mánudagur, 28. apríl 2014

Hollusta á mánudegi


Prófalestur og málflutningsverkefni eiga hug minn allan þessa dagana en það er nauðsynlegt að taka smá hlé af og til og fá sér eitthvað næringarríkt að borða. Ekki veitir af í mínu tilfelli því ég borða nánast bara óhollt þegar ég er í prófum. Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að dásamlegum sætkartöflupottrétti. Rétturinn inniheldur ekkert kjöt en þeir kjötþyrstu geta einfaldlega bætt við hann nautakjöti eða forsteiktum kjúklingabitum. Keyrum hollustuna í gang!


Sætkartöflupottréttur

1 1/2 laukur
olía
1/2 - 1 tsk chiliduft
3 msk milt karrýmauk
3-4 msk tómatmauk
1 sæt kartafla
3 stórar gulrætur
1 lítið brokkolíhöfuð
1 dós kókosmjólk
1 dós nýrnabaunir
1 dós niðursoðnir tómatar
2-3 teningar grænmetiskraftur
svartur pipar
sjávarsalt

 Saxið lauk og svissið í stórum potti með smá olíu í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur linast. Bætið við chilidufti, karrýmauki og tómatmauki. Afhýðið og skerið sæta kartöflu og gulrætur í smáa teninga ásamt brokkolíi og blandið vel saman við laukinn og kryddið. Skerið niðursoðna tómata í hæfilega stóra bita og bætið í pottinn ásamt kókosmjólk og nýrnabaunum sem þegar hafa verið sigtaðar. Smakkið pottréttinn til með grænmetiskrafti, svörtum pipar og sjávarsalti.
Hitið upp að suðu og látið krauma við vægan hita í 50 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar og gulræturnar verða mjúkar.

Berið fram með nýbökuðum speltbollum.

 Verði ykkur að góðu kæru vinir og þeir sem eru í prófum eins og ég, you can do it!


Tinna Björg

mánudagur, 21. apríl 2014

Páskaboð, páskaegg, páskakökur, páska páska páska...

Páskarnir eru aldeilis búnir að vera fínir. Eins og yfir allar aðrar hátíðar er ég búin að liggja og raða í mig góðgætinu. Bókstaflega liggja. Foreldrar mínir gáfu öllum barnabörnunum páskaegg en þar sem Klara Sóllilja er svo lítil sáum við foreldrarnir um átið. Í staðinn fékk hún ofboðslega sniðugt barnapáskaegg frá Helenu systur minni og var yfir sig hrifin.Eggið, sem er úr pappa og húðað með álpappír, keypti hún í Tiger og fyllti með alls kyns barnvænu góðgæti, s.s. ávaxtastöng og rúsínum. Þvílík hamingja. Ég verð alltaf fyrir vonbrigðum með súkkulaðieggin svo ég hef lofað sjálfri mér að búa til mitt eigið á næsta ári.

Á páskadag borðum við alltaf veislumatinn í hádeginu og var engin undantekning þar á þetta árið. Foreldrar mínir elduðu fyrir okkur systurnar og tilheyrandi fjölskyldur hamborgarhrygg og léttreyktan lambahrygg ásamt alls kyns meðlæti og uppáhalds sósunni minni. Þau gera bestu sósur í heimi! Afi og föðurbróðir minn voru heiðursgestir páskaboðsins en páskaungarnir okkar í Svíþjóð sátu með okkur viðmatarborðið í gegn um Skype.

 
Við mæðgurnar vorum hæstánægðar með steikina og snarspenntar fyrir eftirréttinum.


Eftirrétturinn var ekki af verri endanum en systir mín töfraði fram dásamlegan sítrónuskyreftirrétt með kanilkexi og jarðarberjum. Frænkurnar litlu fengu svo sérstakan skyreftirrétt sem Helena útbjó án sykurs.


Í kaffitímanum bauð mamma upp á tvær ljúffengar kökur, himneska súkkulaðiköku með marssósu og perutertu. Ég viðurkenni að það var heldur erfitt að troða þeim niður eftir hádegismatinn en hvað lætur maður sig ekki hafa fyrir svona dásemd.


Himneska súkkulaðikakan er einhver sú besta franska súkkulaðikaka sem ég hef smakkað. Til að gera hana enn dásamlegri setti mamma á kökuna marssósu en ég skreytti  hana svo með súkkulaðifiðrildunum sem líta út fyrir að hafa verið gerð af 5 ára barni.


Perutertan er gömul og góð uppskrift sem amma, mamma og systur hennar hafa lengi notað. Hún samanstendur af súkkulaðisvampbotnum, bananakremi, perum og súkkulaðikremi.

Prinsessan var hæstánægð með daginn og þetta fína páskablóm sem amman lánaði henni.


Nú læt ég gott heita af súkkulaðiáti og tek hollu mataræði fagnandi, aldrei þessu vant. Í hádeginu í dag gerði ég ljúffengan sætkartöflupottrétt og bar hann fram með nýbökuðum speltbollum. Uppskriftin kemur á bloggið í vikunni svo fylgist vel með og verið spennt!

Bestu kveðjur


Tinna Björg

fimmtudagur, 17. apríl 2014

Ein gömul og góð páskaterta


Nú er páskagleðin hafin og þá er ekki úr vegi að skella í eina ljúffenga páskatertu. Að þessu sinni ætla ég að deila með ykkur einni gamalli og góðri uppskrift sem móðir mín hefur mikið notað í gegn um árin. Í gær átti ég góða kvöldstund með frændsystkinum mínum sem ég hitti alltof sjaldan en tertuna bakaði ég einmitt fyrir það tilefni. Það reyndist óþarfi að koma með köku því frænka mín sem bauð okkur heim sló upp þessari þvílíku matarveislu með kökum og alls kyns dásemdum. Þær kunna þetta aldeilis stelpurnar í fjölskyldunni.

Páskarnir eru eflaust langþráður frítími fyrir marga og eins gott að leyfa sér að njóta. Þótt þeir séu kannski ekkert mikill frítími fyrir okkur háskólanemana þá er eitthvað svo notalegt að sitja við lærdóminn og narta um leið í allar þær kræsingar sem páskunum fylgja. Þá kemur þessi ljúfa terta sér vel.


Möndlu-, döðlu- og súkkulaðiterta

Botnar

4 egg
1 bolli sykur
1/2 bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
1 1/2 bolli hakkaðar möndlur
1 1/2 bolli döðlur
100 g suðusúkkulaði

Þeytið egg og sykur vel og hrærið svo hveiti og lyftidyfti rólega saman við. Saxið döðlur og suðusúkkulaði smátt og blandið saman við deigið ásamt hökkuðum möndlum.

Smyrjið tvö hringlaga kökuform og deilið deiginu jafnt á milli þeirra. Bakið við 165° í 25-30 mínútur.


3 bananar
500 ml þeyttur rjómi
græn vínber
bláber
smá suðusúkkulaði

Hvolfið öðrum tertubotninum á disk og smyrjið um helmingi þeytta rjómans yfir. Skerið banana í sneiðar og raðið ofan á rjómann. Leggið hinn botninn ofan á tertuna og sprautið rjóma meðfram hliðum hennar. Skerið græn vínber í tvennt, dreifið þeim yfir tertuna ásamt bláberjum og rífið súkkulaði yfir.

Mér bókstaflega misbýður verðið á ferskum berjum hérna á Íslandi og nota þess vegna langoftast frosin bláber. Þau sem fást í Bónus og Iceland í hvítum pokum haldast vel þegar þau þiðna og eru virkilega bragðgóð.

 Ég vona að þið eigið yndislega páska í faðmi fjölskyldunnar kæru vinir.
Gleðilega páska! 


