Allra bestu gerbollurnar


Á morgun er bolludagur og ég auðvitað búin að taka forskot á sæluna eins og sannri sykurtönn sæmir, tvisvar. Í gær fékk ég mér bakarísbollur sem eiga ekki séns í þessar heimagerðu. Mamma er alveg sammála mér og var svo myndarleg að skella í gerbollurnar góðu sem hún bakar alltaf fyrir bolludaginn. Við ætlum að láta gerbollubakstur nægja í ár svo vatnsdeigsbolluuppskriftin fær að bíða til þess næsta. Gerbollur þykir mér langbestar með kardimommudropum og mikið af þeim!


Gerbollur

4 dl mjólk
150 g smjör
1 bréf þurrger
2-3 tsk kardimommudropar
630 g hveiti
90 g sykur

Velgið mjólk og látið smjörið bráðna í henni. Leysið upp þurrger í mjólkinni og bætið við kardimommudropum.
Blandið hveiti og sykri saman í skál, hellið mjólkurblöndunni út í og hnoðið deigið. Leggið plastfilmu eða viskastykki yfir skálina og látið hefast í um 40 mínútur. Gott er að hafa skálina á volgum stofuofni svo deigið hefist svolítið kröftuglega.

Fletjið deigið út þannig að það verði um 3 cm þykkt. Skerið út bollur með svolítið stóru smákökuformi og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Látið bollurnar hefast aftur í um 30 mínútur undir viskastykki og bakið þær við 180° í 10-12 mínútur eða þar til þær verða fallega ljósbrúnar.

Ofan á gerbollurnar smyrjum við bræddu súkkulaði og látum það storkna. Inn í þær finnst mér best að setja ís og karamellusósu eða karamellubúðing og þeyttan rjóma. Svo er algjörlega himneskt að hafa hindberjarjóma á milli en hann geri ég með maukuðum hindberjum, flórsykri og þeyttum rjóma.

Gleðilegan bolludag!


Tinna Björg
 

Ummæli

Vinsælar færslur