Svíþjóðarsæla og ofurhollar hafrapönnukökur


Þá erum við fjölskyldan komin heim úr stuttri en dásamlegri Svíþjóðarferð. Við flugum til Kaupmannahafnar í hádeginu á föstudaginn og fórum með lest yfir til Svíþjóðar. Bróðir minn tók á móti okkur á lestarstöðinni í Malmö svo við tækjum örugglega rétta lest. Hann passar ennþá vel upp á litlu systur sína þessi elska. Þegar við gengum inn um dyrnar tók kærastan hans á móti okkur með svona líka ljómandi góðri mexíkóskri kjúklingasúpu og nýbökuðu naanbrauði, þvílík veisla! Súpan var svo góð að við borðuðum hana í þrjú mál. Sökum svengdar og græðgi náðust engar myndir af henni.

Mikið óskaplega var gaman og gott að hitta alla og að knúsa litlu fallegu frændsystkinin mín. Við vorum mikið heima í rólegheitum á kvöldin og fórum snemma að sofa, yndisleg og kærkomin afslöppun. Á laugardeginum fórum við í gönguferð og verslunarleiðangur í Malmö og á sunnudaginn gengum við svo um Lund. Sumir (ég) versluðu meira en aðrir á meðan aðrir (ég) borðuðu meira nammi en sumir. Þegar ég fer til útlanda er ég gjörn á að borða eins mikið og ég mögulega get af alls kyns gotteríi sem fæst ekki hér heima. Þær voru því ófáar kræsingarnar sem við létum ofan í okkur. Auk þess að missa vitið í stóru nammibúðinni í Lundi fórum við tvisvar á McDonald's og fengum okkur kransæðastíflu. Það er því óhætt að segja að ferðatöskurnar hafi ekki verið það eina sem kom heim í yfirvigt.

Ég keypti mér sem betur fer nóg af líkamsræktarfötum til að hrista hlaupið í og til að friða samviskuna ætla ég að deila með ykkur uppskrift að heilsusamlegum og ljúffengum hafrapönnukökum. Þessar pönnukökur eru tilvaldar fyrir þá sem eru í aðhaldi og vilja gera vel við sig án nokkurs samviskubits. Svo eru þær afar hentugar fyrir fólk eins og mig sem glímir við stöðuga brauðlöngun. 

Um helgina, þegar samviskan hefur jafnað sig, mun ég svo skella inn gómsætri kökuuppskrift. Verið spennt!


Hafrapönnukökur

6 eggjahvítur
2 dl haframjöl
2 dl hreint eplamauk
1 msk chiafræ
1 msk hörfræ
1/2 - 1 tsk kanill

Blandið saman í skál eggjahvítum, haframjöli, hreinu eplamauki, chiafræjum, hörfræjum og kanil.
Hitið pönnu að miðlungs hita og spreyið hana með smá PAM. Ausið deigi á pönnuna með matskeið eða lítill ausu og mótið litlar pönnukökur. Steikið á báðum hliðum þar til þær verða fallega brúnar og stinnar í miðjunni. Mikilvægt er að fylgjast vel með hitanum því pönnukökurnar brenna auðveldlega.
Þótt ég noti tefflonhúðaða pönnu spreyja ég hana alltaf með PAM því eggjahvíturnar festast eins og lím þegar þær byrja að eldast.

Hreina eplamaukið kaupi ég í litlum plastdósum í Krónunni, sex saman í pakka. Ég hef líka notað lífræna maukið frá Himneskt en þetta í dósunum er þynnra og sætara.

Mér þykir ofboðslega gott að eiga þessar pönnukökur í frysti og geta gripið í þær sem millimál eða nesti í skólann. Bestar eru þær þó nýbakaðar, smurðar með grískri jógúrt eða vanilluskyri.

Ofurhollt og dásamlega einfalt!


Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur