miðvikudagur, 30. desember 2015

Ómissandi meðlæti með kalkúninum á gamlárs


Með áramótakalkúninum hans föður míns borðum við dásamlegan sætkartöflurétt sem tryllir bragðlaukana. Réttinn smakkaði ég fyrst í þakkargjörðarboði hjá amerískum samstarfsfélaga pabba í varnarliðinu. Þakkargjörðarmáltíðin var alveg ekta amerísk og ógleymanleg, risastór smjörsprautaður kalkúnn, sætkartöfluréttur ásamt öðru meðlæti og kirsuberjaostakaka í eftirrétt. Pabbi starfaði hjá varnarliðinu í næstum 25 ár og við fjölskyldan tókum upp alls kyns venjur sem vina- og samstarfsfólk föður míns kynnti okkur fyrir á þeim tíma. Þeirra á meðal er kalkúninn á gamlárskvöld sem við borðum með waldorfsalati og þessum ljúffenga sætkartöflurétti. Hann er einskonar eftirréttaraðalréttur ef svo má að orði komast; sætar kartöflur, púðursykur, kanill og sykurpúðar. Þetta er ekki meðlæti sem maður ber fram með öllum steikum en allt er nú leyfilegt um áramótin.

Ofnbökuð sætkartöflumús

4 sætar kartöflur
125 g smjör
½ - ¾ dl púðursykur
1 ½ tsk kanill
250 g sykurpúðar


Bakið sætar kartöflur með hýði í ofni við 180° í 1 ½ - 2 klst. Langar og mjóar kartöflur þurfa um 1 ½ klst. en stórar og kringlóttar tæplega 2 klst. Skafið sætar kartöflur innan úr hýðinu og maukið þær í matvinnsluvél eða stappið. Skerið smjör í litla bita og hrærið saman við heita kartöflustöppuna ásamt púðursykri og kanil. Smyrjið sætkartöflustöppunni í eldfast mót og raðið sykurpúðum yfir. Bakið í ofni við 210° á grillstillingu í 10-15 mínútur eða þar til sykurpúðarnir bólgna út og verða fallega ljósbrúnir.

Ég kýs að hafa sætkartöflumúsina fremur sæta en sumum þykir nóg að setja örlítið af sykri og leyfa sætkartöflunum að njóta sín. Ég hvet ykkur því til að smakka sætkartöflumúsina til með sykri og kanil.

Þessi ljúffengi og einfaldi sætkartöfluréttur finnst mér ómissandi með hátíðarkalkúninum, þið verðið sko ekki svikin.

Öll hráfeni í ofnbökuðu sætkartöflumúsina fást í Fjarðarkaupum.


Tinna Björg

Áramótaísterta


 Áramótaeftirrétturinn í ár er kjörinn fyrir marsípanunnendur en ég þekki einmitt nokkra svoleiðis. Ísterta með marsípanbrauðbotni, hvítu Toblerone og jarðarberjum, toppuð með litríkum makrónum. Jarðarberin týndust reyndar einhvers staðar í tertunni, en þið finnið þau þegar þið smakkið hana.


Anthon Berg Toblerone ísterta
 
4 eggjarauður 
4 egg 
180 g sykur 

2 tsk vanilludropar 
1000 ml þeyttur rjómi 

200 g hvítt Toblerone
250 g jarðarber
250 g Anthon Berg marsípanbrauð (10 stk)
makrónur til skrauts


 Þeytið eggjarauður, egg, sykur og vanilludropa þar til blandan verður ljós og létt. Blandið stífþeyttum rjóma varlega saman við. Saxið hvítt Toblerone nokkuð smátt og skerið jarðarber í bita eða sneiðar. Blandið Toblerone og jarðarberjum síðan varlega saman við ísblönduna. Klæðið botninn á smelluformi með plastfilmu eða bökunarpappír. Skerið marsípanbrauð í tiltölulega þunnar sneiðar, raðið þeim ofan í botninn á smelluforminu og þrýstið vel ofan í formið þannig að marsípanbrauðið verði eins og þunnur kökubotn. Setjið ísinn síðan ofan í formið og frystið ístertuna í að minnsta kosti 5 klst. Takið ístertuna úr frysti um 10 mínútum áður en hún verður borin á borð. Bleytið tusku eða viskastykki með volgu vatni og strjúkið hliðarnar á smelluforminu svo ísinn losni frá. Leysið formið og plastfilmuna frá ístertunni og færið hana yfir á fallegan tertudisk. Skreytið ístertuna ef til vill með makrónum eða ferskum  jarðarberjum.
Þessi ísterta er algjört sælgæti, ég mæli algjörlega með henni fyrir áramótaveisluna annað kvöld.
Öll hráefni í Anthon Berg Toblerone ístertuna fást í Fjarðarkaupum.Tinna Björg

Áramótasteikin er innbökuð í árÁ gamlársdag erum við fjölskyldan vön að borða kalkún með öllu tilheyrandi og höfum sjaldan brugðið út af þeirri hefð. En af því að ég er svo hrifin af nautakjöti fékk ég hann karl föður minn til að elda fyrir okkur nautalund um síðustu áramót. Tilbreytingin var kærkomin og maturinn klikkaði sko ekki. Undanfarin þrjú ár hefur ást mín á nautakjöti vaxið og dafnað eins og blóm í eggi og er um það bil í hámarki þessa dagana. Ég segi sjaldan nei við magann í mér svo að sjálfsögðu tók ég forskot á áramótasæluna og eldaði ótrúlega ljúffenga Wellington nautalund með villtri sósu, ofnbökuðu grænmeti, grilluðum kartöflum og salati . Nautalundin er innbökuð í smjördeigi umvafin sveppafyllingu og parmaskinku, þvílíkt lostæti.


Wellington nautalund
(Fyrir 4-5 manns)

1 nautalund (900-1100 g)
3 msk smjör
sjávarsalt
svartur pipar
1-2 msk Dijon sinnep

Saltið og piprið nautalund og snöggsteikið með smjöri á funheitri pönnu í um hálfa mínútu á hverri hlið þannig að kjötið lokist og brúnist fallega. Penslið nautalundina allan hringinn með Dijon sinnepi og leggið til hliðar á meðan duxelles fyllingin er útbúin.

Duxelles

300 g kastaníusveppir
4 skalottlaukar
1 hvítlauksrif
150 g pecanhnetur
handfylli ferskt timjan
sjávarsalt
svartur pipar

Hakkið kastaníusveppi, skalottlauka, hvítlauk, pecanhnetur og ferskt timjan gróflega í matvinnsluvél. Smakkið til með sjávarsalti og pipar. Athugið að fara sparlega með saltið því parmaskinkan, sem vafið er utan um fyllinguna, er afar sölt.
Steikið sveppafyllinguna á pönnu í um 10 mínútur eða þar til vökvinn í hráefnunum hefur gufað upp að mestu og fyllingin verður tiltölulega þurr. Kælið fyllinguna í stutta stund.


6-8 sneiðar parmaskinka
svartur pipar

Leggið plastfilmu á borð og raðið parmaskinkusneiðum ofan á þannig að skinkan verði eins og ein stór skinkusneið, nógu stór til að vefja utan um nautalundina. Piprið parmaskinkuna og smyrjið síðan duxelle fyllingunni jafnt yfir. Leggið nautalundina ofan á miðja parmaskinkuna og notið plastfilmuna til að rúlla parmaskinkunni þétt utan um kjötið. Lokið plastfilmunni í báða enda og kælið nautalundina í ísskáp í um 25 mínútur.

Það er betra að eiga meira af parmaskinku heldur en minna því skinkusneiðarnar eru afar þunnar og rifna auðveldlega. Ég slapp með tvö bréf af parmaskinku en hefði viljað geta skipt út þeim sem rifnuðu svo auðveldara væri að rúlla skinkunni utan um kjötið.


4-5 plötur tilbúið smjördeig
1 egg til penslunar

Fletjið út smjördeig ofan á plastfilmu. Takið kjötrúlluna úr ísskápnum og fjarlægið utan af henni plastfilmuna. Leggið nautalundina síðan ofan á smjördeigið og rúllið deiginu þétt utan um kjötrúlluna. Lokið plastfilmunni í báða enda, mótið kjötrúlluna svolítið með höndunum og kælið aftur í um 30 mínútur. Takið rúlluna síðan út úr ísskápnum, fjarlægið utan af henni plastfilmuna og setjið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Skerið rendur í smjördeigið eða skreytið með útskornu smjördeigi. Penslið kjötrúlluna vel og vandlega með hrærðu eggi svo hún brúnist fallega í ofninum. Bakið nautalundina við 180° í 20-30 mínútur eða þar til hún hefur náð hæfilegum kjarnhita. Ég kýs að hafa nautakjötið mitt svolítið vel eldað og tók lundina út þegar hún hafði náð 66° hita. En eins og þið sjáið á myndinni er kjötið ennþá rautt þótt það sé eldað í gegn. Takið innbökuðu nautalundina úr ofninum og látið standa í um 10  mínútur áður en hún er skorin.

Tilbúið smjördeig er hægt að kaupa frosið. Gott er að byrja allra fyrst á að leggja frosnu deigplöturnar á bökunarpappír og leyfa þeim að þiðna á meðan nautalundin er undirbúin.Ég kem úr mikilli sósufjölskyldu og mér þykir sósan vera algjört lykilatriði þegar verið er að elda góða steik. Með nautalundinni hafði ég dásamlega villibráðarsósu sem er í miklu uppáhaldi hjá mér og passar fullkomlega með Wellington nautalundinni.


Villibráðarsósa

1 laukur
1 msk smjör
svartur pipar
2 tsk Dijon sinnep
1/2 dl viskí
3 dl vatn
2 dl rjómi
1 1/2 - 2 msk villibráðarkraftur
1/2 - 1 tsk rifsberjahlaup
sósujafnari

Fínsaxið lauk og steikið í potti með smjöri og svörtum pipar þar til hann hefur mýkst og brúnast fallega. Bætið við dijon sinnepi og viskí og sjóðið niður við vægan hita í um 4 mínútur. Hellið vatni og rjóma í pottinn og bætið við villibráðarkrafti ásamt rifsberjahlaupi. Hitið að suðu og látið sósuna krauma í um 10 mínútur. Bætið við sósujafnara eftir smekk og látið sósuna krauma áfram í 10 mínútur. Magnið af villibráðarkrafti og rifsberjahlaupi fer eftir smekk hvers og eins svo ég mæli með því að smakka sósuna til. Sumir vilja eflaust hafa sósuna örlítið saltari en mér þykir villibráðarkrafturinn yfirleitt salta sósuna nægilega vel.Ofnbakað grænmeti

400 g smáar gulrætur
400 g steinseljurót (nípur)
300 g skalottlaukur
ferskt rósmarín
sjávarsalt
svartur pipar
2-3 msk olía

Skolið öll óhreinindi af gulrótum og steinseljurót með vatni og þerrið vel. Skerið steinseljurót í ræmur þannig að þær verði nokkurn veginn jafn þykkar og gulræturnar. Af því að ég notaði smágerðar og mjóar gulrætur þá hafði ég þær heilar en ef gulræturnar eru þykkar þá þarf að skera þær í ræmur eins og steinseljurótina. Veltið gulrótum og steinseljurót upp úr olíu ásamt rósmaríni, sjávarsalti og svörtum pipar. Raðið grænmetinu á bökunarpappírsklædda ofnplötu og bakið við 200° í 10 mínútur. Afhýðið skalottlauk og setjið á ofnplötuna með hinu grænmetinu. Bakið áfram í 20-25 mínútur þar til grænmetið hefur brúnast fallega. Ástæðan fyrir því að ég set skalottlaukinn inn síðar er sú að hann þarf styttri eldunartíma. Til að minnka fyrirhöfnina má setja laukinn strax inn í ofn með gulrótum og steinseljurót en þá verður hann linari og lausari í sér.


Fyrir nokkrum vikum fór ég út að borða á veitingastað í Reykjavík og pantaði nautalund sem borin var fram með kartöflusmælki. Kartöflurnar höfðu verið forsoðnar með hýði, kramdar þannig að þær opnuðust og síðan djúpsteiktar. Þær voru alveg sérstaklega gómsætar svona stökkar að utan og mjúkar að innan. Ég prófaði að gera mína eigin útgáfu af kartöflunum góðu og útkoman var alls ekki síðri.


Grillaðar kartöflur

800-1000 g smáar íslenskar kartöflur
sjávarsalt
olía

Sjóðið kartöflur í vatni þar til þær verða næstum soðnar í gegn. Ég sýð kartöflurnar þar til ég næ að stinga gaffli inn í miðju á einni meðalstórri prufukartöflu en þó þannig að hún sé ennþá svolítið stinn. Hellið vatni af kartöflunum og setjið þær í eldfast mót. Kremjið kartöflurnar með gaffli þannig að þær springi að ofanverðu. Stráið síðan salti yfir kartöflurnar og dreypið dágóðum slatta af olíu yfir þær og ofan í sprungurnar. Því meira magn af olíu, þeim mun stökkari verða kartöflurnar. Grillið kartöflurnar í ofni við 200° í 10-15 mínútur eða þar til þær verða stökkar að utan og hafa brúnast fallega.


Mér finnst ferskt og litríkt salat ómissandi með nautakjöti. Í salatinu hafði ég salatblöndu, agúrku, appelsínugula papriku, piccolotómata og granateplafræ. Til hliðar hafði ég síðan fetaost fyrir þá sem vildu en oftast blanda ég fetaostinum saman við salatið ásamt ristuðum furuhnetum eða einhverri góðri fræblöndu. Svo er líka alveg dásamlegt að hafa smátt skorið mangó eða jarðarber til að lífga upp á salatið.


Þessi dýrindis Wellington nautalund er fullkominn veislumatur á gamlárskvöld og ég hvet ykkur til að prófa. Hún er alls ekki eins flókin í gerð og hún virðist vera en til að hafa vaðið fyrir neðan sig er gott að fylgja þessu myndbandi þar sem Gordon Ramsey sýnir hvernig hin fullkomna Wellington nautalund er búin til. Mér finnst reyndar ekkert sérlega girnilegt að mauka sveppafyllinguna svona mikið eins og hann gerir en það er smekksatriði.


Öll hráefni í elskulegu Wellington nautalundina fást í Fjarðarkaupum.Ég vona að þið hafið það gott um áramótin kæru vinir og njótið með ykkar nánustu.


Tinna Björg

mánudagur, 21. desember 2015

Eftirrétturinn á aðfangadag


Möndlugrauturinn á aðfangadag er rótgróin hefð hjá mörgum íslenskum fjölskyldum og sumum þykir hann ómissandi hluti af jólunum. Svo er auðvitað misjafnt hvort grauturinn sé hafður í forrétt eða eftirrétt. Á mínu heimili borðum við aldrei forrétt, ætli það sé ekki vegna þess hve matgrönn við erum öllsömul. Þriggja rétta máltíð er einfaldlega of mikið af hinu góða þótt við séum öll miklir matarunnendur. Þótt ég hafi ekki verið alin upp við að fá möndlugraut á aðfangadag þykir mér þetta svolítið skemmtileg hefð. Ris a la mande grautur er þó ekki alveg nógu sparilegur eftirréttur til að njóta á aðfangadag að mínu mati. En það er auðvitað bara mín sérviska. En ris a la mande kaka með marsípanbotni og heimagerðri kirsuberjasósu, það er allt annar handleggur. Þessi uppskrift setur gamla góða möndlugrautinn í aldeilis hátíðlegan búning. Hægt er að velja um kirsuberjasósu og kirsuberjahlaup.


Ris a la mande kaka

Marsípanbotn

2 eggjahvítur
1 egg
100 g sykur
30 g hveiti
50 g hýðislausar möndlur
50 g marsípan (24% möndumassi)

Þeytið eggjahvítur, egg og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Sigtið hveiti saman við eggjablönduna. Fínmalið möndlur í blandara og myljið út í með fingrunum. Ástæðan fyrir því að ég myl möndlumjölið út í deigið er sú að það er erfitt að sigta það nema í mjög grófu sigti. Blandið hveitinu og möndlumjölinu síðan vel saman við eggjablönduna með sleikju. Sníðið bökunarpappírsörk í botninn á smelluformi og smyrjið formið vel og vandlega. Hellið deiginu í formið og rífið marsípan jafnt yfir það með grófa hluta rifjárnsins. Bakið marsípanbotninn við 170° í 10-13 mínútur eða þar til hann verður fallega gullinbrúnn. Kælið botninn síðan og vefjið honum að lokum inn í plastfilmu svo hann haldist mjúkur. Til að spara handtökin á aðfangadag er gott að baka marsípanbotninn nokkrum dögum áður og frysta.


Ris a la mande fylling

1000 g tilbúinn grjónagrautur
300 ml þeyttur rjómi
70 g sykur
1/4 tsk vanilluduft (malaðar vanillustangir)
1 tsk vanilludropar
5-6 matarlímsblöð
1 1/2 msk heitt vatn

Blandið saman í skál tilbúnum grjónagraut, þeyttum rjóma, sykri, vanilludufti og vanilludropum. Leggið matarlím í bleyti í nokkrar mínútur þar til þau mýkjast. Kreistið vatnið af matarlíminu og hrærið saman við sjóðandi heitt vatn. Kælið matarlímið niður að stofuhita, hellið út í möndlugrautinn í mjórri bunu og hrærið stanslaust á meðan. Athugið að mikilvægt er að möndlugrauturinn sé við stofuhita þegar matarlíminu er hrært saman við. Sé hann of kaldur hleypur matarlímið í kekki. Sníðið bökunarpappírsörk í botninn á smelluformi og hellið möndlugrautnum í formið. Kælið ris a la mande fyllinguna í að minnsta kosti 5-6 klukkustundir. Gott er að gera hana kvöldið áður eða jafnvel snemma að aðfangadagsmorgni.


Kirsuberjahlaup & kirsuberjasósa

750 g frosin kirsuber
250 g sykur
safi úr 1/2 - 1 sítrónu
1/2 - 3/4 msk Maizena mjöl
5 matarlímsblöð (má sleppa)

Hitið 500 g af frosnum kirsuberjum í örbylgjuofni þar til þau hafa þiðnað en geymið 250 g af kirsuberjum áfram í frysti þar til síðar. Athugið að ekki er nauðsynlegt að stilla örbylgjuofninn á afþíðingu því kirsuberin eiga að hitna. Setjið kirsuberin í pott ásamt safanum sem rennur frá þeim við afþíðingu, Sjóðið kirsuberin niður með sykri og sítrónusafa í um 10 mínútur. Magnið af sítrónusafa fer eftir smekk hvers og eins, sumir kjósa að hafa kirsuberjasósuna sæta á meðan aðrir vilja hana heldur súra. Sigtið kirsuberin og kremjið þau vel í sigtinu til að ná sem mestu af kirsuberjasýrópinu. Hellið sýrópinu aftur í pottinn, hitið það og hrærið Maizena mjöli vel saman við með pískara. Hér fer magnið af Maizena mjöli eftir því hversu þykk kirsuberjasósan á að vera. Ef ætlunin er að gera kirsuberjahlaup þá má sleppa Maizena mjölinu alveg eða setja minna af því. Bætið síðan 250 g af frosnum kirsuberjum og látið sósuna krauma við vægan hita þar til hún verður hæfilega þykk og frostið er farið úr berjunum. Athugið að sjóða berin ekki of lengi því þau eiga að haldast heil og falleg. Kirsuberjasósan er síðan kæld niður að stofuhita og þá er hún tilbúin til að fara á kökuna.

Ef ætlunin er hins vegar að gera kirsuberjahlaup þá er kirsuberjasósan ekki kæld strax. Leggið matarlímsblöð í bleyti þar til þau mýkjast, kreistið síðan af þeim vatnið og hrærið blöðunum saman við heita kirsuberjasósuna. Kælið síðan niður við stofuhita og setjið ris a la mande kökuna saman á meðan. Fylgist þó vel með hlaupinu því þegar það byrjar að stífna þá gerist það nokkuð snögglega.

Takið ris a la mande fyllinguna úr kæli og leysið hliðarnar varlega frá forminu með beittum hníf. Einnig er gott að strjúka yfir hliðarnar á smelluforminu með klút eða tusku sem bleytt hefur verið með heitu vatni. Leggið marsípanbotninn síðan ofan á ris a la mande fyllinguna í smelluforminu og leysið formið frá. Leggið kökudisk á hvolfi yfir marsípanbotninn. Snúið disknum svo við með marsípanbotninum og fyllingunni. Fjarlægið botninn úr smelluforminu og bökunarpappírsörkina ofan af ris a la mande fyllingunni.

Hellið kirsuberjasósu yfir ris a la mande kökuna eða kirsuberjahlaupi við stofuhita og látið það storkna. Við viljum að hlaupið stífni ofan á kökunni án þess að renna niður hliðarnar. Gott er að setja stífa plastrenninga eða sellófan upp með hliðum kökunnar svo hlaupið leki ekki á meðan það stífnar eða einfaldlega að þrífa smelluformið og smella því utan um kökuna rétt á meðan hlaupið er sett á.

Öll hráefni í ris a la mande kökuna fást í Fjarðarkaupum.


Ég hvet ykkur til að prófa þennan dásamlega ris a la mande eftirrétt í hátíðarbúningi kæru vinir.


Tinna Björg

sunnudagur, 20. desember 2015

Innlit í Litlu Garðbúðina og Jólagjafaleikur - Taktu þátt!


Þá er komið að seinni gjafaleiknum fyrir jólin. Að þessu sinni ætla ég að gefa dásamlegar vörur frá ofurkrúttlegu versluninni sem ég held svo mikið upp á, Litlu Garðbúðinni. Stuttu eftir að ég byrjaði með matarbloggsíðuna uppgötvaði ég þessa dásamlegu en vel földu garðvöru- og búsáhaldaverslun. Þar er að finna ógrynni af fallegum vörum í bæði sveitarómantískum og rustic stíl. Það sem ég elska mest við Litlu Garðbúðina er hvað þessar fallegu vörur eru á góðu verði og því tilvaldar sem gjafavara fyrir ýmis tækifæri. Verðlagning á vörum sem mörg fyrirtæki markaðssetja sem ,,gjafavöru'' finnst mér nefnilega vera upp úr öllu valdi.
Verslunin, sem staðsett er á Höfðabakka 3 í Reykjavík, er í eigu yndislegra hjóna sem taka hlýlega á móti viðskiptavinum með bros á vör.

Ó allt þetta bleika. Pullan niðri í vinstra horninu verður dóttur minnar einn daginn, passar fullkomlega inn í leikherbergið hennar.

 Mér finnst svo fallegt að blanda fallegu bleiku, bláu og rauðu litunum saman við þessa látlausari og mildari liti.


 Rauða línan er æðisleg á brúnu viðarborði. Fallegar glerflöskur fyrir vatn og aðra drykki.


 Súkkulaði- og karamelluviðbit og sinnep.

Irish Cream og lakkríssýróp. 

Glerkrukkur og kaffikrúsir eru nauðsynlegar á hvert heimili. 

Konfekt og sælgæti, sultur, marmelaði, alls kyns sinnep og annars konar viðbit, límonaði, saft og ótrúlega falleg viðarskurðbretti.

Servíettur og alls kyns krydd, m.a. lakkrískrydd, ásamt ýmsum gerðum af salti, ostasalt, jurtasalt ofl.


Jólavörurnar eru dásamlegar. 

Vandaðir og fallegir penslar í eldhúsið.

Hvítlaukssalt ofl. 

 Lemon curd, marmelaði og chutney.

Allt fyrir jólakósý, möndlu- og rúsínusnakk, jólaglögg og lakkríssýróp. 

Límonaði með granateplum og beikum greipávexti. Gríðarlegt úrval af blóma- og matjurtafræjum ásamt ýmsum garðyrkjuvörum. Ég er einmitt alltaf á leiðinni að fá mér litla plöntustöð til að rækta kryddjurtir af því að ég virðist vera með brúna fingur frekar en græna.Þessir mjúku jólasveinar eru dásamlegir. Það situr einn svona í glugganum í leikherbergi dóttur minnar. 


Ilmkerti, klukkur og alls  kyns skraut. 


Ég er svo svag fyrir hreindýrum.. Piparkökuhús sem endist og endist. 

Púðar, löberar og dúkar. 


Mér þykir hreindýrahornin sérstaklega falleg en þau fást í mismunandi stærðum og litum. 

Þegar ég eignast stærra eldhús..einn daginn...Fallegri garðyrkjuhanskar og -áhöld er hvergi að finna. Þvílíkar gersemar sem fást í þessari búð og á sanngjörnu verði í þokkabót. Ef ég væri ekki námsmaður þá fengi kortið mitt að heimsækja posann í Litlu Garðbúðinni nokkrum sinnum í viku. Ég hvet ykkur til að kíkja við í þessari dásamlegu verslun og gera góð kaup fyrir jólin.

Af því að það er svo stutt í jólin langar mig að gefa einum heppnum lesanda jólagjöf með öllum þessum fallegu vörum frá Litlu Garðbúðinni.

Bleikt Saga of Sweden greiplímonaði

Hand made stimpill frá Madam Stoltz til að stimpla baksturinn. Ég er reyndar ekki viss hvort ég sé tilbúin til að láta hann frá mér!

Saga of Sweden rabarbarasælgæti.

Fallegur ísbjörn til að hengja á jólatréð eða setja í jólaskreytinguna.

Gullfallegt hreindýrahorn til að hengja á jólatréð eða hafa í skreytingu.

Vandað og fallegt viðarskurðbretti frá Madam Stoltz. 


Það sem þú þarft að gera til að taka þátt í jólagjafaleiknum er þetta:
  1. Líka við Facebooksíðu bloggsins hér.
  2. Deila myndinni af gjafaleiknum á Facebook hér.
  3. Kvitta að því loknu við þessa bloggfærslu hér að neðan.

Á Þorláksmessu mun ég síðan draga út þann heppna vinningshafa sem hlýtur þessa veglegu jólagjöf. Fylgist með á Facebooksíðu tinnabjorg.com og á Instagram en þar mun ég tilkynna um vinningshafann.Tinna Björg