þriðjudagur, 30. september 2014

Þriðji þáttur af ,,Matur&Vín'' - Fyllt kartöfluhýði og ostabrauðstangir


Síðasta fimmtudag var þriðji þáttur af ,,Matur og Vín'' sýndur á Króm.is. Að þessu sinni sýni ég áhorfendum hvernig á að búa til einfalda og slefandi girnilega rétti til að raða í sig yfir boltanum, í saumaklúbbnum, já eða bara heima í kósý með fjölskyldunni.
 
Uppskriftina að ostabrauðstöngum með piparostasósu hef ég áður sett hér á bloggið en nú ætla ég að deila með ykkur uppskrift að fylltu kartöfluhýði.


Fyllt kartöfluhýði 

4 litlar bökunarkartöflur
½ - 1 dl mjólk
3 msk smjör
1 dl sýrður rjómi
6 vorlaukar
8 sneiðar súrsað jalapeño 
3 dl rifinn cheddarostur 
sjávarsalt 
svartur pipar 
6 sneiðar beikon

Þvoið burt óhreinindi af kartöflum og þerrið. Ég nota hreinan uppþvottabursta til að skrúbba þær. 

Nuddið örlítilli olíu og sjávarsalti á kartöflurnar og bakið í ofni við 200° í 40-50 mínútur eða þar til þær hafa bakast í gegn. Kælið kartöflurnar þannig að hægt sé að meðhöndla þær og skerið í tvennt.

Skafið karftöflurnar innan úr hýðinu með skeið en athugið að skilja eftir um 2-3 mm þykkt lag svo hýðið rifni ekki. Leggið hýðið af kartöflunum fjórum til hliðar og setjið innihald þess í skál.

Stappið kartöflurnar með gaffli ásamt mjólk, smjöri, sýrðum rjóma, 2 dl af cheddarosti, salti og svörtum pipar. Byrjið á ½ dl af mjólk og bætið svo við eftir þörfum.

Saxið 4 vorlauka og súrsað jalapeño og blandið saman við kartöflustöppuna. Skerið beikon í strimla, steikið og leggið til hliðar.

Fyllið kartöfluhýðin með skeið og stráið beikoni og 1 dl af cheddarosti yfir.
Grillið í ofni við 200° í 5-10 mínútur eða þar til osturinn verður stökkur. 

Saxið 2 vorlauka, sáldrið yfir fylltu kartöfluhýðin og berið fram með sýrðum rjóma.   

Svo ein  hérna í lokin af minni alsælli með herlegheitin.Annars er það að frétta af mér að ég er að drukkna í verkefnavinnu í skólanum eins og endranær, við mæðgurnar búnar að svoleiðis steinliggja með vírus í viku og alls konar skemmtilegt.

Endilega fylgið mér á Instagram @tinnabjorg.com og setjið like við Facebooksíðuna svo þið getið séð mig poppa upp í tíma og ótíma á skjánum hjá ykkur.


Sjáumst!

Tinna Björg

www.krom.is

miðvikudagur, 24. september 2014

Ævintýri síðustu helgar, matreiðsluþáttur nr. 2 og lopapeysan mín


Helgin mín var svo frábær að ég verð að segja ykkur aðeins frá henni. Við Klara Sóllilja fórum nefnilega í sumarbústað fjölskyldunnar vestur í Dali með foreldrum mínum. Þriðja helgin í september er hápunktur haustsins hjá mér því þá eru leitir og réttir í sveitinni. Þessa helgi er ég þó undantekningarlaust að drukkna í verkefnavinnu í skólanum svo ég hef ekki komist síðustu ár. Ég var þó svo heppin að komast þetta haustið.

Á laugardagsmorgun var ræs klukkan 7, meiriháttar átakanleg lífsreynsla því rétt áður en klukkan hringdi dreymdi mig að ég væri að fara að setja upp í mig fyrsta bitann af girnilegustu marmaraostaköku sem ég hef séð. Svekkt og súr staulaðist ég fram úr og gerði mig klára fyrir ferð til fjalla. Jens frændi, bróðir ömmu minnar, var svo elskulegur að lána mér hestinn sinn hann Dyn. Þar sem mín hross eru akfeit og í engri þjálfun ákvað ég að vera ekkert að ferja þau vestur til að hlussast um fjöll og firnindi yfir eina helgi.

Við leitarfélagarnir lögðum af stað á fjall rétt fyrir níu ásamt fríðu föruneyti, frændfólki mínu úr sveitinni. Þegar upp á fjall var komið skiptum við liði og fínkembdum jörðina. Við Dynur gengum fram á fótbrotið lamb sem var örmagna eftir að hafa staulast á beygðum og bólgnum fæti. Aldís frænka hjálpaði mér að lyfta því upp á hestinn, ég skellti mér svo á bak og saman komum við ríðandi niður af fjallinu, ég og lambið.


Fyrsta stopp. Klukkan orðin 9 og hópurinn byrjaður að sjússa sig í gang fyrir langan dag, partur af programmet.


Við Aldís frænka vígalegar.

Um klukkan tvö komum við niður í dal þar sem fleira frændfólk var tilbúið í fyrirstöðu, bæði á hrossum og fótgangandi. Það var svo ótrúlega gaman að hitta alla ættingjana og eiga með þeim samverustund í sveitarsælunni. Krakkarnir skemmtu sér ekki síður vel, enda mikið fjör að fá að fara á hestbak og reka rollur.
Við létum okkur nokkur gossa út í á frændsystkinin á eftir strokulömbum og urðum vel blaut. Barnið innra með mér kom því heim vel nært.

Niðri í dal beið mín lítil blómarós með afa sínum og ömmu. Steinhissa á þessu öllu saman.


Féð hvílt fyrir langa göngu niður í rétt. Veðrið var ekki af verri endanum.


Hrossabakterían virðist hafa gengið í erfðir. Jess!

Þegar við höfðum rekið niður í rétt var haldið niður í bústað að borða kvöldmat með fjölskyldunni og litla daman mín svæfð, útkeyrð eftir viðburðaríkan dag.
Mamman gerði sig svo klára fyrir gleði kvöldsins, ball í Tjarnarlundi í Saurbæ. Á ballinu stigum við frændsystkinin trylltan dans þar til fæturnir kláruðust. Mikil ósköp sem þetta var skemmtilegt kvöld. Þreytan daginn eftir var líka eftir því. Ég nefnilega dreif ekki framúr rúminu til að draga í dilka um morguninn. Kannski á næsta ári..

Dásamleg helgi í alla staði með frábæru fólki í sveitarsælunni, verst hvað hún var fljót að líða.

En að öðru. Ég á það til að setja ýmsar hugmyndir ótengdar mat hér inn á síðuna undir flokkinn Húsráð & hugmyndir. Um daginn fékk senda fyrirspurn í tölvupósti um lopapeysuna mína sem ég sést klæðast á nokkrum myndum á blogginu. Í staðinn fyrir Pinterest vikunnar þennan miðvikudag ætla ég því að deila með ykkur upplýsingum um lopapeysuna góðu, ég veit það eru margar áhugasamar prjónakonur eins og ég þarna úti.Lopapeysan mín

Elskulegu lopapeysuna mína prjónaði hún móðir mín fyrir mig fyrir nokkrum árum. Hún stendur alltaf fyrir sínu og ég fer ekki án hennar í ferðalög.

Uppskriftina er að finna í uppskriftablaðinu Lopi 29 en peysan heitir Ranga og er þar nr. 8.

Við prjónaskapinn breytti mamma uppskriftinni örlítið. Bolurinn á peysunni minni er aðeins lengri en á þeirri sem sýnd er í blaðinu. Mín peysa er með fallegum silfruðum hnöppum með nokkurs konar víkingamynstri en uppskriftin í Lopa 29 gerir ráð fyrir rennilás. Þá er mín peysa allt öðruvísi á litinn en peysan í blaðinu.


Nýr þáttur af matreiðsluþáttaröðinni á Króm.is fór á veraldarvefinn síðasta fimmtudag. Í þessum þætti bý ég til uppáhalds kjúklingasalatið mitt. Það er svoleiðis löðrandi í ljúffengri sósu og hreint út sagt dásamlegt.
Ég hvet ykkur til að horfa á þáttinn og skella svo í eitt svona salat um helgina.Takk enn og aftur fyrir lesturinn á blogginu kæru vinir.
Fylgið mér endilega á Instagram @tinnabjorgcom.


Þangað til næst!


Tinna Björg

www.krom.is

miðvikudagur, 17. september 2014

Pinterest vikunnar

Þar sem ég er forfallinn Pinterest fíkill ætla ég að vera með ,,Pinterest vikunnar'' færslur á miðvikudögum í vetur. Ég skoða afar sjaldan einhver ákveðin matarblogg en ligg hins vegar slefandi yfir öllum uppskriftunum sem hægt er að finna á Pinterest.

Pinterest vikunnar að þessu sinni er tileinkað makrónubakstri. Makrónur þykja mér ofboðslega fallegar og henta við flest tækifæri, í brúðkaupsveisluna, skírnina, afmælið og ekki síst á smáréttahlaðborðið.
Það skemmtilega við makrónurnar er hversu auðvelt er að leika sér með þær, litadýrðin er endalaus og kremgerðin svo fjölbreytilegt.

Hér eru nokkrar vel valdar myndir af gullfallegum makrónum sem ég fann á Pinterest.

Bleikar og rauðar makrónur málaðar með gulldufti

Makrónur með grænu tei.
Makrónur með lavender

Makrónur með súkkulaðikremi

Hjartalaga rósrauðar makrónur

 Gullmakrónur

Þessar handmáluðu makrónur finnst mér æðislegar. Fallegar í brúðkaupsveislu.

Ferskjumakrónur

Makrónupinnar

Kampavínsmakrónur, núna langar mig í kampavín. Og makrónur.

Jólamakrónur með frostrósum.

Svartar kaffimakrónur.

Nú er um að gera að skella sér í makrónubaksturinn.

Uppskriftir að makrónunum getið þið fundið á töflunni ,,Sweets and desserts'' á Pinterest prófílnum mínum

Notandanafnið mitt á Pinterest er tinnabf.

Góða skemmtun!

þriðjudagur, 16. september 2014

Fiskibollurnar hennar mömmu


Í dag ætla ég að deila með ykkur einum af mínum  uppáhalds fiskréttum, fiskibollunum hennar mömmu. Svo ekta gamaldags og þær bestu í bænum.


Fiskibollurnar hennar mömmu
Fyrir 5-6 manns 

1500 g fersk ýsuflök
2 laukar
1 egg
7-10 msk hveiti
salt
svartur pipar
Season All
sítrónupipar
smjör

Hakkið ýsuflök og lauk í hakkavél og hrærið eggi og hveiti saman við. Saltið og piprið eftir smekk og bætið við smá Season All.

Bræðið væna smjörklípu á pönnu, mótið hæfilega stórar fiskibollur með matskeið og setjið jafnóðum á pönnuna.
Þegar bollurnar eru komnar á pönnuna, sáldrið sítrónupipar yfir þær og þrýstið þeim aðeins niður með skeiðinni. Þegar þær eru orðnar fallega brúnar á annarri hliðinni, snúið þeim við, kryddið með sítrónupipar og steikið áfram.
Steikið fiskibollurnar á svolítið háum hita svo þær verði stökkar og vel brúnar.
Það gæti þurft að bæta við smjöri á pönnuna af og til. Á mínu heimili fá bollurnar svoleiðis að synda í smjörinu, namm.

Þegar fiskibollurnar eru orðnar stökkar og dökkar, raðið þeim í eldfast mót og hitið í ofni við 180° í um 15 mínútur.

Það er auðvitað hægt að nota tilbúið ýsuhakk en ég held ég geti fullyrt að sá fiskur er ekki sá ferskasti. Ef tilbúið ýsuhakk er notað þá er gott að vinna laukinn í matvinnsluvél eða jafnvel saxa hann smátt.


Með fiskibollunum borðum við fjölskyldan heimalagaða kokteilsósu, svissaðan lauk, tómatbáta og gúrkubita. 

Þegar ég geri kokteilsósu hræri ég saman majonesi og tómatsósu og bæti síðan nokkrum dropum af sojasósu við. Sumir hafa sítrónusafa í staðinn fyrir sojasósu.


Dásamlegar gamaldags mömmufiskibollur.
Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

sunnudagur, 14. september 2014

Djúpsteikt hvönn og ferðasaga úr Aðalvík


Það gleður mig mikið að segja frá því að fyrsti vefþátturinn af ,,Matur & Vín'' á KrómTV er efstur á lista yfir vinsælasta efni dagsins á Króm. Þvílík hamingja!

En að öðru, ég ætla að halda áfram með ferðasöguna. Í byrjun ágúst skrifaði ég færslu um sumarfríið mitt en við mæðgurnar fórum í tveggja vikna ferðalag með fjölskyldunni á Vestfirði. Ferðalagið byrjaði í Grunnavík, um þá ferð getið þið lesið hér. Þann 26. júlí fórum við Klara Sóllilja ásamt foreldrum mínum, föðurafa, bróður mínum, konu hans og börnum siglandi frá Ísafirði til Aðalvíkur.

Að Látrum í Aðalvík ólst föðurafi minn upp en á Ystabæ hófu afi hans og amma búskap. Hann bjó svo þar með móður sinni og gekk þar í skóla.
Þegar faðir minn var barn sneri afi svo aftur að Látrum með fjölskylduna sína og starfaði þar fyrir bandaríska herinn á meðan starfrækt var ratsjárstöð á Straumnesfjalli eftir seinni heimsstyrjöldina. Þá var víkin farin í eyði og einu Íslendingarnir sem þar bjuggu voru menn sem störfuðu á vegum hersins og aðstandendur sumra þeirra.
Hamingjan leynir sér ekki þegar afi og pabbi koma aftur á æskuslóðirnar, sæluglottið svoleiðis límist á andlit þeirra.

Við fjölskyldan eigum hlut í sumarhúsi sem stendur á gamla bæjarstæðinu að Ystabæ.
Það er alltaf jafn dásamlegt að koma í þessa paradís en sumarhúsið er staðsett á besta stað á Látrum með útsýni yfir víkina. Náttúrufegurðin er engu lík.

Á siglingunni til Aðalvíkur sáum við háhyrninga synda hjá. Mér láðist að taka myndir af þeim því ég var of upptekin við að dauðskammast mín fyrir að hafa æpt yfir allan bátinn: ,,Sjáið þið höfrungana!''. Ekki hvalina eða háhyrningana, nei, höfrungana. Alveg hreint flottust.

Hér erum við mamma, Klara Sóllilja, Freyja Rún, Olga, Sindri Snær og Steinar bróðir á leiðinni út Skutulsfjörðinn.

Aðalvíkin dásamlega.

 Ystibær

Ungar í bakpokum á leið í gönguferð.
 
 Blágresi, uppáhalds blómið mitt, vex um allt á Látrum.

Fullkomin mynd, fyrir utan þetta hálfdettandi barn þarna.
Afi með ungana sína.


Við Klara Sóllilja fórum í gönguferð með mömmu og pabba meðfram fjörunni til Miðvíkur einn sólríkan dag.

Hvítur fjörusandurinn er svo fallegur. Hér erum við á leið yfir í Miðvík.

Byggðin á Látrum

 Miðvík

Árósinn í Miðvík, horft til Sæbóls.


Ungfrúnni þótti sandurinn misgeðslegur.

Aðalvík var lýst friðland árið 1975 en þar er ekki bara dásamlega náttúru að finna heldur líka stórbrotið dýralíf.

 Á kvöldin horfðum við á tófufjölskyldu, stegg og læðu með 5 yrðlinga, leika sér í hlíðinni og leita að æti.

Tófumyndirnar eru teknar út um skítugan glugga svo myndgæðin eru ekki fyrsta flokks.


Allir úti að leika

Þetta var útsýnið af pallinum eitt kvöldið, nokkrar hnísur á leið út víkina.


 Tveir útselir skutu upp kollunum á sama stað stutt frá fjörunni tvo daga í röð.

 Fjórar kynslóðir saman komnar. Afi situr á kolakassanum, svipaðan þeim sem var nokkurs konar skammarkrókur í skólanum í gamla daga. Þar eyddi hann víst ófáum stundum. Boys will be boys.

Hlaðið grill, þetta er alvöru.

,,Ísskápurinn'' er hrein snilld. Í aðalvík er ekkert rafmagn svo til að halda kælivörum köldum eru þær geymdar inni í kofa sem rennur lækur í gegn um. Þannig komast engin kvikindi í matinn og kælivörurnar annað hvort svamla um í læknum eða liggja ofan í kössum sem hafðir eru í vatninu.

Gamla bæjarstæðið þar sem Ystibær stóð.

Klara Sóllilja að ræða alvarleg málefni við langafa sinn.

Árið 2006 komu gamlir hermenn til landsins sem höfðu verið staðsettir í H-4, ratsjárstöðinni á Straumnesfjalli, eftir seinni heimsstyrjöldina en faðir minn kom þá í kring ferð til Aðalvíkur með mennina. Ég og pabbi gengum upp á fjallið með eitilhörðum körlunum en þeir sem treystu sér ekki til að ganga voru keyrðir upp á sexhjólum. Björgunarsveitin í Bolungarvík var svo yndisleg að ferja tvö sexhjól yfir til Aðalvíkur með bát og þegar við komum í land voru björgunarsveitarmenn þegar búnir að gera við veginn upp fjallið svo fólkið og hjólin kæmust leiðar sinnar.

Flestir hermannanna voru í Aðalvík á þeim tíma þegar pabbi var þar lítill drengur. Það voru því gleðilegir endurfundir þegar afi og pabbi hittu gömlu hermennina sem flestir voru einungis ungir piltar þegar þeir voru hér síðast.

Næstsíðasta daginn í Aðalvík gengum við pabbi upp á Straumnesfjall til að skoða ástandið á H-4 og híbýlum hermannanna. Húsin sem byggð voru úr einingum hafa grotnað niður og dapurlegt að sjá hvernig veðrið hefur leikið þau illa.

Pabbi á leiðinni upp veginn að Straumnesfjalli.

Hér gefur að líta high fashion göngugarp. Jebb.

Eina rjúpan á fjallinu.

Híbýli hermannanna eru orðin eins og draugabær.


Við komum auga á borgarísjaka.

Útsýnið á leiðinni niður af fjallinu var ekki af verri endanum.


Svo er ein hérna af okkur mæðgunum í bátnum á leiðinni til baka.

Ég gæti sýnt ykkur endalaust af myndum frá þessum dásamlega stað en ég læt þetta gott heita.

Mig langar hins vegar að sýna ykkur hvernig þið getið gert áhugavert og öðruvísi meðlæti með lambalærinu, djúpsteikta ætihvönn.
Þessa meiriháttar snilld kenndi hún Magga mér, kokkur sem ég vann með á Hóteli Eddu í Sælingsdal sumarið 2012. Ég lærði svo margt áhugavert af þeirri elsku.

 Við fjölskyldan holusteiktum lambalæri eitt kvöldið í Aðalvík og buðum systur afa og hennar manni í mat. Djúpsteikta hvönnin var borin á borð með lambinu og sló aldeilis í gegn.


Þegar ég tíni hvönn til að djúpsteikja reyni ég að velja nýjustu blöðin, þau eru ljósari og bragðminni. Eftir því sem hvönnin er eldri og dekkri þeim mun bragðsterkari eru blöðin og bragðið svolítið rammt.


Djúpsteikt ætihvönn

300-400 ml olía
blöð af hvönn
sjávarsalt
Hitið olíuna þannig að hún verði nógu heit til að loftbólur myndist á hvannarblöðunum við steikingu. Leggið blöðin varlega í olíuna og látið liggja í um 30 sekúndur. Sjóðandi heit olían spýtist upp úr pottinum í allar áttir svo farið varlega.

Passið að olían hitni ekki of mikið. Ef hvannarblöðin verða brún eins og þessi aftarlega á myndinni, þá er olían of heit.

Takið hvönnina upp úr pottinum og leggið á eldhúspappír svo olían leki af. Sáldrið sjávarsalti yfir og berið fram með lambakjötinu eða borðið eins og snakk.


Þetta verðið þið að prófa þetta næsta sumar þegar hvönnin er í blóma. Þetta öðruvísi snakk er algjört lostæti.

 Takk fyrir að fylgjast með kæru vinir.
Bestu kveðjur.

Tinna Björg