Hollusta á mánudegi


Prófalestur og málflutningsverkefni eiga hug minn allan þessa dagana en það er nauðsynlegt að taka smá hlé af og til og fá sér eitthvað næringarríkt að borða. Ekki veitir af í mínu tilfelli því ég borða nánast bara óhollt þegar ég er í prófum. Í dag ætla ég að deila með ykkur uppskrift að dásamlegum sætkartöflupottrétti. Rétturinn inniheldur ekkert kjöt en þeir kjötþyrstu geta einfaldlega bætt við hann nautakjöti eða forsteiktum kjúklingabitum. Keyrum hollustuna í gang!


Sætkartöflupottréttur

1 1/2 laukur
olía
1/2 - 1 tsk chiliduft
3 msk milt karrýmauk
3-4 msk tómatmauk
1 sæt kartafla
3 stórar gulrætur
1 lítið brokkolíhöfuð
1 dós kókosmjólk
1 dós nýrnabaunir
1 dós niðursoðnir tómatar
2-3 teningar grænmetiskraftur
svartur pipar
sjávarsalt

 Saxið lauk og svissið í stórum potti með smá olíu í nokkrar mínútur eða þar til hann hefur linast. Bætið við chilidufti, karrýmauki og tómatmauki. Afhýðið og skerið sæta kartöflu og gulrætur í smáa teninga ásamt brokkolíi og blandið vel saman við laukinn og kryddið. Skerið niðursoðna tómata í hæfilega stóra bita og bætið í pottinn ásamt kókosmjólk og nýrnabaunum sem þegar hafa verið sigtaðar. Smakkið pottréttinn til með grænmetiskrafti, svörtum pipar og sjávarsalti.
Hitið upp að suðu og látið krauma við vægan hita í 50 mínútur eða þar til sætu kartöflurnar og gulræturnar verða mjúkar.

Berið fram með nýbökuðum speltbollum.

 Verði ykkur að góðu kæru vinir og þeir sem eru í prófum eins og ég, you can do it!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur