Ein gömul og góð páskaterta


Nú er páskagleðin hafin og þá er ekki úr vegi að skella í eina ljúffenga páskatertu. Að þessu sinni ætla ég að deila með ykkur einni gamalli og góðri uppskrift sem móðir mín hefur mikið notað í gegn um árin. Í gær átti ég góða kvöldstund með frændsystkinum mínum sem ég hitti alltof sjaldan en tertuna bakaði ég einmitt fyrir það tilefni. Það reyndist óþarfi að koma með köku því frænka mín sem bauð okkur heim sló upp þessari þvílíku matarveislu með kökum og alls kyns dásemdum. Þær kunna þetta aldeilis stelpurnar í fjölskyldunni.

Páskarnir eru eflaust langþráður frítími fyrir marga og eins gott að leyfa sér að njóta. Þótt þeir séu kannski ekkert mikill frítími fyrir okkur háskólanemana þá er eitthvað svo notalegt að sitja við lærdóminn og narta um leið í allar þær kræsingar sem páskunum fylgja. Þá kemur þessi ljúfa terta sér vel.


Möndlu-, döðlu- og súkkulaðiterta

Botnar

4 egg
1 bolli sykur
1/2 bolli hveiti
1 tsk lyftiduft
1 1/2 bolli hakkaðar möndlur
1 1/2 bolli döðlur
100 g suðusúkkulaði

Þeytið egg og sykur vel og hrærið svo hveiti og lyftidyfti rólega saman við. Saxið döðlur og suðusúkkulaði smátt og blandið saman við deigið ásamt hökkuðum möndlum.

Smyrjið tvö hringlaga kökuform og deilið deiginu jafnt á milli þeirra. Bakið við 165° í 25-30 mínútur.


3 bananar
500 ml þeyttur rjómi
græn vínber
bláber
smá suðusúkkulaði

Hvolfið öðrum tertubotninum á disk og smyrjið um helmingi þeytta rjómans yfir. Skerið banana í sneiðar og raðið ofan á rjómann. Leggið hinn botninn ofan á tertuna og sprautið rjóma meðfram hliðum hennar. Skerið græn vínber í tvennt, dreifið þeim yfir tertuna ásamt bláberjum og rífið súkkulaði yfir.

Mér bókstaflega misbýður verðið á ferskum berjum hérna á Íslandi og nota þess vegna langoftast frosin bláber. Þau sem fást í Bónus og Iceland í hvítum pokum haldast vel þegar þau þiðna og eru virkilega bragðgóð.

 Ég vona að þið eigið yndislega páska í faðmi fjölskyldunnar kæru vinir.
Gleðilega páska! 


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur