina svona holu í garðinum við sumarbústaðinn.


Holusteikt lambalæri

Grafið holu 40-50 cm ofan í jörðina og klæðið botninn með flötum steinum. Leggið álpappírsræmu ofan á steinana í botninum og raðið einum pakka af kolum í hrauk ofan í holuna. Hellið grillvökva á kolin og kveikið í þeim á nokkrum stöðum þannig að kolin brenni jafnt.


Undirbúið lambalærið á meðan kolin loga.

1 lambalæri (2 kg)
2 handfylli blóðberg
salt
hvítur pipar

Kryddið lambalærið með salti og hvítum pipar og vefjið blóðbergi utan um. Pakkið því inn í þrjú lög af álpappír og passið að álpappírsrúllan sé nógu breið til að hylja allt lærið. Ef álpappírinn nær ekki allan hringinn utan um lambalærið getur hann farið að leka.

Ég notaði lambalæri með ferskum kryddjurtum frá Íslands Lambi en það er alveg eins gott að kaupa ómarinerað læri og krydda það. Þegar ég er með tilbúið kryddað læri skef ég megnið af kryddleginum af og bæti við salti og hvítum pipar áður en ég vef blóðbergi utan um.


Þegar ég tíndi blóðberg safnaði ég í leiðinni þurrum sprekum til að setja ofan í holuna með lærinu því mér þykja þau gefa lærinu svo gott reykjarbragð.


Þegar kolin eru hætt að loga og eru orðin hvít, dreifið þá úr þeim og leggið sprekin yfir. Setjið lambalærið ofan á kolin og lokið holunni með plötu, s.s. bárujárnsplötu eða einhverju slíku.


Reynið að loka holunni vel þannig að hitinn haldist ofan í en hafið þó örlítið op svo glóðin í kolunum slökkni ekki.Steikið lærið í holunni í 40 mínútur á hvorri hlið. Notið ofnhanska eða annan þykkan hanska til að snúa lærinu.

Takið lærið úr holunni og látið standa í 10-15 mínútur.


Sveppasósa

1 askja sveppir
3 msk smjör
500 ml matreiðslurjómi
1 ½ msk grænmetiskraftur frá Oscar
½ tsk hvítur pipar
3-4 msk ljós sósujafnari
soð af lambalærinu

Skerið sveppina í hæfilega stóra bita. Steikið þá í potti upp úr smjöri í nokkrar mínútur þar til sveppasoð hefur myndast í botni pottarins. Hellið matreiðslurjóma í pottinn og látið suðuna koma upp. Hrærið grænmetiskrafti og svörtum pipar saman við ásamt sósujafnara. Lækkið hitann og látið sósuna krauma í nokkrar mínútur. Hellið soði af lambalærinu sem verður eftir í álpappírnum ofan í pottinn.

Með lærinu hafði ég ofnbakað hvít- og rauðkál. Þið trúið því ekki hvað það er gott fyrr en þið smakkið það. Kálið verður mjúkt inni í en stökkt eins og snakk utan á.


Ofnbakað hvít- og rauðkál

½ hvítkálshaus
½ rauðkálshaus
ólífuolía
sjávarsalt

Skerið hvít- og rauðkál í mjóar ræmur og setjið í eldfast mót eða ofnskúffu. Hellið ólífuolíu yfir allt kálið og verið ekkert að spara hana. Stráið sjávarsalti yfir kálið og blandið saman við.

Bakið ofarlega í ofni við 225–250° í 15-20 mínútur eða þar til kálið er farið að brúnast og endarnir orðnir stökkir.

Ég ofnbakaði líka kartöflur og sætar kartöflur með ólífuolíu og rósmarín og hafði fljótlegt grænmetissalat með.


Maturinn bragðaðist dásamlega. Ég skora á ykkur sem hafið tök á að holusteikja lambalæri og prófa þessa óhefðbundnu eldunaraðferð. Þið verðið sko ekki svikin, því get ég lofað.


Þakka ykkur kærlega fyrir að fylgjast með litla matarblogginu mínu kæru vinir og njótið dagsins!

Tinna Björg

föstudagur, 16. ágúst 2013

Himneskar kókoskúlurÉg ætla aðeins að halda áfram með hollustuhugleiðingarnar áður en ég legg af stað upp í sveit þar sem hollustan verður alls ekki í fyrirrúmi. Mig langar að deila með ykkur uppskrift að kókoskúlum sem ég á oft í frystinum til að taka með mér í skólann. Þær eru bæði hollar og alveg sjúklega góðar. Þrátt fyrir að hráefnin séu holl og góð fyrir líkama og sál þá innihalda kókoskúlurnar dágóðan slatta af hitaeiningum og fitu svo ég læt mér nægja að fá mér eina eða tvær.

Mér líður best þegar ég borða meiri kolvetni fyrri part dags og dreg svo úr kolvetnaneyslunni þegar líða fer á daginn. Þá reyni ég að borða aðeins próteinríkara seinni partinn. Kókoskúlurnar eru því tilvalið millimál í skólann eða vinnuna.

 
Kókoskúlur

150 g döðlur
200 g gráfíkjur
3 msk hnetusmjör
100 g afhýddar möndlur
1 bolli kókosmjöl
2 tsk vanilludropar
3-4 tsk kakó
1 tsk kanill
(1-2 msk hunang)

Sjóðið döðlur í vatni í 5-10 mínútur og hellið af þeim. Maukið í matvinnsluvél ásamt gráfíkjum. Bætið hnetusmjöri og möndlum saman við. Setjið að lokum restina af hráefnunum út í og blandið vel saman þar til deigið verður nógu blautt til að hnoða í kúlur.

Ef deigið er þurrt, bleytið þá upp í því með smá meira af vanilludropum eða 1-2 msk af hunangi. Það er aldrei of mikið af elskulegu vanilludropunum í neinni uppskrift!

Kælið deigið í ísskáp í um 30 mínútur.

Hnoðið það svo í hæfilega stórar kúlur og veltið þeim upp úr kókosmjöli.

  
Ég nota frekar vanilludropa til að bleyta upp í deginu en hunang því mér finnst kúlurnar verða alveg nógu sætar án þess.

Að vinna deigið í matvinnsluvél getur verið svolítið tímafrekt og leiðinlegt þegar maður á lélega matvinnsluvél eins og ég. Stundum langar mann að gráta smá úr leiðindum á meðan því stendur en þessar kókoskúlur eru alveg nokkurra tára virði. Ég lofa.

  
Verði ykkur að góðu og njótið helgarinnar kæru vinir!


Tinna Björg