laugardagur, 19. júlí 2014

Himnesk hindberjakaka fyrir sumarfríið


Á fimmtudaginn fór sjónvarpsstöðin iSTV formlega í loftið en tæknilegir örðugleikar hafa aðeins verið að gera vart við sig. Allt verður þó komið í lag innan skamms og hægt að horfa á stöð 7 á myndlyklum Símans og 24 á myndlyklum Vodafone. Ef stöðin finnst ekki getur þurft að endurræsa myndlykilinn, ef það dugar ekki til þarf að taka hann úr sambandi og setja aftur í samband. Ef það virkar ekki þá liggur vandamálið að öllum líkindum hjá Vodafone og um að gera að hafa samband við þá.

Ég verð með þátt á miðvikudögum sem kallast Hið Opinbera og fjallar um samskipti einstaklinga við hið opinbera. Treysti því að þið stillið inn klukkan 20.30 næsta miðvikudag og fylgist með frumraun minni í sjónvarpi. Fyrsti þátturinn mun fjalla um starfsemi Bílastæðasjóðs og sá næsti um LÍN.

Við Klara Sóllilja erum að gera okkur klárar fyrir flug til Ísafjarðar en þaðan förum við svo með bát til Grunnavíkur í Jökulfjörðum í fyrramálið. Þar verðum við í tæplega viku og siglum svo til Aðalvíkur á Hornströndum með stuttu stoppi á Ísafirði. Ég segi ykkur betur frá þessari ævintýraferð síðar en þar sem við verðum er hvorki 3G né rafmagn svo samband við umheiminn verður takmarkað við þær fáu mínútur daglega sem ég hef kveikt á símanum mínum. Það eina sem verður í boði er að njóta náttúrunnar og félagsskaparins, yndislegt! Ég ætla ekki að lýsa spennunni, þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig þriggja ára uppsöfnuð tilhlökkun lítur út.

Af því að ég er svo glöð í dag ætla ég að deila með ykkur einni af mínum uppáhalds kökum. Kremið er algjörlega himneskt, þið bara verðið að smakka það.

Vanillukökur eru algeng sjón á veisluborðum í Ameríku, oft fallega sprautaðar með smjörkremi eða þaktar sykurmassa.    Mína fyrstu sneið af vanilluköku smakkaði ég í afmælisveislu amerískrar vinkonu fjölskyldunnar og þótti hún alveg sérlega góð. Það skemmtilegasta við gerð vanilluköku er það hversu fjölbreytt val ég hef við kremgerðina. Kremið er hægt að gera á ótal vegu með mörgum mismunandi bragðtegundum því kakan sjálf passar með næstum öllu. Ég hef mikið dálæti á vanilluköku og þá sérstaklega með hindberjakremi. Kremið er ekki einungis bragðgott heldur gefa hindberin því líka þennan fallega fölbleika lit sem gleður augað.


Hindberjasæla

Vanillukaka 

420 g hveiti
400 g sykur
4 tsk lyftiduft 
3/4 tsk salt 
370 ml mjólk 
3 stór egg 
170 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar

Blandið saman í skál hveiti, sykri, lyftidufti og salti og hrærið mjólk saman við. Bætið eggjum við, einu í einu. Bræðið smjör og hrærið saman við deigið ásamt vanilludropum. Hellið deiginu í þrjú 20 cm, hringlaga kökuform eða tvö 24 cm form. Bakið kökubotnana við 170° í 30-35 mínútur og kælið. Hindberjakrem

600 g mjúkt smjör
300 g rjómaostur 
150 ml hindberjapúrra (uppskrift fyrir neðan)
1 ½ tsk vanilludropar 
600-700 g flórsykur

Þeytið saman í skál smjör og rjómaost. Gætið að því að rjómaosturinn sé við stofuhita. Bætið hindberjapúrru og vanilludropum saman við. Þeytið áfram og bætið flórsykri smátt og smátt saman við smjörblönduna þar til kremið verður nægilega þykkt.

Setjið einn vanillukökubotn á disk og smyrjið um 1 cm þykku lagi af kremi ofan á. Þegar ég smyr kreminu á þykir mér best að nota til þess pönnukökuspaða. Hvolfið öðrum botni yfir og smyrjið aftur með um 1 cm þykku kremlagi. Hvolfið þriðja kökubotninum yfir tertuna og þekið hana með þunnu kremlagi. Athugið að kremið þarf ekki að vera þykkt í þessari umferð því hún er aðeins til að móta kökuna og koma í veg fyrir að mylsna fari í kremið. Kælið kökuna í 30 mínútur. Smyrjið kökuna síðan með um 1 cm þykku kremlagi og notið sprautustút 2D frá Wilton til að skreyta hana með rósum. Byrjið á að sprauta miðju rósarinnar og sprautið hringinn í kring um miðjuna þar til hæfilegri stærð hefur verið náð.


Hindberjapúrra 

250 g frosin hindber
1 msk sykur
½ dl vatn


Sjóðið hindber, sykur og vatn í potti í 5-7 mínútur eða þar til berin hafa soðnað niður. Sigtið sósuna, kreistið sem mestan safa úr berjunum í sigtinu og kælið.

Ég hvet ykkur til að smakka þessa dásemd, kremið er svo gott að það ratar sjaldnast allt á kökuna.


Fylgist endilega með ferðalagi okkar mæðgna á Instagram, ég mun setja inn myndir þegar ég kemst í 3G samband á Ísafirði og úti á sjó. Notandanafnið er tinnabjorgcom.

Gleðilegt sumarfrí!

þriðjudagur, 15. júlí 2014

Safarík steikt samloka

 Ég hef áður deilt með ykkur þessari uppskrift að ljúffengri steiktri samloku en ég ætla að gera það aftur af því að hún er svo sveitt og góð. Tilvalin lausn fyrir þá sem nenna ekki út að versla því flest hráefnin í samlokuna eru nokkurn veginn staðalbúnaður í ísskápnum, allavega á mínu heimili.


Steikt samloka

smjör til steikingar
2 brauðsneiðar
BBQ sósa
gult sinnep (ekki sætt)
salatblöð eða iceberg
2 skinkusneiðar
ostur
1 tómatur skorinn í 4 sneiðar
5 pepperonisneiðar
1 lauksneið
5 beikonstrimlar
1 egg 

Bræðið smjörklípu á pönnu og steikið brauðsneiðarnar á báðum hliðum þar til þær verða stökkar og fallega brúnar. Smyrjið BBQ sósu á aðra brauðsneiðina og sinnepi á hina. Setjið salatblöð á aðra sneiðina.
Steikið skinkusneiðar á báðum hliðum og leggið þær saman. Setjið ostsneiðar strax ofan á þannig að þær hylji skinkuna og steikið þar til hann bráðnar. Leggið skinkusneiðarnar ofan á brauðsneiðina með salatinu.
Setjið smá smjörklípu á pönnuna og steikið tómata á báðum hliðum þar til þeir mýkjast. Á meðan tómatarnir steikjast, steikið þá pepperonisneiðar í nokkrar sekúndur. Mér finnst nóg að steikja þær örsnöggt á annarri hliðinni. Raðið tómötum, pepperoni og ferskum lauk ofan á brauðsneiðina. Steikið beikon, setjið á brauðsneiðina og lokið svo samlokunni.

Steikið egg við vægan hita, kryddið með Season All og setjið ofan á samlokuna. Til að fá hvítuna í kring um rauðuna til að eldast þannig að enginn hluti af egginu sé hrár, setjið lok á pönnuna í stutta stund þegar eggið er að öðru leyti tilbúið.


Mér þykir ótrúlega gott að setja smjörsteikta sveppi með hvítlauk á samlokuna.


Ég held mér sé óhætt að segja að flestum karlmönnum þyki þessi samloka góð, svo ef þið konur viljið vinna ykkur inn stig hjá eiginmönnunum mæli ég með þessari. 

Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

laugardagur, 5. júlí 2014

Nýtt útlit á stofunni minni og sunnudagssyndin


Það er varla að ég hafi tíma til að reka hingað inn nefið þessa dagana, svo mikil er vinnan og letin þess á milli. Nú er ég á fullu þessa dagana í dagskrárgerð og tökum á Hinu Opinbera. Dagskrárgerð er svo mun meiri vinna en ég hélt. Ég vissi takmarkað út í hvað ég var að fara og var strax eiginlega bara drekkt í djúpu lauginni en mikil ósköp sem þessi vinna er skemmtileg. Krefjandi en skemmtileg. Að standa fyrir framan myndavél og tala er sko meira en að segja það fyrir ungfrú viðutan. Jesús. En sem betur fer hef ég þolinmóðan tökumann sem er álíka utan við sig og ég. Fyrsta tökudaginn tókst okkur einmitt í sameiningu að læsa bíllykilinn inni í bílnum mínum ásamt síma og veski. Smá byrjunarörðugleikar. Sem betur fer vorum við nýbúin að taka viðtal við forsvarsmenn Bílastæðasjóðs sem sáu til þess að bíllinn minn fengi ekki sekt á meðan við útveguðum annan lykil. Afar hentugt.
Tilraunaútsendingar eru hafnar á iSTV en stöðin fer formlega í loftið 17. júlí klukkan 20. Ég hvet ykkur til að fylgjast með öllu skemmtilega og ferska sjónvarpsefninu sem verður þar á dagskrá. List, mótorhjól, dýr, lýðheilsa, gæi með gítar, ferðamennska, tíska, aðrar víddir, hið opinbera og margt fleira.

Undanfarnar vikur hef ég smátt og smátt verið að breyta útlitinu á litlu stofunni minni þegar ég hef haft tíma aflögu. Ég er alveg himinlifandi með borðstofuhornið mitt. Fjölskylduveggurinn er á byrjunarstigi en ég á eftir að hengja upp myndir af nokkrum fjölskyldumeðlimum í viðbót.

 
Ég útbjó textann ,,Heimilið er þar sem hjartað er'' í wordskjali og lét skera vegglímmiða eftir því. Vegglímmiðar eru akkurat minn tebolli og auðvitað gat ég ekki látið stofuvegginn nægja. Ég lét líka skera faðirvorið og límdi það á vegginn fyrir ofan rúmið í svefnherberginu.
Vegglímmiðana fékk ég hjá Strigaprenti. Hægt er að skoða og panta vegglímmiða á síðu fyrirtækisins eða hanna sína eigin og láta skera út eins og ég gerði.


Nóg um það, í dag er laugardagur og þá fær maður sér gott að borða. Bróðir minn er kominn til landsins með fjölskylduna og af því tilefni skellti hún elsku mamma í helgarbrunch. Eitthvað sem klikkar aldrei.

Ég ætla hins vegar að bjóða ykkur upp á sunnudagssynd. Ástæðan fyrir því að ég deili sunnudagsuppskrift hér á laugardegi er sú að rétturinn þarf að standa í ísskáp yfir nótt.
Þess vegna mæli ég með því að þið stökkvið út í búð og kaupið gæðasúkkulaði ásamt öðru sem til þarf.


Hvítsúkkulaðimús með rabarbarasósu
Fyrir 6 manns

Hvítsúkkulaðimús

500 ml rjómi
50 g rjómaostur
300 g hvítt súkkulaði 

fræ úr 1 vanillustöng
2 msk flórsykur

Hitið rjóma og rjómaost að suðu ásamt fræjum úr vanillustöng og takið af hellunni áður en byrjar að sjóða. Saxið hvítt súkkulaði og hellið rjómablöndunni yfir. Látið standa í um 5 mínútur þannig að súkkulaðið bráðni og hrærið svo þar til rjóminn og hvíta súkkulaðið hafa blandast vel saman. Kælið súkkulaðiblönduna í ísskáp yfir nótt.
Bætið því næst flórsykri saman við súkkulaðiblönduna og þeytið í 5-10 mínútur eða þar til hún þykknar og verður að léttri súkkulaðimús.
 Gott er að kæla hvítsúkkulaðimúsina aftur augnablik áður en hún er borin fram.


Rabarbarasósa

200 g rabarbari
50 ml vatn
2 msk hrásykur

Sjóðið rabarbara, vatn og sykur í 5-7 mínútur eða þar til rabarbarinn mýkist upp í vatninu. Maukið í blandara og kælið. Berið kalda sósuna fram með hvítsúkkulaðimúsinni.

Prófið þessa dásemd.
 Njótið helgarinnar kæru vinir!


Tinna Björg