Fiskibollurnar hennar mömmu


Í dag ætla ég að deila með ykkur einum af mínum  uppáhalds fiskréttum, fiskibollunum hennar mömmu. Svo ekta gamaldags og þær bestu í bænum.


Fiskibollurnar hennar mömmu
Fyrir 5-6 manns 

1500 g fersk ýsuflök
2 laukar
1 egg
7-10 msk hveiti
salt
svartur pipar
Season All
sítrónupipar
smjör

Hakkið ýsuflök og lauk í hakkavél og hrærið eggi og hveiti saman við. Saltið og piprið eftir smekk og bætið við smá Season All.

Bræðið væna smjörklípu á pönnu, mótið hæfilega stórar fiskibollur með matskeið og setjið jafnóðum á pönnuna.
Þegar bollurnar eru komnar á pönnuna, sáldrið sítrónupipar yfir þær og þrýstið þeim aðeins niður með skeiðinni. Þegar þær eru orðnar fallega brúnar á annarri hliðinni, snúið þeim við, kryddið með sítrónupipar og steikið áfram.
Steikið fiskibollurnar á svolítið háum hita svo þær verði stökkar og vel brúnar.
Það gæti þurft að bæta við smjöri á pönnuna af og til. Á mínu heimili fá bollurnar svoleiðis að synda í smjörinu, namm.

Þegar fiskibollurnar eru orðnar stökkar og dökkar, raðið þeim í eldfast mót og hitið í ofni við 180° í um 15 mínútur.

Það er auðvitað hægt að nota tilbúið ýsuhakk en ég held ég geti fullyrt að sá fiskur er ekki sá ferskasti. Ef tilbúið ýsuhakk er notað þá er gott að vinna laukinn í matvinnsluvél eða jafnvel saxa hann smátt.


Með fiskibollunum borðum við fjölskyldan heimalagaða kokteilsósu, svissaðan lauk, tómatbáta og gúrkubita. 

Þegar ég geri kokteilsósu hræri ég saman majonesi og tómatsósu og bæti síðan nokkrum dropum af sojasósu við. Sumir hafa sítrónusafa í staðinn fyrir sojasósu.


Dásamlegar gamaldags mömmufiskibollur.
Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur