Danska smurbrauðið hans pabba


Það er aldeilis ferðaveðrið í dag.
Við stórfjölskyldan vorum að koma heim úr sumarhúsi á Geysi í þessum svakalega stormi en til allrar hamingju skilaði jeppinn hans föður míns okkur heilum heim.

Helgin í bústað einkenndist af rólegheitum og miklu áti, prjónaskap og afslöppun í heita pottinum.

Í gær fengum við sól og blíðskaparveður en vorum of þreytt og löt til að fara í skoðunarferð um Geysissvæðið.
Það var ekki fyrr en í gærkvöldi þegar farið var í pottinn sem útivist helgarinnar hófst.

Faðir minn var kokkur ferðarinnar og töfraði fram þetta ljúffenga danska smurbrauð í hádeginu ásamt því að elda fyrir okkur unaðslegan svínabóg og meðlæti í gærkvöldi.

Þegar foreldrar mínir vilja gera vel hvort við annað gera þau stundum danskt smurbrauð.

Hægt er að gera smurbrauð á marga vegu og það er um að gera að prófa sig áfram með þau hráefni sem manni þykir best.

Að þessu sinni gerði pabbi þrenns konar smurbrauð; með rækjum, skinku og roastbeef.



Foreldrum mínum þykir best að nota maltbrauð í smurbrauðsgerðina en nota má hvaða brauð sem er. Í rækjubrauðinu hafði faðir minn franskbrauð.

Áður en álegg er sett á brauðsneiðarnar eru þær smurðar með blöndu af sýrðum rjóma og majonesi. Þegar ég geri smurbrauð smyr ég það hins vegar með smjöri.


Smurbrauð með Roastbeef


maltbrauð
majones
sýrður rjómi
roastbeef
remolaði
steiktur laukur
súrar agúrkusneiðar
niðursoðnar ferskjur

Smyrjið maltbrauð með blöndu af majonesi og sýrðum rjóma eða smjöri.

Leggið tvær sneiðar af roastbeef ofan á hverja sneið, sprautið remolaði á hana miðja og stráið steiktum lauk yfir.

Skreytið hverja sneið með tveimur súrum agúrkusneiðum og einni sneið af niðursoðinni ferskju.

Mér þykja súrar agúrkur ómissandi með roastbeefbrauðinu en sumir kjósa eflaust að hafa niðursoðnar aprikósur í staðinn.


Smurbrauð með skinku


maltbrauð
majones
sýrður rjómi
blaðsalat
skinka
1 dós gulrætur og grænar baunir frá Ora
1 dós niðursoðinn ananas
1-2 harðsoðin egg
nokkrar agúrkusneiðar
nokkrar sveskjur
1-2 tómatar

Smyrjið maltbrauð með blöndu af majonesi og sýrðum rjóma eða smjöri.

Setjið eina skinkusneið á hverja brauðsneið og leggið blaðsalat fallega ofan á.

Hrærið majones og sýrðan rjóma saman við gulrætur og grænar baunir.
Setjið 2-3 msk af salati í miðjuna á hverri brauðsneið.

Skerið niðursoðinn ananas í hæfilega stóra bita og setjið 4-5 bita á hverja sneið ásamt 2-3 sneiðum af niðursoðnum eggjum.

Skerið sveskjur í bita og tómata í báta.
Skreytið smurbrauðið með tveimur tómatbátum og nokkrum sveskjubitum.


Smurbrauð með rækjum

franskbrauð
majones
sýrður rjómi
rækjur
Aromat
1 - 2 harðsoðin egg
1 sítróna

Smyrjið franskbrauð með sýrðum rjóma og sprautið majonesi yfir.

Hrúgið rækjum á miðju hverrar brauðsneiðar og sáldrið smá Aromati yfir.
Skreytið með tveimur sneiðum af niðursoðnu eggi og einni sítrónu sneið.


Auk þessara þriggja tegunda gera foreldrar mínir stundum smurbrauð með lifrarkæfu og hangikjöti sem er einnig afar ljúffengt.


Verði ykkur að góðu kæru vinir!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur