Helgarkakan fyrir þá sem elska hnetusmjör


Þarsíðustu helgi kvaddi ég samstarfsmenn mína í lögreglunni á Ísafirði en ég starfaði þar sem lögreglumaður í afleysingum í sumar. Þvílík dásemd sem þetta sumar er búið að vera! Ég er í skýjunum yfir að hafa fengið að vinna svona skemmtilegt starf í náttúruperlunni sem Vestfirðir eru. Ég kynntist svo mörgu frábæru fólki og enginn vinnudagur var eins. Held bara svei mér þá að ég eigi eftir að sakna þess að búa á Ísafirði með annan fótinn.

Eftirlitsferðir um sveitirnar þótti mér ekki leiðinlegar

Önundarfjörður er í sérstöku uppáhaldi

Samstarfsmennirnir voru kvaddir með þessari hnetusmjörshnallþóru, ég ætla rétt að vona að þeir sakni mín. Á milli hnetusmjörsbotnanna setti ég brownie-botn sem ég bakaði úr tilbúnu köku-mixi, til að spara nokkur handtök og tíma.Hnetusmjörshnallþóra

Hnetusmjörsbotnar

1 1/2 bolli hveiti
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1/3 bolli olía
1/3 krukka hnetusmjör
1 bolli púðursykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
1 bolli AB mjólk

Blandið saman í skál hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti og leggið til hliðar. Hrærið saman í aðra skál olíu, hnetusmjöri og púðursykri. Bætið því næst við eggjum, vanilludropum og AB mjólk. Sigtið að lokum þurrefnin út í blautefnin og hrærið vel og vandlega saman. Smyrjið tvö smelluform og sníðið síðan bökunarpappír ofan í botn formanna svo auðveldara sé að leysa kökubotnana að bakstri loknum. Skiptið deiginu jafnt á milli forma og bakið við 170° í 30-35 mínútur eða þar til prjónn, sem stungið er í miðju kökubotnanna, kemur út hreinn. Kælið kökubotnana í formunum og leysið þá síðan úr.Brownie-botn

1 pakki tilbúið brownie mix

Blandið kökudeigið samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum. Smyrjið smelluform og sníðið bökunarpappír í botn þess.  Hellið deiginu í formið og bakið brownie-botninn samkvæmt leiðbeiningum, jafnvel um fimm mínútum lengur. Kælið brownie-botninn og leysið hann síðan úr forminu.


Hnetusmjörskrem

450 g mjúkt smjör
300 g rjómaostur
600-700 g flórsykur
2/3 krukka hnetusmjör
2 tsk vanilludropar

Þeytið smjör þar til það verður kekkjalaust. Bætið rjómaosti saman við og þeytið áfram þannig að blandan verði silkimjúk. Hrærið að lokum flórsykri saman við ásamt hnetusmjöri og vanilludropum.


Súkkulaðikrem

200 g suðusúkkulaði
3 msk hnetusmjör
3 msk sýróp
100-120 ml rjómi

Bræðið súkkulaði, hnetusmjör og sýróp saman í potti og takið af hellunni. Það er eðlilegt að áferðin á súkkulaðiblöndunni sé skrýtin. Hrærið rjómanum síðan saman við heita súkkulaðiblönduna þar til kremið verður silkimjúkt. Kælið kremið að stofuhita.

Setjið annan hnetusmjörsbotninn á kökudisk og smyrjið hæfilega þykku hnetusmjörskremlagi yfir. Leggið brownie-botninn ofan á og smyrjið öðru lagi af hnetusmjörskremi yfir. Leggið síðan hinn hnetusmjörsbotninn ofan á og þekið alla kökuna vel og vandlega með hnetusmjörskremi. Hellið súkkulaðikremi jafnt yfir kökuna og látið leka niður með hliðunum.


Öll hráefni í þessa hnetusmjörsdásemd fást í Fjarðarkaupum.


Þið verðið að prófa þessa!

Tinna Björg
 

Ummæli

  1. Vá! Tengdasonurinn elskar hnetusmjör og þökk sé þér á ég eftir að skora mörg tengdamömmustig, takk.

    SvaraEyða
    Svör
    1. Frábært að heyra hvað hann á góða tengdamömmu, hann verður ekki svikinn ;)

      Eyða

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur