föstudagur, 30. janúar 2015

Einfalt helgargóðgæti með kaffinu


Ég hef verið í meiriháttar bloggpásu síðan í lok desember enda mikið að gera þessa dagana. Helstu fréttir af okkur mæðgum eru þær að ný skólaönn í meistaranáminu er hafin og lærdómurinn endalaus en Klara Sóllilja byrjaði í leikskóla í byrjun janúar. Ég tók síðan þrjú hross á hús um miðjan mánuðinn. Það verður nóg að gera það sem af er vetri, þvílík sæla! Það skiptir mig miklu máli að dóttir mín alist upp í návist dýra eins og ég gerði og læri að bera virðingu fyrir þeim. Eplið litla virðist ekki hafa fallið langt frá eikinni því hún svoleiðis elskar að brussast uppi í húsi hjá hrossunum, greiða á þeim faxið og gefa þeim hey.

Síðasta laugardag flutti systir mín og hennar fjölskylda í nýja húsið sitt sem þau hafa verið að gera upp undanfarna mánuði. Mágur minn átti líka afmæli sama dag og auðvitað slógu konurnar í kring um hann upp þessari fínu afmælis- og innflutningsveislu í tilefni dagsins. Systir mín gerði eplagumsið sitt góða sem slær alltaf í gegn, mamma bakaði tvær dásamlegar kökur og tengdamóðir systur minnar, sem er snillingur í brauðréttum og salötum, töfraði fram skinku- og aspasrétt og langbesta túnfisksalatið.

 Ég ætla að deila með ykkur uppskrift að eplagumsinu hennar systur minnar. Nafnið er ekki beint aðlaðandi en gumsið er með því betra sem ég fæ. Þetta er einn af sérréttum systur minnar sem hún hefur gert síðan ég man eftir mér. Ótrúlega einfalt, fljótlegt og himneskt með vanilluís!Eplagums Helenu systur


1 bolli hveiti
1 bolli sykur
1 bolli haframjöl
140 g smjör
5 Jonagold epli
100 g suðusúkkulaði
kanilsykur

Blandið saman í skál hveiti, sykri 0g haframjöli og hnoðið smjörinu saman við með fingrunum. Best er að hafa smjörið svolítið kalt þannig að það sé stíft.

 Brjótið suðusúkkulaði í bita og raðið þeim í botninn á eldföstu móti. Afhýðið Jonagold epli og fjarlægið kjarnann úr þeim. Skerið þau síðan í litla bita og setjið ofan á súkkulaðið í eldfasta mótinu. Klípið litlar deigklessur úr skálinni og dreifið jafnt yfir eplin þannig að þau séu þakin deigi. Stráið síðan kanilsykri yfir deigið.

Bakið eplagumsið í ofni við 175° í 45 mínútur eða þar til deigið ofan á verður stökkt og fallega brúnt.

Berið heitt eplagumsið fram með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Ég hvet ykkur til að prófa þessa dásemd kæru vinir, þið verðið ekki svikin!

Tinna Björg

miðvikudagur, 14. janúar 2015

Hollustu bollurnar í bænum


Tölum aðeins um nesti í skólann og vinnuna. Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir er ég sérlegur áhugamaður um nesti til að eiga í frysti. Þetta eru þær uppskriftir sem ég notast helst við:
  Þegar ég reyni að halda mig á braut heilsunnar, sem er oftast rétt í byrjun nýs árs eða svo, þá reyni ég að sneiða framhjá hveiti, geri og hvítum sykri. Sumum þykir spelt vera skárri kostur en hvítt hveiti á meðan öðrum finnst það lítið skárra. Eftir að ég fékk magasár 16 ára gömul hef ég átt við hina ýmsu magakvilla að stríða og best líður mér þegar ég sleppi öllu korni og geri.
En það er sko aldeilis hægara sagt en gert að sleppa elskulega brauðinu. Í staðinn fyrir venjulegt brauð finnst mér gott að eiga í frysti bollur sem ég baka úr haframjöli og lyftidufti.
Einhverjir vilja eflaust frekar nota vínsteinslyftiduft en ég nota bara þetta gamla og góða venjulega. Ástæðan fyrir því er sú að einu sinni þegar ég bakaði grófar speltbollur gleymdi ég vínsteinslyftiduftinu og áttaði mig á að ég get alveg eins sleppt því, vínsteinslyftiduft lyftir bollunum ekkert.

 
Grófar haframjölsbollur

10 dl malað haframjöl
3 tsk lyftiduft
1 dl fimm korna fræblanda
1 msk kúmen
2 tsk sjávarsalt
2 dl AB mjólk
3 - 4 dl heitt vatn

Blandið saman möluðu haframjöli, lyftidufti fræblöndu, kúmeni og sjávarsalti í skál og hrærið AB mjólk og heitu vatni saman við með sleif. Það tekur því varla að taka fram hrærivélina fyrir þessa einföldu uppskrift. Athugið að mala þarf haframjölið áður en það er mælt.

Mótið hæfilega stórar bollur og raðið þeim saman í klasa á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Þannig haldast bollurnar mýkri. Deigið á að vera blautt og klístrað þegar bollurnar eru mótaðar. Gott er að hafa við höndina skál með vatni til að dýfa höndunum í svo deigið límist ekki við fingurna.

Sáldrið fræjum yfir haframjölsbollurnar og bakið í ofni við 200° í 30-35 mínútur eða þar til þær verða svolítið dökkar. Látið bollurnar kólna og rífið þær í sundur. Pakkið hverri og einni síðan inn í plastfilmu og frystið.

Athugið að vegna þess að bollurnar innihalda malað haframjöl þá eru þær svolítið eins og þykkur hafragrautur á meðan þær eru heitar. Því er mikilvægt að leyfa þeim að kólna áður en þær eru skornar í tvennt. Til að tryggja að bollurnar bakist örugglega í miðjunni er gott að skipta þeim upp í tvo klasa.

Haframjölsbollurnar þykir mér bestar með smjöri og osti eða heimagerðu hummus.

Ég hvet ykkur til að prófa þessar elskur.


Tinna Björg