Tinna Björg

þriðjudagur, 15. apríl 2014

Kladdkökumuffins með Reese's kremi


Magga frænka mín og vinkona kom í heimsókn í gærkvöldi og þá var nú nauðsynlegt að eiga eitthvað góðgæti með teinu. Mér þykir fátt notalegra en að sitja í rólegheitum með vinkonunum frá Ísafirði, drekka te og eiga gott spjall. Við gerum það líka reglulega frænkurnar að hittast og prjóna saman eins og gömlum sálum sæmir.


 Ég fór í fyrsta lokapróf annarinnar seinnipartinn í gær og gafst því ekki mikill tími fyrir bakstur. Þá brá ég á það ráð að baka þessar stórgóðu kladdkökumuffins. Uppskriftina fékk ég hjá mágkonu minni en hún bakaði þær fyrir okkur í Svíþjóð í síðustu viku. Ég hef séð margar girnilegar kladdkökuuppskriftir en aldrei rekist á þær í muffinsformi fyrr en nú.

Blautar súkkulaðikökur verða seint taldar bragðvondar og eru kladdkökur afar vinsælar í Svíþjóð enda sænskt fyrirbæri. Kosturinn við kladdkökurnar er hversu einfaldar og auðveldar þær eru í gerð. Það er óþarfi að gera sér ferð út í búð fyrir baksturinn því hráefnin eru oftast til á vel flestum heimilum.
Til að gera kökurnar enn ljúffengari rændi ég nokkrum Reese's Peanut Butter Cups sem Sævar minn keypti sér í Fríhöfninni og gerði úr þeim krem á kökurnar.
 Súkkulaði og hnetusmjör er himnesk blanda sem getur ekki klikkað og núna þegar ég hef smakkað kladdköku með hnetusmjörskremi leyfi ég mér að fullyrða að hún er ómissandi án þess!Kladdkökumuffins með Reese's kremi
11-12 stykki
Kladdkökumuffins

3 dl sykur
1 1/2 dl hveiti
4 msk kakó
1/4 tsk salt
2 egg
1 tsk vanilludropar
100 g brætt smjör

Blandið þurrefnum saman í skál og hrærið eggjum saman við ásamt vanilludropum og bræddu smjöri.
Skiptið deiginu jafnt á milli 11-12 muffinsforma og bakið á undir- og yfirhita við 170° í 17-19 mínútur.


Reese's krem

12 Reese's Peanut Butter Cups
4 msk rjómi

Skerið Reese's í bita og bræðið í potti með rjóma. Látið krauma við miðlungs hita þar til hnetusmjörskekkirnir hafa bráðnað.

Kælið kremið örlítið og smyrjið á muffinskökurnar.


Kakan sem ég lofaði um síðustu helgi verður páskakakan í ár og kemur inn á síðuna í vikunni. Í millitíðinni mæli ég með þessum dásamlegu og fyrirhafnarlitlu kladdkökumuffins.

Hafið það gott!


Tinna Björg

fimmtudagur, 10. apríl 2014

Svíþjóðarsæla og ofurhollar hafrapönnukökur


Þá erum við fjölskyldan komin heim úr stuttri en dásamlegri Svíþjóðarferð. Við flugum til Kaupmannahafnar í hádeginu á föstudaginn og fórum með lest yfir til Svíþjóðar. Bróðir minn tók á móti okkur á lestarstöðinni í Malmö svo við tækjum örugglega rétta lest. Hann passar ennþá vel upp á litlu systur sína þessi elska. Þegar við gengum inn um dyrnar tók kærastan hans á móti okkur með svona líka ljómandi góðri mexíkóskri kjúklingasúpu og nýbökuðu naanbrauði, þvílík veisla! Súpan var svo góð að við borðuðum hana í þrjú mál. Sökum svengdar og græðgi náðust engar myndir af henni.

Mikið óskaplega var gaman og gott að hitta alla og að knúsa litlu fallegu frændsystkinin mín. Við vorum mikið heima í rólegheitum á kvöldin og fórum snemma að sofa, yndisleg og kærkomin afslöppun. Á laugardeginum fórum við í gönguferð og verslunarleiðangur í Malmö og á sunnudaginn gengum við svo um Lund. Sumir (ég) versluðu meira en aðrir á meðan aðrir (ég) borðuðu meira nammi en sumir. Þegar ég fer til útlanda er ég gjörn á að borða eins mikið og ég mögulega get af alls kyns gotteríi sem fæst ekki hér heima. Þær voru því ófáar kræsingarnar sem við létum ofan í okkur. Auk þess að missa vitið í stóru nammibúðinni í Lundi fórum við tvisvar á McDonald's og fengum okkur kransæðastíflu. Það er því óhætt að segja að ferðatöskurnar hafi ekki verið það eina sem kom heim í yfirvigt.

Ég keypti mér sem betur fer nóg af líkamsræktarfötum til að hrista hlaupið í og til að friða samviskuna ætla ég að deila með ykkur uppskrift að heilsusamlegum og ljúffengum hafrapönnukökum. Þessar pönnukökur eru tilvaldar fyrir þá sem eru í aðhaldi og vilja gera vel við sig án nokkurs samviskubits. Svo eru þær afar hentugar fyrir fólk eins og mig sem glímir við stöðuga brauðlöngun. 

Um helgina, þegar samviskan hefur jafnað sig, mun ég svo skella inn gómsætri kökuuppskrift. Verið spennt!


Hafrapönnukökur

6 eggjahvítur
2 dl haframjöl
2 dl hreint eplamauk
1 msk chiafræ
1 msk hörfræ
1/2 - 1 tsk kanill

Blandið saman í skál eggjahvítum, haframjöli, hreinu eplamauki, chiafræjum, hörfræjum og kanil.
Hitið pönnu að miðlungs hita og spreyið hana með smá PAM. Ausið deigi á pönnuna með matskeið eða lítill ausu og mótið litlar pönnukökur. Steikið á báðum hliðum þar til þær verða fallega brúnar og stinnar í miðjunni. Mikilvægt er að fylgjast vel með hitanum því pönnukökurnar brenna auðveldlega.
Þótt ég noti tefflonhúðaða pönnu spreyja ég hana alltaf með PAM því eggjahvíturnar festast eins og lím þegar þær byrja að eldast.

Hreina eplamaukið kaupi ég í litlum plastdósum í Krónunni, sex saman í pakka. Ég hef líka notað lífræna maukið frá Himneskt en þetta í dósunum er þynnra og sætara.

Mér þykir ofboðslega gott að eiga þessar pönnukökur í frysti og geta gripið í þær sem millimál eða nesti í skólann. Bestar eru þær þó nýbakaðar, smurðar með grískri jógúrt eða vanilluskyri.

Ofurhollt og dásamlega einfalt!


Tinna Björg

mánudagur, 7. apríl 2014

Góð og græn pizza


 Á þriðjudaginn kom ég glorhungruð heim úr ræktinni og hafði það ekki í mér að fara að hnoða í sveitta pizzu eftir öll átökin. Í staðinn tíndi ég til það sem ég fann í ísskápnum og bjó til svona líka ljómandi góða græna pizzu.
Ég er ekki ein af þeim sem trúir því að spelt sé heilsufæði svo ég reyni að nota það sem minnst í baksturinn en það má nú stundum.

 

Græn og væn pizza

Pizzabotn

50 g brokkolí
150 g blómkál
30 g spínat
100 g gróft spelt
1/2 tsk salt
1 1/2 tsk lyftiduft
1 msk olía
80-90 ml heitt vatn


Hakkið brokkolí og blómkál í matvinnsluvél og hitið í örbylgjuofni í 3 mínútur. Hakkið spínat í matvinnsluvél og blandið saman í skál ásamt brokkolíi, blómkáli og þurrefnum. Bætið olíu og heitu vatni saman við og hrærið öllu vel saman.
Sáldrið smá spelti á borðið og hnoðið saman við deigið.
Setjið deigið á bökunarpappírsörk, fletjið út og forbakið pizzabotninn við 200° í 10-15 mínútur.
Ég hafði deigið svolítið blautt og klístrað svo það yrði ekki þurrt. Til að fletja út svona klístrað deig legg ég aðra bökunarpappírsörk ofan á það áður en ég byrja að fletja út með kökukefli.


Álegg

2-3 msk tómatpúrra
2-3 msk pizzasósa
200 g rifinn ostur
10 sneiðar reykt silkiskorin skinka
1 hvítlauksrif
svartur pipar
pizzakrydd
parmesanduft
spínat

Smyrjið tómatpúrru jafnt á pizzabotninn og þekið tómatpúrruna með pizzasósu. Stráið rifnum osti yfir pizzuna, skerið reykta skinku í strimla og dreifið yfir ostinn. Pressið hvítlauk og sáldrið yfir pizzuna ásamt svörtum pipar, pizzakryddi og parmesandufti.

Bakið pizzuna við 200° í 15-20 mínútur. Dreifið yfir hana spínatblöðum áður en hún er borin fram.


Ég notaði tilbúna pizzasósu þótt hún sé ekki sú hollasta en fyrir þá sem vilja gera sína eigin er góða uppskrift að finna hér.


Þótt græna pizzan innihaldi spelt þykir mér hún skárri kostur en þessar venjulegu og skemmtilegt að breyta aðeins til. Það kom mér virkilega á óvart hversu bragðgóð pizzan er, manni dettur ekki í hug að botninn innihaldi grænmeti af einhverju tagi.


miðvikudagur, 2. apríl 2014

Einn einfaldur kjúklingaréttur


Ég skilaði síðasta verkefni BA námsins á mánudaginn og er búin að vera heima að eiga mér líf með dóttur minni síðan. Þvílíkur léttir! Ég mun þó ekki eiga mér líf lengi því fyrsta prófið er um miðjan apríl og ekki seinna vænna en að byrja að læra. Mánaðarlöng prófatörn framundan, ég verð gráhærð þegar ég hugsa um komandi vikur. Við fjölskyldan ætlum þó að leyfa okkur að eiga nokkra góða daga hjá bróður mínum og hans fjölskyldu í Svíþjóð áður en herlegheitin byrja.

Færslan verður stutt hjá mér að þessu sinni en ég má til með að deila með ykkur ótrúlega einfaldri og bráðgóðri uppskrift að kjúklingabringum úr hugarsmiðju snillingsins hennar móður minnar.


Kókoskjúklingur með mango chutney
Fyrir 3-4 manns

6 kjúklingabringur
salt
svartur pipar
350 ml rjómi
1 krukka mango chutney
kókosmjöl

Kryddið kjúklingabringur með salti og svörtum pipar, grillið í 5  mínútur á hvorri hlið á háum hita og setjið í eldfast mót.
Hrærið saman rjóma og hálfri krukku af mango chutney og hellið yfir bringurnar í mótinu. Smyrjið hinum helmingnum af mango chutney ofan á kjúklingabringurnar og stráið kókosmjöli yfir eftir smekk.
Eldið í ofni við 180° í um 15-25 mínútur.

Til að spara fyrirhöfnina er gott að elda kjúklingabringurnar í ofni við 180° í 25-30 mínútur í stað þess að grilla þær, áður en rjómasósa, mango chutney og kókosmjöl fara í mótið. Þær eru þá eldaðar í samtals 40-50 mínútur í ofni.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.


Þessi dásamlegi kjúklingaréttur er tilvalinn svona í miðri viku þegar maður kemur þreyttur heim úr vinnunni og langar síður að eyða löngum tíma við eldamennskuna.

Ég hvet ykkur til að prófa!


Tinna Björg