föstudagur, 29. ágúst 2014

Ferskt sesarsalat með grískri jógúrt


Við mamma vorum sammála um að það væri löngu kominn tími fyrir gott sesarsalat. Ég vippaði því fram úr erminni þeim ljúfa og létta rétti í gærkvöldi. Hin hefðbundna sesarsósa þykir mér aðeins of þung í magann og ansjósur eru alls ekki minn tebolli. Það er bara eitthvað svo furðulegt við að hafa litla fiska í salatinu sínu og langt frá því að vera bragðgott. Þegar ég geri sesarsalat sleppi ég ansjósunum og geri sósuna úr grískri jógúrt til helminga við majonesið.Sesarsalat með brauðteningum


Kjúklingabringur

3 kjúklingabringur
1-2 hvítlauksrif
börkur af 1 sítrónu
1/2 dl olía
sjávarsalt
svartur pipar

Setjið kjúklingabringur í skál eða fat og leggið til hliðar. Rífið hvítlauk og setjið í litla skál ásamt sítrónuberki og olíu. Blandið saman og hellið yfir kjúklingabringurnar. Veltið bringunum upp úr marineringunni og látið standa í skálinni í um 30 mínútur eða á meðan þið gerið brauðteningana og salatið. Þegar kjúklingabringurnar hafa marinerast, saltið þær og piprið. Grillið bringurnar svo á háum hita í 5-7 mínútur á hvorri hlið eða steikið í ofni í 40-50 mínútur við 180°.


Brauðteningar

250 g súrdeigsbrauð
5-6 msk olía
chiliduft
sjávarsalt
svartur pipar

Fjarlægið skorpu af súrdeigsbrauðinu og skerið það í hæfilega stóra teninga. Dreifið brauðteningunum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og hellið olíu jafnt yfir. Veltið þeim upp úr olíunni og kryddið með chilidufti, sjávarsalti og svörtum pipar.
Bakið brauðteningana í ofni við 220° í 10-15 mínútur eða þar til þeir verða stökkir og fallega brúnir á endunum.

Ég nota kringlótta súrdeigsbrauðið úr Hagkaup. Þótt það sé svolítið mikil vinna að fjarlægja þykku skorpuna af því þá er það alveg fullkomið í brauðteninga. Svo er líka ljómandi gott að nota ciabatta.


Sesarsósa & salat

1 höfuð romain salat
3 msk Hellman's majones
3 msk grísk jógúrt
1 tsk dijon sinnep
2 hvítlauksrif
2 msk ferskur sítrónusafi
3/4 dl rifinn parmesan ostur
sjávarsalt
svartur pipar
100 g pecan hnetur
8-10 kirsuberjatómatar


Skerið endann af salathöfðinu og skolið blöðin með köldu vatni. Ég legg þau á eldhúspappír til þerris á meðan ég útbý salatsósuna.
Hrærið saman í skál majones, gríska jógúrt og dijon sinnep. Pressið hvítlauk og blandið saman við sósuna ásamt sítrónusafa og rifnum parmesan osti. Smakkið til með sjávarsalti og svörtum pipar. Ég nota Hellman's majones af því að það er hvítara og lítur betur út í sósunni en það er alveg jafn gott að nota þetta gamla góða íslenska.
Skerið salatblöðin hæfilega smátt, hellið sesarsósunni yfir og blandið vel saman við salatið.  Skiptið salatinu jafnt á þrjá diska og sáldrið pecan hnetum yfir ásamt kirsuberjatómötum sem hafa verið skornir í fernt. Skerið kjúklingabringur í sneiðar og leggið þær ofan á salatbeðið.

Parmesanpervertar eins og ég geta svo borið salatið fram með auka parmesan osti ofan á.


Þetta dásamlega salat er tilvalinn föstudagskvöldmatur, létt og laggott en samt smá fyrirhöfn. Brauðteningarnir eru líka svo mikill unaður að það er ekki nokkru lagi líkt. Ég geri alltaf nokkra aukalega af því að þeir eru aldrei svo heppnir að rata allir á salatið. Í gær gerði ég svolítið mikið af auka brauðteningum, þið megið giska einu sinni á hvað ég borðaði í hádegismat. Jább, eintóma brauðteninga.

Góða helgi!


Tinna Björg

þriðjudagur, 26. ágúst 2014

Nýjasta æðið

Berjatínslutímabilið er í fullum gangi þessa dagana. Landsmenn velta svoleiðis berjabláir á rassinum niður hlíðarnar með fullar fötur og er mín fjölskylda engin undantekning. Góðar fréttir fyrir Tinnu sem tínir ekki ber. Ég læt foreldra mína og systur alveg vera við þá iðju, svo sit ég eins og klessa og háma í mig afrakstur erfiðis þeirra. Toppnæs.

Nýjasta æðið hjá mér þessa dagana er grísk jógúrt með rjóma og aðalbláberjum. Himnesk þrenna, ég mana ykkur til að prófa.


Bestu kveðjur,


Tinna Björg

mánudagur, 25. ágúst 2014

Bestu kökupinnar veraldar - Þarf ekki að baka!


Það er ótrúlega mikill mánudagur í mér svo ég ætla að deila með ykkur uppskrift að góðgæti vikunnar, svona til að gera grámygluna sem virðist vera að skella á ögn bærilegri. Kökupinnar! Svo einfaldir og unaðslegir. Það kemur á óvart hversu himnesk blanda rjómaostur og Ballerina kex er. Þessa uppskrift fékk ég hjá systur minni en hún er vinsæl hjá fjölskyldunni, góðir kökupinnar klikka aldrei.


Ballerina kökupinnar
40-44 stk

4 pakkar Ballerina kex
240 g rjómaostur
400-500 g hvítt súkkulaði

Malið Ballerina kex fínlega í matvinnsluvél. Bætið rjómaosti við og haldið áfram að vinna í matvinnsluvél þar til rjómaosturinn hefur blandast vel saman við kexið. Rúllið 40-44 jafnstórar kúlur úr deiginu. Mér þykir best að vigta hverja kúlu þannig að þær verði alveg jafn stórar, 24 g er passleg þyngd. Raðið kúlunum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og kælið þær í 20-30 mínútur. Þær mega ekki vera of kaldar því þá verður erfitt að stinga kökupinnum í kúlurnar og hvíti súkkulaðihjúpurinn verður of þykkur.

Bræðið hvítt súkkulaði í skál yfir heitu vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Dýfið kökupinna um 1 cm ofan í súkkulaðið og stingið varlega í kælda kökukúlu, um það bil inn að miðju. Þetta er gert svo auðveldara verði að þekja kúluna án þess að súkkulaði fari á pinnann þar sem hann stingst út úr kúlunni. Dýfið svo kúlunni ofan í hvíta súkkulaðið þannig að hún hjúpist alveg. Leggið kökukúluna á bökunarpappír þannig að pinninn vísi upp og leyfið hvíta súkkulaðinu að storkna. Endurtakið með hverja kökukúlu.

Ég skreytti kökupinnana með bláum sykurmassablómum. Í staðinn fyrir hvítt súkkulaði er hægt að nota Candy Melts sem fæst í ýmsum litum. Ég kýs heldur að nota hvítt súkkulaði af því að mér finnst það meðfærilegra, það bráðnar betur og áferðin verður fallegri. Til að lita súkkulaðið fallega þarf sérstaka súkkulaðiliti. Það súkkulaði sem mér finnst best að nota heitir White Melting Wafers frá Ghirardelli en það er í raun hægt að nota hvaða hvíta súkkulaði sem er.


Ég hvet ykkur til að prófa sjálf í vikunni kæru vinir.
Eigið góða vinnuviku.


Tinna Björg

föstudagur, 22. ágúst 2014

Nýtt og spennandi verkefni - Vikan mín í myndum


Jæja þá er skólinn farinn á fullt og allt á yfirsnúningi þessa dagana. Í vikunni vann ég að skemmtilegu verkefni fyrir Króm.is og mun afraksturinn af því samstarfi líta dagsins ljós í september. Ég hvet ykkur því til að fylgjast með.

Ég kíkti í Litlu Garðbúðina fyrir stuttu að skoða nýjasta nýtt í þessari dásamlegu búð. Hún Dagrún og eiginmaður hennar, sem eiga og reka verslunina, veita manni alltaf jafn hlýlegar móttökur. Þegar ég fer þangað með dóttur mína er eins og hún sé komin til þriðju ömmunnar. Þær krúttast saman á meðan ég versla. Verslunarferðirnar bara gerast ekki notalegri. Að þessu sinni leitaði ég til þeirra hjóna í tengslum við verkefnið með Króm. Þau voru að sjálfsögðu meira en til í að vera með og ég gekk alsæl út úr búðinni m.a. með vörur úr nýrri línu sem ég get ekki beðið eftir að smakka. Eða nei annars, ég gekk ekki út úr búðinni með vörurnar, þær voru bornar út fyrir mig. Svo dásamleg er þjónustan.

