miðvikudagur, 25. júní 2014

Lárperupasta með grillaðri kjúklingabringu


Ef það er eitthvað sem ég kann ekki að elda þá er það pasta. Ofsýð það alltaf þar til það verður slímugt því mér finnst pasta svo gott þannig. Á meðan ég borða ofsoðna pastað mitt, sem enginn vill borða með mér, hugsa ég um ofsoðnu pastaslaufurnar með tómatsósu og hráum pylsubitum sem ég fékk alltaf í hádeginu í hestaskólanum sem barn. Þvílíkt hnossgæti! Einu skiptin sem ég komst upp með að borða ósoðnar pylsur voru hjá honum Rabba í hestaskólanum því hún móðir mín var lítt hrifin af tilhugsuninni um að fóðra barnið sitt með svona ómeti.

Ég prófaði að gera tagliatelle með avocadosósu í fyrsta skipti fyrir nokkrum dögum. Uppskriftina kýs ég að kalla lárperupasta því avocadopasta hljómar svolítið skringilega. Ég ofsauð pastað auðvitað en fjölskyldan borðaði það samt sem áður með bestu lyst. Með pastanu grillaði ég kjúklingabringur, það varð að vera smá kjúklingur með öllu þessu græna. Ég viðurkenni að pastað er með ógirnilegri réttum sem ég hef eldað en ekki láta myndina blekkja, lárperupastað er dásamlega gott.


Lárperupasta
Fyrir 4

4 kjúklingabringur
250 g ósoðið tagliatelle
1 stórt avocado
2 msk grísk jógúrt
safi úr 1/4 sítrónu
1/2 - 1 dl olía
2 hvítlauksrif
handfylli fersk basilíka
smá ferskt oregano, steinselja og majoram eða önnur krydd
1/2 dl rifinn parmesanostur
1/2 tsk paprikuduft
sjávarsalt
svartur pipar
6-8 sólþurrkaðir tómatar í olíu 

 Penslið kjúklingabringur með smá olíu og kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar. Grillið bringurnar í 5-7 mínútur á hvorri hlið og útbúið pastað á meðan.

Ég ætla ekki að fara að kenna ykkur að ofsjóða pasta svo þið farið bara eftir leiðbeiningum á pakkanum. Ég bæti þó alltaf smá olíu út í pottinn svo það límist ekki saman. Á meðan pastað sýður er ágætt að nýta tímann til að gera sósuna.
Afhýðið og skerið avocado í bita og maukið í matvinnsluvél ásamt grískri jógúrt, sítrónusafa, basílíku og öðrum ferskum kryddum, parmesanosti og paprikudufti. Smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar og bætið við olíu ef blandan er of þykk fyrir matvinnsluvélina að mauka.

Sigtið pasta og veltið upp úr lárperusósunni. Skerið sólþurrkaða tómata í bita og blandið saman við pastað.
Skammtið á fjóra diska og leggið kjúklingabringur ofan á.
Berið fram með góðu hvítlauksbrauði og parmesanosti.

Athugið að sólþurrkuðu tómatarnir eru svolítið yfirþyrmandi svo það er ágætt að hafa minna af þeim en meira.
Lárperupastað er virkilega gott eitt og sér og algjörlega óþarfi að hafa endilega kjúkling með því.

Slímugt, en bragðgott.
Hakúna Matata!


Tinna Björg

mánudagur, 23. júní 2014

Ostabrauðstangir með piparostasósu - Fullkomið HM snakk!


Þegar HM er í fullu fjöri er nauðsynlegt að eiga eitthvað gott nasl fyrir fótboltaáhugamennina í fjölskyldunni, er það ekki annars? Ég bakaði svoleiðis stórkostlegar ostabrauðstangir í gærkvöldi sem henta vel yfir fótboltanum. Með brauðstöngunum bar ég svo fram piparostasósu, af því að það er aldrei nóg af osti.


Ostabrauðstangir með piparostasósu

Ostabrauðstangir

120 ml volgt vatn
1 1/2 tsk þurrger
1/2 msk sykur
1 tsk salt
1 msk olía
240 g hveiti
1 1/2 hvítlauksrif
30 g brætt smjör
30 g fínt rifinn parmesanostur
200 g rifinn ostur
pizzakrydd
sjávarsalt
svartur pipar

Leysið upp ger og sykur í volgu vatni og blandið salti og olíu saman við. Hrærið hveiti smátt og smátt út í deigið og hnoðið þar til það kemur saman í kúlu sem festist við hnoðarann á hrærivélinni. Setjið plastfilmu yfir skálina og látið hefast í um 1 klst. Gott er að smyrja botn og hliðar á glerskál með smá smjöri og færa deigið yfir í hana þannig að auðveldara sé að losa það úr að hefun lokinni. Ég legg deigskálina oftast á heitan stofuofn til að flýta fyrir hefuninni, enda með eindæmum óþolinmóð.

Sáldrið smá hveiti á borðflötinn og fletjið deigið út þannig að það verði ferhyrnt og hæfilega þykkt. Ég fatti það út þannig að deigið passaði í ferhyrnt kökuform. Ég smurði formið með ágætis dassi af olíu og lagði deigið svo ofan í og teygði það út í öll horn. Ef þið eigið ekki ferhyrnt kökuform er alveg eins gott að setja deigið á bökunarpappírsörk sem smurð hefur verið með olíu.

Pressið hvítlauksrif og blandið saman við brætt smjör. Penslið hvítlaukssmjöri á deigið og sáldrið parmesanosti og osti yfir. Kryddið með pizzakryddi, sjávarsalti og svörtum pipar. Ég notaði Heitt pizzakrydd frá Pottagöldrum. Bakið við 260° í 8-10 mínútur eða þar til deigið hefur dökknað og osturinn verður stökkur. Skerið brauðið í stangir og berið fram með heitri piparostasósu.


Piparostasósa

1 piparostur
1 1/2 - 2 dl mjólk

Rífið piparost þannig að hann bráðni fyrr og bræðið hann saman við mjólk. Það getur tekið svolítið langan tíma fyrir ostinn að bráðna og því þarf að passa að hafa ekki of lágan hita á hellunni. Athugið þó að sósan brennur auðveldlega við.

Ég át á mig gat í gærkvöldi. Kom svo heim úr vinnunni í dag og át á mig afgangagat.
 


Prófið þetta gotterí!


Tinna Björg

laugardagur, 21. júní 2014

Dásamleg helgartertaÞað er kominn tími á eina helgartertu. Þessa unaðslegu marengstertu bakaði ég fyrst fyrir afmælisveislu stelpunnar minnar og ég held hreinlega að þetta sé ein sú besta til þessa. Snickers kremið ofan á tertunni er eiginlega bara fáránlegt. Ástaraldinið í rjómanum gefur henni súran og frískan keim sem vegur upp á móti öllum sykrinum. Dásamlegt.
Snickers marengs með ástaraldini

Marengsbotnar:
 
4 eggjahvítur
3 dl sykur
3 bollar Rice Krispies

Þeytið eggjahvítur í skál þar til þær verða stífar og ekki lengur froðukenndar. Bætið við sykri og stífþeytið. Blandið því næst Rice Krispies varlega saman við blönduna. Teiknið með blýanti hring á sitthvora bökunarpappírsörkina. Gott er að nota botninn úr 20 eða 24 cm kökuformi til að teikna eftir. Skiptið marengsblöndunni jafnt á bökunarpappírsarkirnar og smyrjið þannig að hún fylli upp í teiknuðu hringina.
Bakið marengsbotnana við 120° í 60 mínútur.


400 ml þeyttur rjómi
250 g jarðarber
3 ástaraldin
100 g Snickers

Skerið jarðarber í litla bita, skerið ástaraldin í tvennt og skafið innan úr þeim með skeið. Saxið Snickers í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma ásamt jarðarberjum og innihaldi ástaraldinanna.
Hvolfið öðrum marengsbotninum á fallegan kökudisk og smyrjið rjómablöndu jafnt yfir. Leggið svo hinn botninn ofan á.


Snickers krem:

200 g Snickers
40 g suðusúkkulaði
50 g smjör
4 eggjarauður
60 g flórsykur

Skerið Snickers í bita og bræðið í potti ásamt suðusúkkulaði og smjöri. Kælið blönduna í 10-15 mínútur. Þeytið eggjarauður þar til þær verða léttar og ljósar og bætið flórsykri smátt og smátt saman við. Þegar blandan hefur þykknað, bætið súkkulaðiblöndu saman við hana og þeytið í 2-3 mínútur.
Hellið kreminu jafnt yfir marengstertuna og skreytið hana að vild.


Þið hreinlega verðið að prófa þessa elsku.
Góða helgi!


Tinna Björg 

þriðjudagur, 17. júní 2014

Heimsins besta hummus!


17. júní gleðin í ár var af skornum skammti en við fjölskyldan skruppum þó aðeins að sjá fjölskylduskemmtunina á Rútstúni í Kópavogi. Rigningin var heldur mikil fyrir minn smekk svo við skelltum okkur bara heim í kotið.
Við mamma nenntum ómögulega að standa í bakstri og ætluðum því að kaupa einhverjar kræsingar í bakaríi á leiðinni heim. Það var lítið sem ekkert í boði þegar við mættum í bakaríið niðurrigndar og fínar. Við brugðum á það ráð að kaupa kökumix sem við poppuðum svo aðeins upp. Fyrir valinu varð gulrótarkökumix með tilbúnu vanillukremi og Reese's bollakökumix með hnetusmjörsfyllingu. 


Ég bætti ferskum gulrótum í kökuna og þeytti rjómaost saman við vanillukremið til að gera hana aðeins gulrótarkökulegri. Kremið var svoleiðis slefandi gott.


Til að gera bollakökurnar aðeins (mikið) óhollari setti ég á þær tilbúið súkkulaði- og karamellukrem og skreytti þær með Reese's. Ljómandi gott!

Svo er það rúsínan í pylsuendanum, heimsins besta hummus. Með svona sykurbombu finnst mér alltaf gott að hafa eitthvað salt til að narta í svona inn á milli kökusneiða, í þeirri beit sem á sér stað þegar ég kemst í eitthvað gotterí.
Hummus er eitthvað sem ég get alltaf borðað, frábær kostur þegar mann langar í eitthvað hollt og gott álegg. Best finnst mér að borða það ofan á súrdeigsbrauð eða ciabatta. Svo er líka frábært að skera niður stökkt pítubrauð og dýfa í hummusið.


 Heimsins besta hummus

1 dós niðursoðnar kjúklingabaunir
1 - 1/2 hvítlauksrif
2 msk grísk jógúrt
1 dl olía
safi úr 1/2 sítrónu
smá nautakraftur
salt
svartur pipar
steinselja eftir smekk

Hellið vökva af kjúklingabaunum og maukið í blandara eða matvinnsluvél ásamt hvítlauksrifi, grískri jógúrt, olíu og sítrónusafa. Smakkið til með nautakrafti, salti og pipar. Saxið steinselju og blandið saman við hummusið.

Hægt er að nota nautakraft í duftformi en ég leysi upp nautatening í smávegis af sjóðandi  heitu vatni.

Í staðinn fyrir gríska jógúrt er líka virkilega gott að nota AB mjólk.

Berið fram með einhverju góðu brauði eða pítubrauði sem skorið hefur verið í stangir.Nýlega fór afþreyingarvefurinn Króm í loftið þar sem uppskriftirnar mínar birtast ásamt alls kyns fróðlegu skemmtiefni fyrir bæði kynin. Ég hvet ykkur til að líta við og skoða.

Svo má ekki gleyma Instagram! notandanafnið mitt er tinnabjorgcom ef þið viljið fylgjast meira með mér í máli og myndum.

Njótið 70. þjóðhátíðarkvöldsins!


Tinna Björg

fimmtudagur, 12. júní 2014

Smáköku-bake off í sveitinni


Bloggleysið er í hávegum haft þessa dagana. Við fjölskyldan komum heim úr sveitinni á þriðjudagskvöldið eftir langa helgi í sælunni. Afslöppunin var nú svosem ekki mikil því pabbi og mágur minn unnu hörðum höndum alla ferðina að endurbótum á sumarhúsinu á meðan við systurnar eltum börn um fjöll og firnindi. Laugardagurinn var dásamlegur, þvílíkt og annað eins blíðskaparveður! Við systir mín fórum með litlurnar tvær og litla frænda í sund, Klara Sóllilja hataði ekki að fljóta um laugina með sólhatt í nýja flothringnum sínum. Spánn hvað. Ungbarnarólurnar voru svo settar upp fyrir ofsa glöðu tvíburafrænkurnar.


Systir mín bjó til stóran og flottan ratleik og fjársjóðsleit fyrir Halldór Nökkva, systurson minn, svo hann hefði nú eitthvað við að vera. Stórkostleg afþreying fyrir krakka í ferðalagi!

Fyrsta vísbending ratleiksins

Á sunnudeginum kíktum við í menninguna í Búðardal og fórum þar á krúttað og kósý kaffihús niðri við höfnina. Já, það er höfn í Búðardal. Kaffihúsið heitir Leifsbúð. Ég var þar tíður gestur þegar ég vann á Hóteli Eddu á Laugum í Sælingsdal sumarið 2012 og finnst alltaf jafn notalegt að koma þangað. Ekki skemmir þessi dýrindis leikaðstaða þar sem hægt er að sitja í sófa og slappa af með kaffibollanum sínum á meðan börnin dunda sér. Auk þess að hýsa kaffihús er í húsinu starfrækt upplýsingamiðstöð og landfundasýning sem vert er að skoða. Fæstir sem eiga leið um Búðardal á ferðalagi sínu um landið gefa sér tíma til að stoppa nema þá aðeins í sjoppunni til að gúffa í sig óhollu snarli eða taka bensín. Já eða til að friða suðandi börn. Ég hvet ykkur til að bregða út af vananum næst þegar þið eigið leið um bæinn kæru vinir og kíkja á notalega kaffihúsið í Leifsbúð, þeir svöngu geta fengið sér kjötsúpuna sem þar er á boðstólnum. Upplýsingar um Leifsbúð má finna á Facebooksíðu kaffihússins.

 Leifsbúð í Búðardal

Við sykurelskandi systur sórum þess eið að þessi sveitarferð yrði sykurlaus og ætluðum eingöngu að hafa meðferðis hlaðborð ávaxta til að nasla í á kvöldin í staðinn fyrir snakkið og nammið. Svo rangt. Þessi fyrirheit viku fyrir þremur sortum af smákökum og alls konar óhollu takk fyrir pent. Ég bakaði pistasíufléttu sem entist ekki lengi en tók svo með tilbúið smákökudeig sem ég hrærði í snemma á föstudeginum fyrir brottför. Á laugardagskvöldinu vorum við systurnar svo með smáköku-bake off þar sem litli sjö ára frændi var dómarinn. Hann þorði ekki öðru en að dæma jafntefli, honum var svosem slétt sama um úrslitin þegar kökurnar voru komnar ofan í maga.


Í staðinn fyrir að setja Reese's Peanut Butter Cups í deigið setti ég þessa Reese's dropa sem ég rakst á í Krónunni um daginn. Sóðalega góðir, svo ekki sé meira sagt.
Hér höfum við mína uppskrift í bake off ókeppninni.


Smákökur með hvítu súkkulaði og Reese‘s dropum

225 g mjúkt smjör
400 g sykur
150 g púðursykur
2 egg
2 tsk vanilludropar
375 g hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
200 g hvítt súkkulaði
250 g Reese‘s dropar

Hrærið saman smjör, sykur og púðursykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið við vanilludropum og eggjum, einu í einu. Hrærið hveiti, matarsóda og salti saman við sykurblönduna. Saxið hvítt súkkulaði og blandið saman við deigið ásamt Reese‘s dropum. Kælið deigið í 20-30 mínútur, rúllið því upp í hæfilega þykkar rúllur og kælið aftur í 10-20 mínútur. Skerið deigrúllurnar niður í smákökur, raðið þeim á smörpappírsklæddar bökunarplötur og bakið við 175° í 10-12 mínútur.

Smákökuhimnaríki, já ójá.


