miðvikudagur, 31. júlí 2013

Glæsileg myntuskyrkaka, marsipanformkaka og klúbbsamloka fyrir karlana.11 vikna gömul dóttir mín er að taka einn af sínum fjölmörgu vaxtarkippum sem lýsa sér þannig að í 3-4 daga drekkur hún með tveggja tíma millibili og virðist aldrei fá nóg að drekka. Vanalega verður hún ekki svöng fyrr en um klukkan 8 á morgnana en í vaxtarkipp vaknar hún tvisvar yfir nóttina til að drekka. Þegar þessu 3-4 daga tímabili er lokið taka við nokkrir dagar þar sem hún sefur nánast allan sólarhringinn og vaknar aðeins til að drekka. Magnað hvernig þessir litlu kroppar vinna. Í dag var einn af þessum svefndögum og ég fékk nægan tíma til að dúllast í eldhúsinu. 


Mig langaði að nýta eitthvað af myntunni í garðinum svo ég bjó til uppskrift að myntuskyrköku. Mér finnst mynta og súkkulaði vera hin fullkomna blanda og ég er mikið fyrir súkkulaði eins og After Eight og Pipp. Þótt ég hafi búið til algjörlega nýja uppskrift í dag er myntuskyrkaka ekki mín hugmyndasmíð en ég kynntist henni þegar ég vann á Hótel Eddu á Laugum í Sælingsdal síðasta sumar. Á eftirréttamatseðli veitingastaðarins á hótelinu er boðið upp á myntuskyrköku en hún er þó ólík þeirri sem ég gerði í dag.

Súkkulaðið í kökunni vegur upp á móti myntunni og það sem gerir hana enn gómsætari er ekta vanillubragðið sem vanillustöngin gefur.


Ég bakaði líka marsipanformköku sem mér finnst alveg unaðslega góð. Kakan sjálf er gömul jólakökuuppskrift frá móðurömmu minni. Hugmyndina að því að setja marsipan í kökuna fékk ég frá Gógó frænku minni heitinni. Þegar ég fór til Ísafjarðar á sumrin með foreldrum mínum sem barn fórum við alltaf í heimsókn til Gógó frænku og Inga frænda. Í einni heimsókninni var Gógó nýbúin að baka sandköku og hafði átt afganga af marsipani sem hún vildi ómögulega henda. Úr varð þessi dýrlega marsipanformkaka sem ég hef aldrei getað gleymt.

  

Það var ekki bara kökuveisla hjá karlmönnunum á heimilinu í kaffitímanum heldur steikti ég klúbbsamlokur fyrir þá líka. Samlokan er i miklu uppáhaldi hjá kærastanum mínum og ég held mér sé óhætt að fullyrða að þið konur munuð vinna ykkur inn nokkur prik í kladdann með þessari.Verslunarmannahelgin nálgast óðfluga og á morgun ætla ég að birta uppskriftir að tvenns konar sítrónukökum sem þægilegt er að hafa með í ferðalagið. Ég er afar hrifin af formkökum, sér í lagi sítrónuformkökum.


Vonandi njótið þið þessara uppskrifta jafn mikið og ég geri.
Bestu kveðjur!

Tinna Björg


þriðjudagur, 30. júlí 2013

Jarðarberja- og myntuæði


Móðir mín fór út í garð í gærkvöldi og tíndi nokkur jarðarber. Ég náði því miður ekki að taka mynd af stærstu berjunum áður en þau voru borðuð af jarðarberjaskrímslunum á heimilinu. Þau eru í smærra lagi en óskaplega góð og alveg dísæt.Plönturnar hafa dreift sér um alla brekkuna hér heima og vanalega fáum við nokkur kíló af berjum á sumrin. Sumarið hefur þó verið svo kalt og sólarlaust að berin eru seint á ferðinni þetta árið og ekki eins mörg og í fyrra. Systursyni mínum finnst svakalega gaman að fá að fara út í garð að tína enda eru jarðarber það besta sem hann fær.

Ég er lítið fyrir rabarbarasultu og læt móður minni það eftir að búa hana til en hins vegar geri ég rabarbara- og jarðarberjahlaup alltaf á sumrin. Þegar fleiri ber hafa þroskast ætla ég að gera hlaupið og deila uppskriftinni með ykkur. Ég kíkti út í garð áðan og sá að rifsberin eru aðeins að byrja að roðna svo ég get farið að hlakka til að gera rifsberjahlaupið í ágúst.

Myntuplantan sem ég setti niður fyrir nokkrum árum hefur dreift úr sér og vex núna eins og arfi, innan um annan arfa sem við mæðgur höfum ekki nennt að reyta.Myntuna nota ég mest í drykki. Mér finnst rosalega gott að fá mér jarðarberjamojito á sumrin, hvort sem hann er áfengur eða óáfengur. Einnig geri ég mér stundum hreinsunardrykk þegar mig langar að bregða út af vananum og fá smá bragð af vatninu. Ég lofa engu um hreinsunargildi drykkjarins en hann er svo góður og svalandi að hreinsandi eiginleikinn yrði þá bara plús.

Í síðustu viku gerði faðir minn sér te úr myntunni en það á að vera mjög slakandi. Ég ætla að gera myntuskyrtertu  við tækifæri en ef þið hafið fleiri hugmyndir sendið mér þá endilega línu!

Ég vil helst ekki frysta myntuna því þegar hún er tekin úr frystinum verða blöðin lin og bragðið orðið heldur dapurt.Eigið góðan dag!


Tinna Björg

mánudagur, 29. júlí 2013

Hollt bananabrauð

Velkomin á matarbloggsíðuna mína!

Þar sem ég er sérleg áhugamanneskja um matargerð og bakstur hef ég ákveðið að halda úti bloggsíðu til að deila ógrynni af uppskriftum sem ég hef sankað að mér í gegn um árin ásamt vangaveltum tengdum matargerð. Safnið samanstendur af bæði hollum og óhollum uppskriftum að hinu ýmsa góðgæti svo allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi.

Fyrsta uppskriftin sem ég set hér inn er af sykur- og hveitilausu bananabrauði sem ég geri stundum þegar ég vil halda mataræðinu í heilsusamlegri kantinum. Þið verðið að afsaka myndina af brauðinu, ég tók hana í flýti en sannið til, þær verða fallegri og girnilegri með hverju blogginu.
Uppskriftina finnið þið hér.


Endilega fylgist líka með mér á facebook, like-ið og deilið.