Helgarsteikin
Síðustu helgi fékk ég skyndilega löngun í góða steik, það gerist reyndar oft og iðulega og þá sérstaklega seint á kvöldin rétt fyrir svefninn. Mallinn vill það sem hann vill þegar hann vill það!
Eins og sönnum nautnasegg sæmir lét ég að sjálfsögðu undan hvötum eins og svo oft áður og húrraði mér út í búð að kaupa kjöt og með því til að hafa í kvöldmatinn. Fyrir valinu varð folaldafille. Þetta var fyrsta skipti sem ég elda folaldakjöt og hrossakjöt yfir höfuð. Eldunaraðferðina lærði ég í einu matarboðinu um daginn og útkoman var alveg hreint ljómandi góð. Með kjötinu bar ég fram dýrindis villisveppasósu, grænmetissalat og ofnbakaðar sætar kartöflur.
Folaldafille með villisveppasósu
Fyrir 4 manns
Folaldafille
800 - 1000 g folaldafille
800 - 1000 g folaldafille
smjörklípa
sjávarsalt
svartur pipar
Snöggsteikið folaldafille upp úr smjöri á háum hita í um 1 mínútu á hvorri hlið til að mynda stökkan hjúp. Setjið kjötið í eldfast mót og eldið í ofni við 160° í 5 mínútur. Takið kjötið úr ofninum og látið standa í 5 mínútur. Endurtakið 4 - 5 sinnum eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 58-60°. Þegar kjötið er eldað með þessum hætti verður það alveg sérstaklega mjúkt og gott.
Villisveppasósa
1 laukur
1 msk smjör
svartur pipar
2 tsk dijon sinnep
1/2 dl viskí
3 dl vatn
2 dl rjómi
1 - 1 1/2 msk villibráðarkraftur
1 glas blandaðir skógarsveppir
sósujafnari
Fínsaxið lauk og steikið í potti með smjöri og svörtum pipar þar til hann hefur mýkst og brúnast fallega. Bætið við dijon sinnepi og viskí og sjóðið niður við vægan hita á um 4 mínútur. Hellið vatni og rjóma í pottinn og bætið við villibráðarkrafti ásamt skógarsveppum. Hitið að suðu og látið sósuna krauma í um 10 mínútur. Bætið við sósujafnara eftir smekk og látið sósuna krauma áfram í 10 mínútur.
Ofnbakaðar sætar kartöflur
2-3 sætar kartöflur
olía
svartur pipar
sjávarsalt
rósmarín
Skerið sætar kartöflur í litla teninga og setjið í eldfast mót. Veltið þeim upp úr olíu, svörtum pipar, sjávarsalti og rósmarín. Ég notaði þurrkað rósmarín en mér þykir alltaf best að nota ferskt. Bakið í ofni við 200° í 40-50 mínútur.
Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þessa dúnmjúku og ljúffengu folaldasteik.
Góða helgi kæru vinir!
Tinna
Björg
Flott þetta ætla að prufa.
SvaraEyða