Takk fyrir að fylgjast með mér elsku þið...


Tinna Björg

miðvikudagur, 4. júní 2014

Kvöldmatur í miðri viku


Vikan hálfnuð og flesta eflaust farið að lengja eftir helginni. Ekki skemmir hún tilhlökkunina þessi dásamlega veðurspá, veðrið á að minnsta kosti að vera blómstrandi yndislegt í minni sveit. Þótt rigningin sé kærkomin fyrir jarðarberjaplönturnar og kryddjurtirnar þá finnst mér nóg komið af vökvun í bili. Vil fá sólina og sumarið sem vorið lofaði. Mér sýnist það ætla að ganga eftir, sú gula reyndi að minnsta kosti að gægjast á milli skýja hérna í Kópavoginum seinnipartinn. Við systurnar gerðum heiðarlega tilraun til að fara með litlurnar okkar í gönguferð í hádeginu en snerum við á punktinum þegar fór að rigna. Dagurinn í dag fór því fram aðallega innandyra.

En mál málanna, matur í miðri viku. Þegar ég var í menntaskóla var ekki óvinsælt hjá okkur vinkonunum að bruna í hádegishléinu á Nings og gúffa í okkur eggjanúðlunum ljúffengu. Það getur verið dýrt að kaupa skyndibita fyrir heila fjölskyldu þegar núðlulöngunin lætur á sér kræla en þá er tilvalið að elda þær sjálfur fyrir hressilega lægri summu. Eggjanúðlurnar eru svona ekta matur í miðri viku, skammturinn er stór og hægt að skella afganginum í nestisboxið daginn eftir. Ég hef stundum kjúkling og stundum ekki, fer allt eftir því hversu mikinn metnað ég hef fyrir eldamennsku hverju sinni.Eggjanúðlur með kjúklingi

5-6 kjúklingalæri eða 2-3 bringur
salt
hvítur pipar
olía
200 g brokkolí
2-3 stórar gulrætur
1 púrrulaukur
spínat eftir smekk
6 egg
1 pakki Thai Choice núðlur
3-4 tsk chilimauk
aromat

 Hreinsið kjúklingalæri, skerið í hæfilega stóra bita og steikið á pönnu með smá olíu, salti og hvítum pipar. Setjið í stóra skál og leggið til hliðar. Skerið brokkolí í litla bita og sneiðið afhýddar gulrætur með ostaskera. Steikið brokkolíið og gulræturnar með smá olíu í 5-7 mínútur eða þar til grænmetið byrjar að mýkjast örlítið. Setjið í skálina með kjúklingabitunum og leggið til hliðar.
Skolið saltið af núðlunum með köldu vatni og sjóðið eftir leiðbeiningum án þess þó að kæla þær. Á meðan núðlurnar sjóða, steikið eggin á pönnu og búið til eggjahræru. Eggin eru tilbúin þegar þau eru fullelduð og hafa sundrast í litla bita.
Hellið vatni af núðlum, skerið nokkrum sinnum í gegn um þær með hníf svo þær verði styttri og steikið á pönnu með smá olíu, chilimauki og aromati. Blandið kjúklingabitum, gulrótum, brokkolíi, eggjum og spínati saman við núðlurnar og hitið allt saman á pönnu í nokkrar mínútur.

Til að fá góða thaílenska eggjanúðlubragðið er gott að nota smá sesamolíu við steikinguna en þó ekki nauðsynlegt. Ég gleymi því oftast en samt eru núðlurnar alltaf jafn ljúffengar.
Af því það eru til tvær pönnur á heimilinu, ein steikarpanna og ein wokpanna, þá nota ég þær báðar við gerð núðluréttarins. Mér finnst best að steikja kjúklinginn og eggin á steikarpönnunni en grænmetið og núðlurnar á wokpönnunni. Þannig losna ég við að steikarbrælan, sem eftir situr á pönnunni eftir kjúklinginn og eggin, blandist saman við núðlurnar.


Eggjanúðlurnar eru dásamlegar einar og sér en best finnst mér að borða þær með hrísgrjónum og sataysósu eða súrsætri.

Verði ykkur að góðu! 


Tinna Björg