Ljúffenga og einfalda Rice Krispies kakan


Ég kláraði síðasta skóladag annarinnar á fimmtudaginn og var því fagnað með tveimur jólahlaðborðum, einu á fimmtudag og einu á föstudag. Mér finnst alveg nauðsynlegt að byrja langa og erfiða prófatíð á einhverju svona skemmtilegu, ég fer þá út í lærdóminn endurnærð og með jákvæðara viðhorfi en ella.

Á föstudaginn var jólahlaðborð hjá stórfjölskyldu kærasta míns þar sem við áttum góða kvöldstund saman yfir forrétti, aðalrétti og eftirrétti.

Hver fjölskylda kom með einhvern rétt og ég fékk það verkefni að gera waldorfsalat með matnum og köku í eftirrétt.

 Ég hafði lítinn tíma fyrir bakstur og bjargaði málunum með fljótlegri, einfaldri og alveg ofboðslega góðri Rice Krispies köku sem er svo vinsæl hjá minni fjölskyldu.

Uppskriftin birtist í jólabæklingi Nóa Síríus fyrir einhverjum tíu árum og hefur verið á borðum í flestum ef ekki öllum veislum hjá okkur systrunum síðan.

Við gerð þessarar köku er um að gera að láta hugmyndaflugið njóta sín en ég hef sé nokkrar útfærslur á henni, m.a. með Góu kúlukremi í stað rjómakaramellukrems.


Afmælisgóðgæti

Rice Krispies kökubotn

100 g suðusúkkulaði
100 g karamellu Pipp
100 g smjör
4 msk sýróp
5 bollar Rice Krispies


Sjóðið suðusúkkulaði, karamellu Pipp, smjör og sýróp saman í potti og látið krauma við vægan hita í 5 mínútur þannig að blandan verði karamellukennd.

Takið pottinn af hellunni og látið standa í 3-4 mínútur.

Hrærið Rice Krispies saman við súkkulaðibráðina og þrýstið blöndunni í hringlaga kökuform.

Kælið kökuna og setjið á kökudisk.


Bananarjómi

350 ml þeyttur rjómi
3 bananar

Skerið banana í litla bita og blandið saman við þeyttan rjóma.

Smyrjið bananarjómanum á kökubotninn.


Karamellubráð

15 rjómakaramellur frá Freyju
50 ml rjómi


Bræðið rjómakaramellur og rjóma saman í potti og látið krauma við vægan hita í 3-4 mínútur.

Kælið karamellubráðina við stofuhita og hellið henni yfir bananarjómann.
 

Ég minni á leikinn sem er í gangi á Facebook síðu matarbloggsins, það er um að gera að taka þátt til að eiga möguleika á að vinna gjafabréf fyrir tvo á Sushisamba.

 Verð ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

  1. Þetta verð ég að prófa. Lítur ekkert smá vel út!!

    strawberriia.blogspot.com

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur