Bestu kökupinnar veraldar - Þarf ekki að baka!


Það er ótrúlega mikill mánudagur í mér svo ég ætla að deila með ykkur uppskrift að góðgæti vikunnar, svona til að gera grámygluna sem virðist vera að skella á ögn bærilegri. Kökupinnar! Svo einfaldir og unaðslegir. Það kemur á óvart hversu himnesk blanda rjómaostur og Ballerina kex er. Þessa uppskrift fékk ég hjá systur minni en hún er vinsæl hjá fjölskyldunni, góðir kökupinnar klikka aldrei.


Ballerina kökupinnar
40-44 stk

4 pakkar Ballerina kex
240 g rjómaostur
400-500 g hvítt súkkulaði

Malið Ballerina kex fínlega í matvinnsluvél. Bætið rjómaosti við og haldið áfram að vinna í matvinnsluvél þar til rjómaosturinn hefur blandast vel saman við kexið. Rúllið 40-44 jafnstórar kúlur úr deiginu. Mér þykir best að vigta hverja kúlu þannig að þær verði alveg jafn stórar, 24 g er passleg þyngd. Raðið kúlunum á bökunarpappírsklædda ofnplötu og kælið þær í 20-30 mínútur. Þær mega ekki vera of kaldar því þá verður erfitt að stinga kökupinnum í kúlurnar og hvíti súkkulaðihjúpurinn verður of þykkur.

Bræðið hvítt súkkulaði í skál yfir heitu vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Dýfið kökupinna um 1 cm ofan í súkkulaðið og stingið varlega í kælda kökukúlu, um það bil inn að miðju. Þetta er gert svo auðveldara verði að þekja kúluna án þess að súkkulaði fari á pinnann þar sem hann stingst út úr kúlunni. Dýfið svo kúlunni ofan í hvíta súkkulaðið þannig að hún hjúpist alveg. Leggið kökukúluna á bökunarpappír þannig að pinninn vísi upp og leyfið hvíta súkkulaðinu að storkna. Endurtakið með hverja kökukúlu.

Ég skreytti kökupinnana með bláum sykurmassablómum. Í staðinn fyrir hvítt súkkulaði er hægt að nota Candy Melts sem fæst í ýmsum litum. Ég kýs heldur að nota hvítt súkkulaði af því að mér finnst það meðfærilegra, það bráðnar betur og áferðin verður fallegri. Til að lita súkkulaðið fallega þarf sérstaka súkkulaðiliti. Það súkkulaði sem mér finnst best að nota heitir White Melting Wafers frá Ghirardelli en það er í raun hægt að nota hvaða hvíta súkkulaði sem er.


Ég hvet ykkur til að prófa sjálf í vikunni kæru vinir.
Eigið góða vinnuviku.


Tinna Björg

Ummæli

  1. Hvar fást svona kökupinnar :D ?

    SvaraEyða
  2. Hvar færðu þessa ákveðnu tegund af hvítu súkkulaði?

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur