Lágkolvetna hrökkbrauð og sumarlegt kotasælusalat



Helgin fór í rólegheit heima með dóttur minni, við vorum búnar að vera hálfslappar alla síðustu viku svo eldamennskan fékk að sitja á hakanum. Ég tók þó ágætis rispu í eldhúsinu í gær og gerði meðal annars þetta dásamlega hrökkbrauð. Hrökkbrauðið er tiltölulega lágt í kolvetnum en í staðinn fyrir hveiti eða spelt set ég í það möndlumjöl. 


Lágkolvetna hrökkbrauð

2 dl möndlumjöl
3 dl fræ (sólblóma-, graskers- og sesamfræ)
1 ½ dl rifinn ostur
1-3 msk pizzakrydd
1 tsk hvítlauksduft
1 egg
1 ½ msk ólífuolía
sjávarsalt

Blandið saman möndlumjöli og fræjum í skál. Rífið ost með grófari hluta rifjárnsins og hrærið saman við ásamt pizzakryddi, hvítlauksdufti, eggi og ólífuolíu.
Setjið deigið á smjörpappírsörk og leggið aðra örk yfir. Fletjið út með kökukefli eins þunnt og hægt er. Uppskriftin passar á eina ofnskúffu. Takið efri smjörpappírsörkina af og stráið sjávarsalti yfir. Skerið deigið í sneiðar áður en það fer í ofninn.


Bakið við 180° gráður í 10-15 mínútur.

Skera þarf hrökkbrauðið aftur um leið og það kemur úr ofninum því það er fljótt að kólna og harðna.

Með hrökkbrauðinu gerði ég hummus og sumarlegt kotasælusalat sem mér finnst ofboðslega
gott á hrökkbrauð og poppkex.




Kotasælusalatið finnst mér best með fersku dilli úr garðinum en þar sem ég setti ekki niður dill í sumar nota ég þurrkað í staðinn.
  
Sumarlegt kotasælusalat
 
1 lítil dós kotasæla
½ rauð paprika
3 msk Maribo ostur
½ - ¾ tsk hvítlaukssalt
½ tsk dill

Skerið papriku smátt og rífið Mariboost. Blandið öllu saman í fallega skál og berið fram með hrökkbrauðinu.

Hrökkbrauðið er stökkt og alveg svakalega gott en það sem gerir það ennþá gómsætara er osturinn sem bráðnar upp úr deiginu og harðnar ofan á. Það er tilvalið sem nesti í skólann eða vinnuna og gott að grípa í á milli mála.
 
Ég tíndi jarðarber í gærkvöldi og gerði nokkrar krukkur af jarðarberja- og rabarbarahlaupi. Ég skelli uppskriftinni inn í vikunni.

 
Með bestu kveðju!

Tinna Björg

Ummæli

  1. Hæhæ, mig langaði aðeins að forvitnast. Virkar uppskriftin líka þó ég sleppi ostinum, eða get ég sett eitthvað annað í staðinn?
    Bestu kveðjur,
    Guðrún

    SvaraEyða
    Svör
    1. þá meina ég osturinn í hrökkbrauðinu :)

      Eyða
    2. Sæl Guðrún,

      Ég hef ekki prófað að sleppa ostinum en ég hugsa nú að eggið bindi það alveg nógu vel saman. Það er kannski ágætt að bæta við hálfu eða einu eggi svo brauðið bindist betur saman þegar það er bakað.

      Kveðja,

      Tinna

      Eyða
  2. Æðislegt hrökkbrauð hvort sem er með salati eða bara eitt sér :)

    SvaraEyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur