Þriðji þáttur af ,,Matur&Vín'' - Fyllt kartöfluhýði og ostabrauðstangir


Síðasta fimmtudag var þriðji þáttur af ,,Matur og Vín'' sýndur á Króm.is. Að þessu sinni sýni ég áhorfendum hvernig á að búa til einfalda og slefandi girnilega rétti til að raða í sig yfir boltanum, í saumaklúbbnum, já eða bara heima í kósý með fjölskyldunni.
 
Uppskriftina að ostabrauðstöngum með piparostasósu hef ég áður sett hér á bloggið en nú ætla ég að deila með ykkur uppskrift að fylltu kartöfluhýði.


Fyllt kartöfluhýði 

4 litlar bökunarkartöflur
½ - 1 dl mjólk
3 msk smjör
1 dl sýrður rjómi
6 vorlaukar
8 sneiðar súrsað jalapeño 
3 dl rifinn cheddarostur 
sjávarsalt 
svartur pipar 
6 sneiðar beikon

Þvoið burt óhreinindi af kartöflum og þerrið. Ég nota hreinan uppþvottabursta til að skrúbba þær. 

Nuddið örlítilli olíu og sjávarsalti á kartöflurnar og bakið í ofni við 200° í 40-50 mínútur eða þar til þær hafa bakast í gegn. Kælið kartöflurnar þannig að hægt sé að meðhöndla þær og skerið í tvennt.

Skafið karftöflurnar innan úr hýðinu með skeið en athugið að skilja eftir um 2-3 mm þykkt lag svo hýðið rifni ekki. Leggið hýðið af kartöflunum fjórum til hliðar og setjið innihald þess í skál.

Stappið kartöflurnar með gaffli ásamt mjólk, smjöri, sýrðum rjóma, 2 dl af cheddarosti, salti og svörtum pipar. Byrjið á ½ dl af mjólk og bætið svo við eftir þörfum.

Saxið 4 vorlauka og súrsað jalapeño og blandið saman við kartöflustöppuna. Skerið beikon í strimla, steikið og leggið til hliðar.

Fyllið kartöfluhýðin með skeið og stráið beikoni og 1 dl af cheddarosti yfir.
Grillið í ofni við 200° í 5-10 mínútur eða þar til osturinn verður stökkur. 

Saxið 2 vorlauka, sáldrið yfir fylltu kartöfluhýðin og berið fram með sýrðum rjóma.   

Svo ein  hérna í lokin af minni alsælli með herlegheitin.Annars er það að frétta af mér að ég er að drukkna í verkefnavinnu í skólanum eins og endranær, við mæðgurnar búnar að svoleiðis steinliggja með vírus í viku og alls konar skemmtilegt.

Endilega fylgið mér á Instagram @tinnabjorg.com og setjið like við Facebooksíðuna svo þið getið séð mig poppa upp í tíma og ótíma á skjánum hjá ykkur.


Sjáumst!

Tinna Björg

www.krom.is

Ummæli

Vinsælar færslur