föstudagur, 27. febrúar 2015

Helgarsteikin


Síðustu helgi fékk ég skyndilega löngun í góða steik, það gerist reyndar oft og iðulega og þá sérstaklega seint á kvöldin rétt fyrir svefninn. Mallinn vill það sem hann vill þegar hann vill það!

Eins og sönnum nautnasegg sæmir lét ég að sjálfsögðu undan hvötum eins og svo oft áður og húrraði mér út í búð að kaupa kjöt og með því til að hafa í kvöldmatinn. Fyrir valinu varð folaldafille. Þetta var fyrsta skipti sem ég elda folaldakjöt og hrossakjöt yfir höfuð. Eldunaraðferðina lærði ég í einu matarboðinu um daginn og útkoman var alveg hreint ljómandi góð. Með kjötinu bar ég fram dýrindis villisveppasósu, grænmetissalat og ofnbakaðar sætar kartöflur.


  Folaldafille með villisveppasósu
Fyrir 4 manns

Folaldafille

800 - 1000 g folaldafille
smjörklípa
sjávarsalt
svartur pipar

Snöggsteikið folaldafille upp úr smjöri á háum hita í um 1 mínútu á hvorri hlið til að mynda stökkan hjúp. Setjið kjötið í eldfast mót og eldið í ofni við 160° í 5 mínútur. Takið kjötið úr ofninum og látið standa í 5 mínútur. Endurtakið 4 - 5 sinnum eða þar til kjarnhiti kjötsins hefur náð 58-60°. Þegar kjötið er eldað með þessum hætti verður það alveg sérstaklega mjúkt og gott.Villisveppasósa

1 laukur
1 msk smjör
svartur pipar
2 tsk dijon sinnep
1/2 dl viskí
3 dl vatn
2 dl rjómi
1 - 1 1/2 msk villibráðarkraftur
1 glas blandaðir skógarsveppir
sósujafnari

Fínsaxið lauk og steikið í potti með smjöri og svörtum pipar þar til hann hefur mýkst og brúnast fallega. Bætið við dijon sinnepi og viskí og sjóðið niður við vægan hita á um 4 mínútur. Hellið vatni og rjóma í pottinn og bætið við villibráðarkrafti ásamt skógarsveppum. Hitið að suðu og látið sósuna krauma í um 10 mínútur. Bætið við sósujafnara eftir smekk og látið sósuna krauma áfram í 10 mínútur.


Ofnbakaðar sætar kartöflur

2-3 sætar kartöflur
olía
svartur pipar
sjávarsalt
rósmarín

Skerið sætar kartöflur í litla teninga og setjið í eldfast mót. Veltið þeim upp úr olíu, svörtum pipar, sjávarsalti og rósmarín. Ég notaði  þurrkað rósmarín en mér þykir alltaf best að nota ferskt. Bakið í ofni við 200° í 40-50 mínútur.


Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þessa dúnmjúku og ljúffengu folaldasteik.

Góða helgi kæru vinir!


Tinna Björg

sunnudagur, 22. febrúar 2015

Nýjasta föndrið


Við mæðgur liggjum heima í enn einni pestinni svo það er ekkert annað í stöðunni en að skella í eina færslu. Ég setti inn á Facebooksíðu bloggsins fyrir nokkrum vikum mynd af púðum sem ég saumaði púðaver á og myndskreytti með ljósmyndum af íslensku dýralífi. Komst þó ekki lengra en að smella bara inn mynd af herlegheitunum svo núna ætla ég að segja ykkur aðeins frá þeim. Þið afsakið vonandi myndgæðin, myndirnar eru teknar á handónýtan síma.


Ég keypti ljóst efni í Föndru, 150 cm langt, sem dugði í 4 púðaver - þrjú á lengdina og eitt í viðbót á breiddina. Hver púði er 50x50 cm og ég sneið efnið 50x50 cm. Áður en ég saumaði púðaverin saman þá límdi ég myndirnar á og fylgdi leiðbeiningum í þessu kennslumyndbandi á Króm.


Myndirnar þurfa að vera prentaðar út í laserprentara og í frekar hárri upplausn. Efnið sem ég notaði til að líma myndirnar á púðaverin heitir Photo Transfer og fæst í Föndru. Ég setti bökunarpappír á strauborðið undir efnið og ofan á myndirnar líka svo límið festist örugglega ekki á elskulega strauborðinu hans pabba þegar ég straujaði.


Hafið í huga að því ljósari sem myndin er, þeim mun viðkvæmari er hún svo nuddið blauta pappírinn varlega til að rífa hana ekki. Þegar myndirnar voru orðnar alveg þurrar lakkaði ég þær með þar til gerðu lakki með miðlungs gljáa. Lakkið keypti ég líka í Föndru.

Þegar lakkið var orðið þurrt var loksins komið að saumaskapnum. Ég nennti ómögulega að sauma rennilása á öll púðaverin svo ég saumaði þau saman í saumavél en skildi eftir op á einum enda til að troða púðanum inn í. Þegar púðarnir voru komnir inn í púðaverin braut ég opnu kantana inn á við og handsaumaði saman með litlum sporum.


Þegar ég var búin að sauma púðaverin voru þau orðin um 48x48 cm sem er mjög passlegt til að gera púðana svolítið fluffy. Púðana átti ég til fyrir en þeir fást tiltölulega ódýrir í IKEA. Þeir sem nenna ekki að hafa fyrir því að sauma púðaver geta líka keypt þau tilbúin.


Svona gerið þið fjögur þrælfín púðaver fyrir innan við 5000 krónur kæru vinir.

Til að sjá fleiri myndir af alls kyns dúlleríi er ykkur velkomið að fylgja mér á Instagram: tinnabjorgcom


Gleðilegan konudag!


Tinna Björg
 

sunnudagur, 15. febrúar 2015

Allra bestu gerbollurnar


Á morgun er bolludagur og ég auðvitað búin að taka forskot á sæluna eins og sannri sykurtönn sæmir, tvisvar. Í gær fékk ég mér bakarísbollur sem eiga ekki séns í þessar heimagerðu. Mamma er alveg sammála mér og var svo myndarleg að skella í gerbollurnar góðu sem hún bakar alltaf fyrir bolludaginn. Við ætlum að láta gerbollubakstur nægja í ár svo vatnsdeigsbolluuppskriftin fær að bíða til þess næsta. Gerbollur þykir mér langbestar með kardimommudropum og mikið af þeim!


Gerbollur

4 dl mjólk
150 g smjör
1 bréf þurrger
2-3 tsk kardimommudropar
630 g hveiti
90 g sykur

Velgið mjólk og látið smjörið bráðna í henni. Leysið upp þurrger í mjólkinni og bætið við kardimommudropum.
Blandið hveiti og sykri saman í skál, hellið mjólkurblöndunni út í og hnoðið deigið. Leggið plastfilmu eða viskastykki yfir skálina og látið hefast í um 40 mínútur. Gott er að hafa skálina á volgum stofuofni svo deigið hefist svolítið kröftuglega.

Fletjið deigið út þannig að það verði um 3 cm þykkt. Skerið út bollur með svolítið stóru smákökuformi og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Látið bollurnar hefast aftur í um 30 mínútur undir viskastykki og bakið þær við 180° í 10-12 mínútur eða þar til þær verða fallega ljósbrúnar.

Ofan á gerbollurnar smyrjum við bræddu súkkulaði og látum það storkna. Inn í þær finnst mér best að setja ís og karamellusósu eða karamellubúðing og þeyttan rjóma. Svo er algjörlega himneskt að hafa hindberjarjóma á milli en hann geri ég með maukuðum hindberjum, flórsykri og þeyttum rjóma.

Gleðilegan bolludag!


Tinna Björg
 

miðvikudagur, 4. febrúar 2015

Veikindabakstur sem hressir, bætir og kætir!


Leikskólavistin er hér um bil að gera út af við okkur Klöru Sóllilju. Þessi veikindi sem vilja oft verða fyrstu vikurnar eru orðin ansi tíður gestur á heimilinu. Í dag dúlluðum við okkur því heima við bakstur og var afraksturinn þessir dásamlegu kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr. Ég gleymdi reyndar alveg rúsínunum í deigið, þær eru svolítið ómissandi nefnilega. En ljúffengir voru þeir engu að síður þessar elskur! Ég segi voru af því að snúðarnir entust í korter...


Kanilsnúðar með súkkulaðiglassúr
24 stk

Snúðadeig

3 tsk þurrger
1/2 dl volgt vatn
2 1/2 dl mjólk
2 egg
2 tsk kardimommudropar
3 tsk sykur
1/2 tsk salt
75 g smjör
500 g hveiti
1 egg til penslunar

Leysið þurrger upp í volgu vatni og látið standa í 5 mínútur. Bætið saman við gerblönduna mjólk, eggjum, kardimommudropum, sykri og salti. Vigtið hveiti í aðra skál, myljið niður smjör með fingrunum þannig að það mýkist og blandið því svolítið saman við smjörið. Hellið hveiti og smjöri út í vökvann og hnoðið deigið á meðalhraða í um 5 mínútur. Deigið er tilbúið þegar engar smjörklessur eru sjáanlegar og það hnoðast upp í kúlu á hnoðaranum. Athugið að það gæti þurft að bæta við nokkrum matskeiðum af hveiti ef deigið er of blautt. Setjið plastfilmu eða viskastykki yfir deigskálina og látið deigið hefast í um 1 klst. Gott er að setja skálina á volgan stofuofn en gætið þess þó að hann sé ekki of heitur. Útbúið kanilfyllingu á meðan deigið hefast.
 

Kanilfylling

200 g mjúkt smjör
1 1/2 dl sykur
3 1/2 tsk kanill

Blandið saman í skál smjöri, sykri og kanil.

Fletjið snúðadeigið út í ferhyrning þannig að það verði innan við 1 cm að þykkt. Smyrjið kanilblöndu jafnt yfir útflatt deigið og rúllið því þétt upp í lengju. Skerið lengjuna í um 2 cm þykka snúða og raðið þeim á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Penslið snúðana með hrærðu eggi og bakið þá í ofni við 180° í 18-20 mínútur. Kælið kanilsnúðana á meðan súkkulaðiglassúrinn er útbúinn.


Súkkulaðiglassúr

3 1/2 - 4 dl flórsykur
100 g brætt smjör
2 - 3 msk kakó
2 msk vanilludropar
1 - 3 msk heitt kaffi

Hrærið saman flórsykri, smjöri, kakó og vanilludropum. Bætið kaffi við glassúrinn þar til hann verður hæfilega þunnur. Súkkulaðiglassúrinn á að vera nógu þunnur til að seigfljóta yfir kanilsnúðana. Ef hann er of þykkur eða ef glassúrinn skilur sig þá þynni ég hann út með meira kaffi eða smá meiri vanilludropum. Þannig verður súkkulaðiglassúrinn silkimjúkur og með fallegan gljáa.

Smyrjið 1/2 - 1 msk af súkkulaðiglassúr á miðju hvers kanilsnúðs og látið leka jafnt niður að hliðunum.
Og síðast en ekki síst, njótið með ísköldu mjólkurglasi!


Ég hvet ykkur til að prófa þessar elskur, þeir eru æði!

Tinna Björg