Páskaboð, páskaegg, páskakökur, páska páska páska...

Páskarnir eru aldeilis búnir að vera fínir. Eins og yfir allar aðrar hátíðar er ég búin að liggja og raða í mig góðgætinu. Bókstaflega liggja. Foreldrar mínir gáfu öllum barnabörnunum páskaegg en þar sem Klara Sóllilja er svo lítil sáum við foreldrarnir um átið. Í staðinn fékk hún ofboðslega sniðugt barnapáskaegg frá Helenu systur minni og var yfir sig hrifin.



Eggið, sem er úr pappa og húðað með álpappír, keypti hún í Tiger og fyllti með alls kyns barnvænu góðgæti, s.s. ávaxtastöng og rúsínum. Þvílík hamingja.



 Ég verð alltaf fyrir vonbrigðum með súkkulaðieggin svo ég hef lofað sjálfri mér að búa til mitt eigið á næsta ári.

Á páskadag borðum við alltaf veislumatinn í hádeginu og var engin undantekning þar á þetta árið. Foreldrar mínir elduðu fyrir okkur systurnar og tilheyrandi fjölskyldur hamborgarhrygg og léttreyktan lambahrygg ásamt alls kyns meðlæti og uppáhalds sósunni minni. Þau gera bestu sósur í heimi! Afi og föðurbróðir minn voru heiðursgestir páskaboðsins en páskaungarnir okkar í Svíþjóð sátu með okkur viðmatarborðið í gegn um Skype.

 
Við mæðgurnar vorum hæstánægðar með steikina og snarspenntar fyrir eftirréttinum.


Eftirrétturinn var ekki af verri endanum en systir mín töfraði fram dásamlegan sítrónuskyreftirrétt með kanilkexi og jarðarberjum. Frænkurnar litlu fengu svo sérstakan skyreftirrétt sem Helena útbjó án sykurs.


Í kaffitímanum bauð mamma upp á tvær ljúffengar kökur, himneska súkkulaðiköku með marssósu og perutertu. Ég viðurkenni að það var heldur erfitt að troða þeim niður eftir hádegismatinn en hvað lætur maður sig ekki hafa fyrir svona dásemd.


Himneska súkkulaðikakan er einhver sú besta franska súkkulaðikaka sem ég hef smakkað. Til að gera hana enn dásamlegri setti mamma á kökuna marssósu en ég skreytti  hana svo með súkkulaðifiðrildunum sem líta út fyrir að hafa verið gerð af 5 ára barni.


Perutertan er gömul og góð uppskrift sem amma, mamma og systur hennar hafa lengi notað. Hún samanstendur af súkkulaðisvampbotnum, bananakremi, perum og súkkulaðikremi.

Prinsessan var hæstánægð með daginn og þetta fína páskablóm sem amman lánaði henni.


Nú læt ég gott heita af súkkulaðiáti og tek hollu mataræði fagnandi, aldrei þessu vant. Í hádeginu í dag gerði ég ljúffengan sætkartöflupottrétt og bar hann fram með nýbökuðum speltbollum. Uppskriftin kemur á bloggið í vikunni svo fylgist vel með og verið spennt!

Bestu kveðjur


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur