sunnudagur, 24. nóvember 2013

Ljúffenga og einfalda Rice Krispies kakan


Ég kláraði síðasta skóladag annarinnar á fimmtudaginn og var því fagnað með tveimur jólahlaðborðum, einu á fimmtudag og einu á föstudag. Mér finnst alveg nauðsynlegt að byrja langa og erfiða prófatíð á einhverju svona skemmtilegu, ég fer þá út í lærdóminn endurnærð og með jákvæðara viðhorfi en ella.

Á föstudaginn var jólahlaðborð hjá stórfjölskyldu kærasta míns þar sem við áttum góða kvöldstund saman yfir forrétti, aðalrétti og eftirrétti.

Hver fjölskylda kom með einhvern rétt og ég fékk það verkefni að gera waldorfsalat með matnum og köku í eftirrétt.

 Ég hafði lítinn tíma fyrir bakstur og bjargaði málunum með fljótlegri, einfaldri og alveg ofboðslega góðri Rice Krispies köku sem er svo vinsæl hjá minni fjölskyldu.

Uppskriftin birtist í jólabæklingi Nóa Síríus fyrir einhverjum tíu árum og hefur verið á borðum í flestum ef ekki öllum veislum hjá okkur systrunum síðan.

Við gerð þessarar köku er um að gera að láta hugmyndaflugið njóta sín en ég hef sé nokkrar útfærslur á henni, m.a. með Góu kúlukremi í stað rjómakaramellukrems.


Afmælisgóðgæti

Rice Krispies kökubotn

100 g suðusúkkulaði
100 g karamellu Pipp
100 g smjör
4 msk sýróp
5 bollar Rice Krispies


Sjóðið suðusúkkulaði, karamellu Pipp, smjör og sýróp saman í potti og látið krauma við vægan hita í 5 mínútur þannig að blandan verði karamellukennd.

Takið pottinn af hellunni og látið standa í 3-4 mínútur.

Hrærið Rice Krispies saman við súkkulaðibráðina og þrýstið blöndunni í hringlaga kökuform.

Kælið kökuna og setjið á kökudisk.


Bananarjómi

350 ml þeyttur rjómi
3 bananar

Skerið banana í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma.

Smyrjið bananarjómanum á kökubotninn.


Karamellubráð

15 rjómakaramellur frá Freyju
50 ml rjómi


Bræðið rjómakaramellur og rjóma saman í potti og látið krauma við vægan hita í 3-4 mínútur.

Kælið karamellubráðina við stofuhita og hellið henni yfir bananarjómann.
 

Ég minni á leikinn sem er í gangi á Facebook síðu matarbloggsins, það er um að gera að taka þátt til að eiga möguleika á að vinna gjafabréf fyrir tvo á Sushisamba.

 Verð ykkur að góðu!


Tinna Björg

laugardagur, 23. nóvember 2013

Út að borða fyrir tvo á Sushisamba

Á þessum fína og fallega laugardegi ætla ég að fara af stað með skemmtilegan Facebook leik.

Þeir sem taka þátt eiga möguleika á að vinna gjafabréf fyrir tvo á Sushisamba sem samanstendur af fordrykk, 5 rétta óvissuferð úr sushi- og sambaeldhúsi og eftirrétti.

Sushisamba er minn uppáhalds sushistaður, maturinn er svo ofboðslega góður og vel útilátinn og umhverfið hlýlegt og skemmtilegt. Svo er starfsfólkið alltaf svo vingjarnlegt, sem mér þykir vera mikill kostur.

Ég er því afar ánægð með að fá tækifæri til að gefa einhverjum heppnum lesanda matarbloggsins gjafabréf á einn af mínum uppáhalds veitingastöðum.


Starfsmenn Sushisamba eru  komnir í jólaskap og af því tilefni hafa þeir deilt með okkur frábærri uppskrift að jólamojito. Skemmtilega kennslumyndbandið þeirra má nálgast hér. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa þennan ljúffenga jóladrykk.Til að eiga möguleika á að vinna gjafabréf á Sushisamba þurfið þið að setja like við Facebooksíðu bloggsins og deila myndinni þar.
Að sjálfsögðu setjið þið eitt like á yndislega Sushisamba í leiðinni.

Verið endilega með kæru vinir!


Tinna Björg

sunnudagur, 17. nóvember 2013

Rjómakaramellukubbar í barnaafmælið


Ég gerði þessa dásamlegu rjómakaramellukubba fyrir afmæli kærasta míns í október og einnig fyrir saumaklúbbinn í síðustu viku.

Þeir eru afar fljótgerðir og tilvalið að skella í eina svona uppskrift þegar eitthvað stendur til og maður er tímabundinn.

Rjómakaramellukubbarnir eru ekki ósvipaðir Dumle Rice Krispies kubbunum en þó aðeins stökkari og með öðruvísi karamellubragði.


Rjómakaramellukubbar

20 rjómakaramellur frá Freyju
100 g smjör
3 msk sýróp
5 bollar Rice Krispies


Bræðið rjómakaramellur, smjör og sýróp saman og látið krauma við vægan hita í 2-3 mínútur.

Athugið að ef karamellubráðin er látin krauma of lengi þá verða kubbarnir harðir og seigir.

Takið pottinn af hellunni, hrærið Rice Krispies saman við karamellubráðina og þrýstið blöndunni í ferhyrnt kökumót.

Kælið kökuna og skerið í kubba.


Ég held mér sé óhætt að segja að flestum börnum þyki Rice Krispies kökur góðar og eru rjómakaramellukubbarnir því tilvaldir í barnaafmælin.


Njótið vel.


 Tinna Björg

föstudagur, 15. nóvember 2013

Helgarsteikin sem allir verða að prófa


Foreldrar mínir hafa reglulega helgarsteik þar sem öll fjölskyldan kemur saman og á notalega kvöldstund.
Við fórum saman stórfjölskyldan í sumarbústað síðustu helgi og auðvitað splæstu foreldrar mínir í guðdómlega laugardagssteik fyrir okkur.

Faðir minn sá um eldamennskuna en það var hún systir mín sem kom okkur upp á lagið með hægeldaðan svínabóg sem er í svo miklu uppáhaldi hjá okkur öllum.

Þótt pabbi hafi verið aðalkokkurinn síðasta laugardag þá vorum við sérþarfasysturnar aðeins með fingurna í pottunum hjá honum. Við viljum hafa allan mat mikið kryddaðan og þegar ég átti leið inn í eldhús kryddaði ég steikina og grænmetið aukalega, þegar systir mín átti leið í eldhúsið gerði hún slíkt hið sama.

 Steikin er elduð í 6 klukkustundir við vægan hita og verður því alveg ofboðslega mjúk og ljúffeng.Hægeldaður svínabógur
fyrir 4-5 manns
1 svínabógur
sjávarsalt
svartur pipar
Season All
2-3 dl vatn

Skerið rifur í skinnið á svínabóginum næstum niður að kjöti og nuddið miklu sjávarsalti vel inn í rifurnar. Kryddið kjötið á öllum hliðum með Season All og svörtum pipar. Setjið svínabóginn í djúpa ofnskúffu og eldið í 40 mínútur við 220° eða þar til skinnið hefur breyst í stökka puru.

Lækkið hitann niður í 150°, leggið álpappírsörk yfir kjötið og setjið það aftur inn í ofn.
Eldið kjötið áfram í 4 klukkustundir og 50 mínútur og undirbúið grænmetið á meðan.

Hellið vatni í ofnskúffuna eftir um 4 klst. og látið krauma með kjötinu í 50 mínútur.
 
Til að fá örugglega stökka puru er gott að byrja á að setja bóginn á hvolf í fat með 2 cm djúpu vatni og elda í ofni við 170° í 30 mínútur. Þessar 30 mínútur dragast þá frá þeim tíma sem bógurinn er eldaður við 150°. Þetta er þó ekki nauðsynlegt skref.


Ofnbakað grænmeti
300 g skalottlaukur
300 g gulrætur
400 g kartöflur
1-2 laukar
1 askja litlir sveppir
svartur pipar
Season All
timjan
basilíka
oregano
2 lárviðarlauf

Afhýðið skalottlauk, lauk og gulrætur. Þvoið kartöflur og sveppi. Skerið kartöflur, smáar í tvennt og stærri í fernt þannig að bitarnir séu allir svipað stórir. Skerið lauk í fernt og gulrætur eftir endilöngu og í bita á stærð við kartöflurnar. Mikilvægt er að grænmetisbitarnir séu svipaðir að stærð svo þeir bakist jafnt í ofninum. Athugið að skalottlaukur og sveppir eru hafðir heilir.

Þegar svínabógurinn hefur eldast í samtals 5 1/2 klukkustund er hann tekinn út úr ofninum og færður á fat. Hellið mestum hluta soðsins úr ofnskúffunni í skál en skiljið eftir 3-4 msk.

Blandið skalottlauk, gulrótum, kartöflum, lauk og lárviðarlaufum saman í ofnskúffuna og veltið upp úr afganginum af kjötsoðinu. Kryddið með svörtum pipar, Season All, timjan, basilíku og oregano.

Hækkið hitann á ofninum í 200°. Leggið svínabóginn ofan á grænmetið í ofnskúffunni og eldið áfram án álpappírs í 30 mínútur.  
Þegar kjötið hefur eldast í samtals 6 klukkustundir er það tilbúið. Takið svínabóginn af ofnskúffunni, setjið á fat og breiðið álpappír yfir á meðan sósan er löguð.

Kryddið sveppi með Season All og setjið í ofnskúffuna með grænmetinu. Eldið grænmetið áfram í 30 mínútur þannig að það verði örlítið stökkt og fallega brúnað. Þegar grænmetið er tilbúið, setjið það í framreiðslufat, takið frá restina af soðinu í botni ofnskúffunnar og hellið í soðskálina.Brún sósa
500-600 ml vatn
kjötsoð
svínakraftur eftir smekk
2 lárviðarlauf
svartur pipar
1 1/2 dl vatn 
3/4 dl hveiti
brúnn sósulitur

Við sósugerðina þarf maður svolítið að prófa sig áfram og smakka til.

 Byrjið á að fleyta sem mestri fitu ofan af kjötsoðinu. Sjóðið soð og vatn saman í potti ásamt lárviðarlaufum úr ofnskúffunni. Hristið saman hveiti og vatn og hellið smátt og smátt í sósuna til að þykkja hana. Látið krauma í nokkrar mínútur á meðan sósan þykknar. Dekkjið sósuna með nokkrum dropum af brúnum sósulit.

Ef sósan er of bragðlítil, smakkið hana til með svínakrafti og svörtum pipar.


Uppskriftin er tiltölulega lítil en hægt er að elda tvo svínabóga á sama máta og eldunartíminn er þá sá sami.

Ég gef upp að maturinn nægi fyrir 4-5 manns. Við erum venjulega sex fullorðin og eitt til þrjú börn og höfum því tvo bóga, það verður alltaf svolítið mikill afgangur.

Þið verðið síður en svo svikin af þessari dýrindis mjúku og meyru helgarsteik kæru vinir.

Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

miðvikudagur, 13. nóvember 2013

Ostakaka með Nóa kropp og hindberjasósu


Vinkvennahópurinn minn úr Verzlunarskólanum hittist reglulega í saumaklúbbi þar sem við spjöllum um daginn og veginn og borðum á okkur gat af dýrindis kræsingum.
 Við hittumst hjá einni úr hópnum í kvöld og áttum skemmtilega stund saman, við höfðum ekki hist almennilega síðan í byrjun sumars og var því af nógu að taka í slúðri og fréttum.

Ég var svolítið tímabundin og gerði því uppáhalds ostakökuna mína þessa dagana og rjómakaramellukubba.
Uppskrift að kubbunum mun ég setja hér inn á bloggið um helgina en í þetta skipti ætla ég að deila með ykkur elskulegu ostakökunni minni.

Ég gerði kökuna fyrst fyrir afmælisveislu kærasta míns í október og gerði þá merku uppgötvun að Nóa kropp og ostakaka saman í einni uppskrift gera bragðlaukana afar hamingjusama.

 Kakan inniheldur ekki mikið af rjómaosti, bragðið af henni er því frekar milt.


Ostakaka með Nóa kropp


250 g Nóa kropp

6 dl þeyttur rjómi
300 g rjómaostur
180 g flórsykur
1 1/2 tsk vanilludropar

400 g frosin hindber
2-3 msk hrásykur

 Setjið Nóa kropp í eldfast mót eða annað fat og kremjið kúlurnar gróflega með flötum botni á glerglasi.

Hrærið rjómaost, flórsykur og vanilludropa saman í skál og blandið þeyttum rjóma vel og vandlega saman við.

Smyrjið ostablöndunni jafnt yfir Nóa kroppið og kælið.

Afþíðið hindber í örbylgjuofni til að flýta fyrir og sjóðið í potti ásamt hrásykri.
Látið krauma við vægan hita í 5 mínútur.

Athugið að ef hindberjasósan er látin sjóða of lengi soðna berin niður og úr verður sulta.

Sigtið sósuna á meðan hún er heit og kælið.

Hellið hindberjasósunni yfir ostakökuna og smyrjið henni jafnt á með skeið.

Best þykir mér kakan þegar hún hefur verið í frysti í 3-4 klukkustundir.


Þið ostakökuunnendur megið alls ekki láta þessa framhjá ykkur fara.
Hún er svolítið öðruvísi því hún er ekki bökuð eða látin stífna með matarlími en alveg ofboðslega góð engu að síður og afar fljótgerð.


Bestu kveðjur


Tinna Björg

sunnudagur, 10. nóvember 2013

Danska smurbrauðið hans pabba


Það er aldeilis ferðaveðrið í dag.
Við stórfjölskyldan vorum að koma heim úr sumarhúsi á Geysi í þessum svakalega stormi en til allrar hamingju skilaði jeppinn hans föður míns okkur heilum heim.

Helgin í bústað einkenndist af rólegheitum og miklu áti, prjónaskap og afslöppun í heita pottinum.

Í gær fengum við sól og blíðskaparveður en vorum of þreytt og löt til að fara í skoðunarferð um Geysissvæðið.
Það var ekki fyrr en í gærkvöldi þegar farið var í pottinn sem útivist helgarinnar hófst.

Faðir minn var kokkur ferðarinnar og töfraði fram þetta ljúffenga danska smurbrauð í hádeginu ásamt því að elda fyrir okkur unaðslegan svínabóg og meðlæti í gærkvöldi.

Þegar foreldrar mínir vilja gera vel hvort við annað gera þau stundum danskt smurbrauð.

Hægt er að gera smurbrauð á marga vegu og það er um að gera að prófa sig áfram með þau hráefni sem manni þykir best.

Að þessu sinni gerði pabbi þrenns konar smurbrauð; með rækjum, skinku og roastbeef.Foreldrum mínum þykir best að nota maltbrauð í smurbrauðsgerðina en nota má hvaða brauð sem er. Í rækjubrauðinu hafði faðir minn franskbrauð.

Áður en álegg er sett á brauðsneiðarnar eru þær smurðar með blöndu af sýrðum rjóma og majonesi. Þegar ég geri smurbrauð smyr ég það hins vegar með smjöri.


Smurbrauð með Roastbeef


maltbrauð
majones
sýrður rjómi
roastbeef
remolaði
steiktur laukur
súrar agúrkusneiðar
niðursoðnar ferskjur

Smyrjið maltbrauð með blöndu af majonesi og sýrðum rjóma eða smjöri.

Leggið tvær sneiðar af roastbeef ofan á hverja sneið, sprautið remolaði á hana miðja og stráið steiktum lauk yfir.

Skreytið hverja sneið með tveimur súrum agúrkusneiðum og einni sneið af niðursoðinni ferskju.

Mér þykja súrar agúrkur ómissandi með roastbeefbrauðinu en sumir kjósa eflaust að hafa niðursoðnar aprikósur í staðinn.


Smurbrauð með skinku


maltbrauð
majones
sýrður rjómi
blaðsalat
skinka
1 dós gulrætur og grænar baunir frá Ora
1 dós niðursoðinn ananas
1-2 harðsoðin egg
nokkrar agúrkusneiðar
nokkrar sveskjur
1-2 tómatar

Smyrjið maltbrauð með blöndu af majonesi og sýrðum rjóma eða smjöri.

Setjið eina skinkusneið á hverja brauðsneið og leggið blaðsalat fallega ofan á.

Hrærið majones og sýrðan rjóma saman við gulrætur og grænar baunir.
Setjið 2-3 msk af salati í miðjuna á hverri brauðsneið.

Skerið niðursoðinn ananas í hæfilega stóra bita og setjið 4-5 bita á hverja sneið ásamt 2-3 sneiðum af niðursoðnum eggjum.

Skerið sveskjur í bita og tómata í báta.
Skreytið smurbrauðið með tveimur tómatbátum og nokkrum sveskjubitum.


Smurbrauð með rækjum

franskbrauð
majones
sýrður rjómi
rækjur
Aromat
1 - 2 harðsoðin egg
1 sítróna

Smyrjið franskbrauð með sýrðum rjóma og sprautið majonesi yfir.

Hrúgið rækjum á miðju hverrar brauðsneiðar og sáldrið smá Aromati yfir.
Skreytið með tveimur sneiðum af niðursoðnu eggi og einni sítrónu sneið.


Auk þessara þriggja tegunda gera foreldrar mínir stundum smurbrauð með lifrarkæfu og hangikjöti sem er einnig afar ljúffengt.


Verði ykkur að góðu kæru vinir!


Tinna Björg