Einn grár og doppóttur í stíl við skálina sem ég keypti fyrir löngu

Kaffið og teið bragðast betur í góðum bolla

 Svo gamaldags og fallegur

Ný vörulína hjá Litlu Garðbúðinni, fíkjumarmelaði, lakkríssýróp, pestó og margt fleira

Matardiskur og djúpur diskur, svo elegant og fallegt

 Myndgæðin eru afar döpur en þið fáið þó allavega að berja þessar dásemdir augum.

Næst á dagskrá var verslunarferð í Fjarðarkaup.
Svo fór ég í eldhúsið.


Hér er svo smá sýnishorn af herlegheitunum.
 

Núna ætlum við mæðgurnar hins vegar í sveitina að krúttast.
Fylgist með mér á Króm.is í haust kæru vinir.
 Góða helgi!


Tinna Björg

föstudagur, 8. ágúst 2014

Ferðasaga úr Grunnavík - Amerískar pönnukökur með karamelluðum kanileplum og grautarlummur


Þá erum við mæðgurnar komnar heim í Kópavog eftir tveggja vikna ferðalag um Vestfirði. Við flugum til Ísafjarðar laugardaginn 20. júlí en bróðir minn var þegar kominn þangað með fjölskyldunni sinni og sótti okkur Klöru Sóllilju á flugvöllinn. Við gistum öll í Tunguskógi eina nótt í sumarhúsi Inga frænda. Það er alltaf jafn dásamlegt að koma í blíðuna inni í skógi en Ingi og hans fólk tekur alltaf jafn vel á móti okkur. Snemma á sunnudagsmorgninum fórum við Klara ásamt Steinari bróður, Olgu konunni hans og börnunum þeirra tveimur með bát til Grunnavíkur þar sem afi beið eftir að fá okkur í dekur. Að sjálfsögðu kvaddi ég ekki Ísafjörð án þess að koma við í besta bakaríi á Íslandi, Gamla bakaríinu, til að fá mér kleinuhring. Góð hugmynd svona fyrir klukkan 9 að morgni, eða þannig.

Við áttum margar góðar stundir í Grunnavík og börnin skemmtu sér konunglega við berjatínslu, sandmokstur og gönguferðir

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Grunnavík lítil vík í Jökulfjörðum en þar ólst föðuramma mín upp og í seinni tíð eyddu amma og afi öllum sínum sumrum í litla sumarhúsinu sínu. Amma dó fyrir nokkrum árum en afi fer ennþá í Grunnavík á hverju sumri og við börnin, barnabörnin og barnabarnabörnin reynum að fara þangað reglulega, þó alltof sjaldan fyrir minn smekk. Á þessu svæði er ekkert rafmagn, takmarkað símasamband og afar fáar klukkur að finna í Sætúni hjá honum afa. Ég get ekki lýst því hversu stórkostlegt frelsi það er.

 Víkin fallega. Hinumegin við fjallið er Ísafjarðardjúp. 

Freyja Rún, bróðurdóttir mín, átti þriggja ára afmæli 22. júlí og þótt við værum í sveitinni þótti afa ómögulegt að halda ekki veislu fyrir blessað barnið. Hann bauð því bróður ömmu, konunni hans og syni þeirra í þessa líka fínu afmælisveislu en þau eiga sumarhús á gamla bæjarstæðinu á Oddsflöt þar sem amma og systkini hennar ólust upp. Í staðinn fyrir afmælistertu var jólakakan hans afa borin á borð ásamt bananamuffins og kryddbrauði sem ég hafði bakað fyrir ferðina. Til að setja punktinn yfir i-ið bakaði afi svo fyrir okkur pönnukökurnar hennar ömmu.

Þrír dúllurassar komnir í land

Við áttum 6 yndislega daga saman í Grunnavík í blíðskaparveðri sem einkenndust af mikilli útiveru, svefni og áti. Veðrið var eins og best var á kosið allan tímann, 18-22 stiga hiti. Sólin lét ekki sjá sig mikið en það var svosem ágætt fyrir börnin, hún bakaði okkur nefnilega vel þegar hún heiðraði okkur með nærveru sinni þarna einn daginn.

 
Sólsetur

Laugardaginn 26. júlí fórum við svo aftur siglandi til Ísafjarðar með afa. Á bryggjunni tóku foreldrar mínir á móti okkur en við stoppuðum aðeins í klukkutíma á Ísafirði, rétt nógu lengi til að versla mat fyrir næstu bátsferð og koma við í bakaríinu góða. Förinni var heitið til Aðalvíkur þar sem afi ólst upp en ég segi ykkur frá þeirri ferð næst.

Frændsystkinin þurftu nauðsynlega að sitja með fæturna í polli

Afi krúttkarl er alltaf eitthvað að baka og notast m.a. mikið við gömlu uppskriftirnar hennar ömmu. Í ferðalög tekur hann með sér litla handskrifaða uppskriftabók og upp úr henni töfraði hann fram þessar dýrindis amerísku pönnukökur fyrir okkur krakkana. Ég steikti svo karamelluð epli sem við settum ofan á pönnukökurnar ásamt vanilluskyri því við áttum engan rjóma til að þeyta. Maður bjargar sér í sveitinni.Amerískar pönnukökur með karamelluðum kanileplum

Amerískar pönnukökur

1 egg
1 bolli hveiti
2 1/2 msk sykur
3 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
3/4 bolli mjólk

Þeytið egg með handþeytara og hrærið hveiti, sykri, lyftidufti, salti og mjólk saman við. Bræðið smjörklípu á heitir pönnu og ausið á hana deigi þannig að pönnukökurnar verða litlar og kringlóttar. Þegar loftbólurnar í deiginu springa á yfirborðinu og pönnukökurnar hafa nokkurn veginn bakast í gegn, snúið þeim við og steikið á hinni hliðinni.

Ég læt líka fylgja uppskrift að grautarlummunum hennar ömmu sem ég bakaði ofan í fjölskylduna í Aðalvík. Grautarlummur eru þær bestu í bransanum! Ef þið eigið afgang af hafragraut síðan í morgumatnum er tilvalið að nýta hann í lummur með síðdegiskaffinu.


Karamelluð kanilepli

2 epli
3-4 tsk kanill
4 tsk sykur
smjör

Fræhreinsið og skerið epli í sneiðar og veltið upp úr kanil á báðum hliðum. Sáldið sykri yfir báðar hliðar og steikið eplasneiðarnar upp úr vænni smjörklípu þar til sykurinn hefur bráðnað saman við smjörið og karamellast.

Berið pönnukökurnar fram með þeyttum rjóma og karamelluðum eplum eða prófið að smyrja þær með vanilluskyri.Hafragrautarlummur

1 1/2 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
1 1/2 msk sykur
2 msk kókosmjöl
2 egg
 1 1/2 dl hafragrautur
1 - 1 1/2 dl mjólk
25 g brætt smjör
1 dl rúsínur

Blandið saman hveiti, lyftidufti, sykri og kókosmjöli í skál og hrærið eggjum saman við. Bætið hafragraut við deigið og þynnið það með mjólk. Byrjið á 1/2 dl af mjólk og bætið smátt og smátt við þar til deigið verður nógu þunnt til að búa til lummur. Passið þó að setja ekki of mikla mjólk því deigið má ekki vera það þunnt að það leki um alla pönnu, við viljum hafa lummurnar litlar og svolítið þykkar. Hrærið bræddu smjöri saman við deigið ásamt rúsínum.

Ausið deigi á heita pönnu með matskeið eða lítilli ausu þannig að lummurnar verði ekki of stórar. Þegar loftbólurnar í deiginu springa á yfirborðinu og lummurnar hafa nokkurn veginn bakast í gegn, snúið þeim við og steikið á hinni hliðinni. Ég set alltaf smá smjörklípu á pönnuna til að byrja með, hvort sem ég nota pönnukökupönnu eða venjulega steikarpönnu. Passið að hafa pönnuna ekki of heita því þá brenna lummurnar áður en þær ná að bakast í gegn.

Mér finnst best að strá miklum púðursykri yfir lummurnar, best að hafa þær eins hollar og hægt er...


Báðar uppskriftirnar eru hreint út sagt dásamlegar og fara svolítið með mann aftur til fortíðar.

Í næstu færslu ætla ég að segja ykkur hvað við fjölskyldan baukuðum í Aðalvík.


Kveðja,

Tinna Björg