sunnudagur, 27. september 2015

Hvönnin nýtt í dýrindis kvöldverð


Ég er mikið náttúrubarn og hef gaman af því að nýta það sem náttúran okkar hefur upp á að bjóða í matargerðina. Það er óþarfi að fara alla leið upp í sveit til að finna hinar ýmsu matjurtir, þær vaxa víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í garðinum hjá nágrannanum. Nei djók.
Ég nota ætihvönn reglulega í matargerð en hún sprettur m.a. við árbakka og læki. Um daginn fórum við mæðgur í gönguferð um Kópavogsdalinn þar sem ég rakst á svona líka ljómandi fína hvönn til að taka með heim í soðið.


Þegar ég tíni hvönn vel ég smávaxin og ljós lauf, þau eru yngri og ekki eins römm og þau sem stærri og dekkri eru. Hvannarlaufin þykir mér meiriháttar að nota til að krydda kjötrétti eins og þessar ljúffengu kjötbollur.


Hvannarkjötbollur í rjóma-BBQ

Kjötbollur

800 g nautahakk
2 egg
5-6 grófar bruður
1 laukur
3/4 dl mjólk
1 tsk nautakraftur
svartur pipar
1 1/2 tsk sjávarsalt
1/2 tsk cumin
1/2 tsk laukduft
1/2 tsk hvítlauksduft
1/2 tsk Season All
handfylli söxuð ætihvannarlauf

Setjið nautahakk í skál ásamt eggjum og myljið  bruðurnar yfir. Fínsaxið lauk og bætið við nautahakkið ásamt mjólk, nautakrafti, svörtum pipar, sjávarsalti, cumin, laukdufti, hvítlauksdufti, Season All og söxuðum hvannarlaufum.
 Blandið öllum hráefnum vandlega saman með höndunum. Athugið þó að ef nautahakkið er hnoðað of lengi verður það seigt.

Útbúið hæfilega stórar kjötbollur með höndunum og raðið þeim í stórt eldfast mót. Eldið bollurnar í ofni við 180° í 20 mínútur og útbúið rjóma-BBQ sósu á meðan.


Rjóma-BBQ sósa

2 dl matreiðslurjómi
1 dl Honey Mustard BBQ sósa
1/2 dl tómatpassata
1 msk Maizena mjöl

Hitið rjóma, BBQ sósu og tómatpassata í potti og látið krauma við vægan hita í nokkrar mínútur. Þykkið sósuna með Maizena mjöli.


Þegar kjötbollurnar hafa eldast í 20 mínútur, hellið þá rjóma-BBQ sósunni yfir þær og eldið áfram í 5 mínútur.

 Berið fram með hrísgrjónum og góðu hvítlauksbrauði.


Öll hráefni í þessar stórgóðu hvannarkjötbollur fást í Fjarðarkaupum, nema hvönnin auðvitað. Hana þurfið þið að tína sjálf.


Ég hvet ykkur til að prófa þessa uppskrift í vikunni, sérstaklega ef þið eigið börn. Dóttur minni þykir þessar kjötbollur algjört lostæti.


Tinna Björg
 

fimmtudagur, 17. september 2015

Helgarkakan fyrir þá sem elska hnetusmjör


Þarsíðustu helgi kvaddi ég samstarfsmenn mína í lögreglunni á Ísafirði en ég starfaði þar sem lögreglumaður í afleysingum í sumar. Þvílík dásemd sem þetta sumar er búið að vera! Ég er í skýjunum yfir að hafa fengið að vinna svona skemmtilegt starf í náttúruperlunni sem Vestfirðir eru. Ég kynntist svo mörgu frábæru fólki og enginn vinnudagur var eins. Held bara svei mér þá að ég eigi eftir að sakna þess að búa á Ísafirði með annan fótinn.

Eftirlitsferðir um sveitirnar þótti mér ekki leiðinlegar

Önundarfjörður er í sérstöku uppáhaldi

Samstarfsmennirnir voru kvaddir með þessari hnetusmjörshnallþóru, ég ætla rétt að vona að þeir sakni mín. Á milli hnetusmjörsbotnanna setti ég brownie-botn sem ég bakaði úr tilbúnu köku-mixi, til að spara nokkur handtök og tíma.Hnetusmjörshnallþóra

Hnetusmjörsbotnar

1 1/2 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1/3 bolli olía
1/3 krukka hnetusmjör
1 bolli púðursykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
1 bolli AB mjólk

Blandið saman í skál hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti og leggið til hliðar. Hrærið saman í aðra skál olíu, hnetusmjöri og púðursykri. Bætið því næst við eggjum, vanilludropum og AB mjólk. Sigtið að lokum þurrefnin út í blautefnin og hrærið vel og vandlega saman. Smyrjið tvö smelluform og sníðið síðan bökunarpappír ofan í botn formanna svo auðveldara sé að leysa kökubotnana að bakstri loknum. Skiptið deiginu jafnt á milli forma og bakið við 170° í 30-35 mínútur eða þar til prjónn, sem stungið er í miðju kökubotnanna, kemur út hreinn. Kælið kökubotnana í formunum og leysið þá síðan úr.Brownie-botn

1 pakki tilbúið brownie mix

Blandið kökudeigið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Smyrjið smelluform og sníðið bökunarpappír í botn þess.  Hellið deiginu í formið og bakið brownie-botninn samkvæmt leiðbeiningum, jafnvel um fimm mínútum lengur. Kælið brownie-botninn og leysið hann síðan úr forminu.


Hnetusmjörskrem

450 g mjúkt smjör
300 g rjómaostur
600-700 g flórsykur
2/3 krukka hnetusmjör
2 tsk vanilludropar

Þeytið smjör þar til það verður kekkjalaust. Bætið rjómaosti saman við og þeytið áfram þannig að blandan verði silkimjúk. Hrærið að lokum flórsykri saman við ásamt hnetusmjöri og vanilludropum.


Súkkulaðikrem

200 g suðusúkkulaði
3 msk hnetusmjör
3 msk sýróp
100-120 ml rjómi

Bræðið súkkulaði, hnetusmjör og sýróp saman í potti og takið af hellunni. Það er eðlilegt að áferðin á súkkulaðiblöndunni sé skrýtin. Hrærið rjómanum síðan saman við heita súkkulaðiblönduna þar til kremið verður silkimjúkt. Kælið kremið að stofuhita.

Setjið annan hnetusmjörsbotninn á kökudisk og smyrjið hæfilega þykku hnetusmjörskremlagi yfir. Leggið brownie-botninn ofan á og smyrjið öðru lagi af hnetusmjörskremi yfir. Leggið síðan hinn hnetusmjörsbotninn ofan á og þekið alla kökuna vel og vandlega með hnetusmjörskremi. Hellið súkkulaðikremi jafnt yfir kökuna og látið leka niður með hliðunum.


Öll hráefni í þessa hnetusmjörsdásemd fást í Fjarðarkaupum.


Þið verðið að prófa þessa!

Tinna Björg
 

miðvikudagur, 2. september 2015

Fiskréttur vikunnar


Þrátt fyrir að ég sé mikill sælkeri og haldi úti matarbloggi mér til gamans þá hef ég alltaf verið svolítið matvönd, móður minni til mikillar mæðu. Fiskur er eitthvað sem ég borða hvað sjaldnast, sem er algjör synd því hvar fæst betri fiskur en á Íslandi? Og þegar ég borða fisk hef ég oftast aðeins valið ýsu.
Fyrst ég hef búið meira og minna á Ísafirði í allt sumar,  í sjávarþorpinu þar sem fiskurinn fæst ekki ferskari, mátti ég til með að fullorðnast og kíkja í fiskbúðina. Úr einni fiskbúðarferðinni spratt hugmyndin að þessum  ljúffenga þroskrétti sem ég er virkilega ánægð með. Rétturinn er algjört lostæti þótt ég segi sjálf frá og tilvalinn til að kenna gikkjum eins og mér gott að meta.


Þorskhnakki með döðlupestó

1 sæt kartafla
2 rauðar Ramiro paprikur
sjávarsalt
svartur pipar
1 krukka fetaostur
1 krukka grænt pestó
2/3 bolli salthnetur
10-15 döðlur
1 kg þorskhnakki (3-4 flök)

Afhýðið sæta kartöflu og skerið í um 1 cm þykkar sneiðar. Kljúfið Ramiro paprikur, fræhreinsið þær og skerið í nokkuð stóra bita, um 2-3 cm. Smyrjið eldfast mót með 1 msk af olíu af fetaostinum. Raðið sætum kartöflum í botninn á mótinu og dreifið paprikubitum yfir ásamt smá sjávarsalti og svörtum pipar. Eldið í ofni við 200° í 20 mínútur og útbúið döðlupestó á meðan.

Hellið olíu af fetaosti, setjið hann í skál og stappið örlítið með gaffli þannig að teningarnir verði smærri. Blandið grænu pestó saman við fetaostinn ásamt salthnetum og smátt skornum döðlum.

Skerið þorskflök í 2-3 stykki og raðið ofan á sætar kartöflur og papriku. Smyrjið 2-3 msk af döðlupestó yfir hvert þroskstykki þannig að fiskurinn verði alveg þakinn pestói. Lækkið hitann á ofninum í 180° og eldið fiskréttinn í 20 mínútur.

Berið fram með fersku salati.


Öll hráefni í þennan nýja uppáhalds fiskrétt fást í Fjarðarkaupum.


 Ég hvet ykkur til að prófa þennan kæru vinir.Tinna Björg