Hollustu bollurnar í bænum
Tölum aðeins um nesti í skólann og vinnuna. Eins og glöggir lesendur hafa eflaust tekið eftir er ég sérlegur áhugamaður um nesti til að eiga í frysti. Þetta eru þær uppskriftir sem ég notast helst við:
Rúsínuspeltbrauð
Kókoskúlur
Sykurlausar bananamuffins
Baunabuff
Grófar speltbollur
Súkkulaðisæla
Hrástykki
Þegar ég reyni að halda mig á braut heilsunnar, sem er oftast rétt í byrjun nýs árs eða svo, þá reyni ég að sneiða framhjá hveiti, geri og hvítum sykri. Sumum þykir spelt vera skárri kostur en hvítt hveiti á meðan öðrum finnst það lítið skárra. Eftir að ég fékk magasár 16 ára gömul hef ég átt við hina ýmsu magakvilla að stríða og best líður mér þegar ég sleppi öllu korni og geri.
En það er sko aldeilis hægara sagt en gert að sleppa elskulega brauðinu. Í staðinn fyrir venjulegt brauð finnst mér gott að eiga í frysti bollur sem ég baka úr haframjöli og lyftidufti.
Einhverjir vilja eflaust frekar nota vínsteinslyftiduft en ég nota bara þetta gamla og góða venjulega. Ástæðan fyrir því er sú að einu sinni þegar ég bakaði grófar speltbollur gleymdi ég vínsteinslyftiduftinu og áttaði mig á að ég get alveg eins sleppt því, vínsteinslyftiduft lyftir bollunum ekkert.
Grófar haframjölsbollur
10 dl malað haframjöl
3 tsk lyftiduft
3 tsk lyftiduft
1 dl fimm korna fræblanda
1 msk kúmen
2 tsk sjávarsalt
2 dl AB mjólk
3 - 4 dl heitt vatn
Blandið saman möluðu haframjöli, lyftidufti fræblöndu, kúmeni og sjávarsalti í skál og hrærið AB mjólk og heitu vatni saman við með sleif. Það tekur því varla að taka fram hrærivélina fyrir þessa einföldu uppskrift. Athugið að mala þarf haframjölið áður en það er mælt.
Mótið hæfilega stórar bollur og raðið þeim saman í klasa á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Þannig haldast bollurnar mýkri. Deigið á að vera blautt og klístrað þegar bollurnar eru mótaðar. Gott er að hafa við höndina skál með vatni til að dýfa höndunum í svo deigið límist ekki við fingurna.
Sáldrið fræjum yfir haframjölsbollurnar og bakið í ofni við 200° í 30-35 mínútur eða þar til þær verða svolítið dökkar. Látið bollurnar kólna og rífið þær í sundur. Pakkið hverri og einni síðan inn í plastfilmu og frystið.
Athugið að vegna þess að bollurnar innihalda malað haframjöl þá eru þær svolítið eins og þykkur hafragrautur á meðan þær eru heitar. Því er mikilvægt að leyfa þeim að kólna áður en þær eru skornar í tvennt. Til að tryggja að bollurnar bakist örugglega í miðjunni er gott að skipta þeim upp í tvo klasa.
Haframjölsbollurnar þykir mér bestar með smjöri og osti eða heimagerðu hummus.
Ég hvet ykkur til að prófa þessar elskur.
Ég hvet ykkur til að prófa þessar elskur.
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli