Áramótaísterta


 Áramótaeftirrétturinn í ár er kjörinn fyrir marsípanunnendur en ég þekki einmitt nokkra svoleiðis. Ísterta með marsípanbrauðbotni, hvítu Toblerone og jarðarberjum, toppuð með litríkum makrónum. Jarðarberin týndust reyndar einhvers staðar í tertunni, en þið finnið þau þegar þið smakkið hana.


Anthon Berg Toblerone ísterta
 
4 eggjarauður 
4 egg 
180 g sykur 

2 tsk vanilludropar 
1000 ml þeyttur rjómi 

200 g hvítt Toblerone
250 g jarðarber
250 g Anthon Berg marsípanbrauð (10 stk)
makrónur til skrauts


 Þeytið eggjarauður, egg, sykur og vanilludropa þar til blandan verður ljós og létt. Blandið stífþeyttum rjóma varlega saman við. Saxið hvítt Toblerone nokkuð smátt og skerið jarðarber í bita eða sneiðar. Blandið Toblerone og jarðarberjum síðan varlega saman við ísblönduna. Klæðið botninn á smelluformi með plastfilmu eða bökunarpappír. Skerið marsípanbrauð í tiltölulega þunnar sneiðar, raðið þeim ofan í botninn á smelluforminu og þrýstið vel ofan í formið þannig að marsípanbrauðið verði eins og þunnur kökubotn. Setjið ísinn síðan ofan í formið og frystið ístertuna í að minnsta kosti 5 klst. Takið ístertuna úr frysti um 10 mínútum áður en hún verður borin á borð. Bleytið tusku eða viskastykki með volgu vatni og strjúkið hliðarnar á smelluforminu svo ísinn losni frá. Leysið formið og plastfilmuna frá ístertunni og færið hana yfir á fallegan tertudisk. Skreytið ístertuna ef til vill með makrónum eða ferskum  jarðarberjum.




Þessi ísterta er algjört sælgæti, ég mæli algjörlega með henni fyrir áramótaveisluna annað kvöld.
Öll hráefni í Anthon Berg Toblerone ístertuna fást í Fjarðarkaupum.



Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur