Nýjasta föndrið
Við mæðgur liggjum heima í enn einni pestinni svo það er ekkert annað í stöðunni en að skella í eina færslu. Ég setti inn á Facebooksíðu bloggsins fyrir nokkrum vikum mynd af púðum sem ég saumaði púðaver á og myndskreytti með ljósmyndum af íslensku dýralífi. Komst þó ekki lengra en að smella bara inn mynd af herlegheitunum svo núna ætla ég að segja ykkur aðeins frá þeim. Þið afsakið vonandi myndgæðin, myndirnar eru teknar á handónýtan síma.
Ég keypti ljóst efni í Föndru, 150 cm langt, sem dugði í 4 púðaver - þrjú á lengdina og eitt í viðbót á breiddina. Hver púði er 50x50 cm og ég sneið efnið 50x50 cm. Áður en ég saumaði púðaverin saman þá límdi ég myndirnar á og fylgdi leiðbeiningum í þessu kennslumyndbandi á Króm.
Myndirnar þurfa að vera prentaðar út í laserprentara og í frekar hárri upplausn. Efnið sem ég notaði til að líma myndirnar á púðaverin heitir Photo Transfer og fæst í Föndru. Ég setti bökunarpappír á strauborðið undir efnið og ofan á myndirnar líka svo límið festist örugglega ekki á elskulega strauborðinu hans pabba þegar ég straujaði.
Hafið í huga að því ljósari sem myndin er, þeim mun viðkvæmari er hún svo nuddið blauta pappírinn varlega til að rífa hana ekki. Þegar myndirnar voru orðnar alveg þurrar lakkaði ég þær með þar til gerðu lakki með miðlungs gljáa. Lakkið keypti ég líka í Föndru.
Þegar lakkið var orðið þurrt var loksins komið að saumaskapnum. Ég nennti ómögulega að sauma rennilása á öll púðaverin svo ég saumaði þau saman í saumavél en skildi eftir op á einum enda til að troða púðanum inn í. Þegar púðarnir voru komnir inn í púðaverin braut ég opnu kantana inn á við og handsaumaði saman með litlum sporum.
Þegar ég var búin að sauma púðaverin voru þau orðin um 48x48 cm sem er mjög passlegt til að gera púðana svolítið fluffy. Púðana átti ég til fyrir en þeir fást tiltölulega ódýrir í IKEA. Þeir sem nenna ekki að hafa fyrir því að sauma púðaver geta líka keypt þau tilbúin.
Svona gerið þið fjögur þrælfín púðaver fyrir innan við 5000 krónur kæru vinir.
Til að sjá fleiri myndir af alls kyns dúlleríi er ykkur velkomið að fylgja mér á Instagram: tinnabjorgcom
Til að sjá fleiri myndir af alls kyns dúlleríi er ykkur velkomið að fylgja mér á Instagram: tinnabjorgcom
Gleðilegan konudag!
Tinna
Björg
Ummæli
Skrifa ummæli