Dásamlegar bananamuffins - Enginn sykur og ekkert hvítt hveiti
Eins og svo margir er ég mjög áhugasöm um hollan en samt sem áður góðan mat. Margir halda að þrusuhollur matur geti ekki verið góður en það er langt frá því að vera rétt. Við erum svo heppin að eiga marga góða veitingastaði á Íslandi sem bjóða upp á holla og staðgóða rétti en svo er alltaf hægt að skipta út óhollum hráefnum fyrir hollari kosti í eldamennskunni.
Mér finnst gaman að prófa mig áfram með uppskriftir og þá sérstaklega að skipta út sykri og hveiti. Þótt ég kjósi að elda eða baka úr hráefnum í hollari kantinum er ekki þar með sagt að réttirnir séu kolvetnasnauðir en ég er ekki mikið fyrir öfgar í þeim málum.
Ég er mikill sælkeri og get ómögulega sleppt því að fá mér eitthvað sætt yfir daginn. Þá er gott að grípa í þessar guðdómlegu bananamuffins.
Grunnuppskriftin er bananabrauðsuppskrift sem fengin er að láni af íslenskri matarbloggsíðu sem kallast Bakarí Gullu. Ég breytti uppskriftinni þónokkuð og skipti hveitinu út fyrir möndlumjöl og spelt.
Bananamúffur
2 1/2 dl vatn
3 stappaðir bananar
1 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
150 g möndlumjöl
150 g spelt
2 egg
2 msk ólífuolía
2 tsk vanilludropar
Sjóðið döðlur í vatninu í nokkrar mínútur þar til þær verða mjúkar. Maukið döðlurnar í blandara með vatninu.
Blandið þurrefnum saman í skál og hrærið eggjum, ólífuolíu, vanilludropum, stöppuðum bönunum og döðlumauki saman við.
Smyrjið eða spreyið muffinsform með feiti og hellið deiginu í.
Uppskriftin dugar í 12 múffur.
Bakið við 200° í 15-20 mínútur.
Ég notaði 200 g af döðlum í uppskriftina en fyrir þá sem vilja hafa þær mjög sætar er ágætt að bæta 25 g við. Athugið að þær verða mun sætari daginn eftir.
Möndlumjölið gefur múffunum ofboðslega fyllt og gott bragð og skemmtilega áferð.
Þessar múffur er afar gott að eiga í frysti og hafa sem nesti í vinnuna eða skólann.
Nágrannakonan var svo elskuleg að koma færandi hendi með banana fyrir mig til að baka úr þannig að framundan er heljarinnar muffinsbakstur.
Njótið vel!
Tinna Björg
Spelt er hveiti ;)
SvaraEyðaSpelt er vissulega í ,,hveitifjölskyldunni'' en kemur af annarri kornplöntu en hveiti og þess vegna alveg kolrangt að segja að spelt sé hveiti. Það inniheldur aðeins minna af kolvetnum en meira af próteinum, er trefjaminna en hveiti en þó auðmeltanlegra. Ég hvet þig eindregið til að lesa þér til um þessi hráefni áður en þú ferð að slá fram svona fullyrðingum :)
Eyða