Eftirrétturinn á aðfangadag


Möndlugrauturinn á aðfangadag er rótgróin hefð hjá mörgum íslenskum fjölskyldum og sumum þykir hann ómissandi hluti af jólunum. Svo er auðvitað misjafnt hvort grauturinn sé hafður í forrétt eða eftirrétt. Á mínu heimili borðum við aldrei forrétt, ætli það sé ekki vegna þess hve matgrönn við erum öllsömul. Þriggja rétta máltíð er einfaldlega of mikið af hinu góða þótt við séum öll miklir matarunnendur. Þótt ég hafi ekki verið alin upp við að fá möndlugraut á aðfangadag þykir mér þetta svolítið skemmtileg hefð. Ris a la mande grautur er þó ekki alveg nógu sparilegur eftirréttur til að njóta á aðfangadag að mínu mati. En það er auðvitað bara mín sérviska. En ris a la mande kaka með marsípanbotni og heimagerðri kirsuberjasósu, það er allt annar handleggur. Þessi uppskrift setur gamla góða möndlugrautinn í aldeilis hátíðlegan búning. Hægt er að velja um kirsuberjasósu og kirsuberjahlaup.


Ris a la mande kaka

Marsípanbotn

2 eggjahvítur
1 egg
100 g sykur
30 g hveiti
50 g hýðislausar möndlur
50 g marsípan (24% möndumassi)

Þeytið eggjahvítur, egg og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Sigtið hveiti saman við eggjablönduna. Fínmalið möndlur í blandara og myljið út í með fingrunum. Ástæðan fyrir því að ég myl möndlumjölið út í deigið er sú að það er erfitt að sigta það nema í mjög grófu sigti. Blandið hveitinu og möndlumjölinu síðan vel saman við eggjablönduna með sleikju. Sníðið bökunarpappírsörk í botninn á smelluformi og smyrjið formið vel og vandlega. Hellið deiginu í formið og rífið marsípan jafnt yfir það með grófa hluta rifjárnsins. Bakið marsípanbotninn við 170° í 10-13 mínútur eða þar til hann verður fallega gullinbrúnn. Kælið botninn síðan og vefjið honum að lokum inn í plastfilmu svo hann haldist mjúkur. Til að spara handtökin á aðfangadag er gott að baka marsípanbotninn nokkrum dögum áður og frysta.


Ris a la mande fylling

1000 g tilbúinn grjónagrautur
300 ml þeyttur rjómi
70 g sykur
1/4 tsk vanilluduft (malaðar vanillustangir)
1 tsk vanilludropar
5-6 matarlímsblöð
1 1/2 msk heitt vatn

Blandið saman í skál tilbúnum grjónagraut, þeyttum rjóma, sykri, vanilludufti og vanilludropum. Leggið matarlím í bleyti í nokkrar mínútur þar til þau mýkjast. Kreistið vatnið af matarlíminu og hrærið saman við sjóðandi heitt vatn. Kælið matarlímið niður að stofuhita, hellið út í möndlugrautinn í mjórri bunu og hrærið stanslaust á meðan. Athugið að mikilvægt er að möndlugrauturinn sé við stofuhita þegar matarlíminu er hrært saman við. Sé hann of kaldur hleypur matarlímið í kekki. Sníðið bökunarpappírsörk í botninn á smelluformi og hellið möndlugrautnum í formið. Kælið ris a la mande fyllinguna í að minnsta kosti 5-6 klukkustundir. Gott er að gera hana kvöldið áður eða jafnvel snemma að aðfangadagsmorgni.


Kirsuberjahlaup & kirsuberjasósa

750 g frosin kirsuber
250 g sykur
safi úr 1/2 - 1 sítrónu
1/2 - 3/4 msk Maizena mjöl
5 matarlímsblöð (má sleppa)

Hitið 500 g af frosnum kirsuberjum í örbylgjuofni þar til þau hafa þiðnað en geymið 250 g af kirsuberjum áfram í frysti þar til síðar. Athugið að ekki er nauðsynlegt að stilla örbylgjuofninn á afþíðingu því kirsuberin eiga að hitna. Setjið kirsuberin í pott ásamt safanum sem rennur frá þeim við afþíðingu, Sjóðið kirsuberin niður með sykri og sítrónusafa í um 10 mínútur. Magnið af sítrónusafa fer eftir smekk hvers og eins, sumir kjósa að hafa kirsuberjasósuna sæta á meðan aðrir vilja hana heldur súra. Sigtið kirsuberin og kremjið þau vel í sigtinu til að ná sem mestu af kirsuberjasýrópinu. Hellið sýrópinu aftur í pottinn, hitið það og hrærið Maizena mjöli vel saman við með pískara. Hér fer magnið af Maizena mjöli eftir því hversu þykk kirsuberjasósan á að vera. Ef ætlunin er að gera kirsuberjahlaup þá má sleppa Maizena mjölinu alveg eða setja minna af því. Bætið síðan 250 g af frosnum kirsuberjum og látið sósuna krauma við vægan hita þar til hún verður hæfilega þykk og frostið er farið úr berjunum. Athugið að sjóða berin ekki of lengi því þau eiga að haldast heil og falleg. Kirsuberjasósan er síðan kæld niður að stofuhita og þá er hún tilbúin til að fara á kökuna.

Ef ætlunin er hins vegar að gera kirsuberjahlaup þá er kirsuberjasósan ekki kæld strax. Leggið matarlímsblöð í bleyti þar til þau mýkjast, kreistið síðan af þeim vatnið og hrærið blöðunum saman við heita kirsuberjasósuna. Kælið síðan niður við stofuhita og setjið ris a la mande kökuna saman á meðan. Fylgist þó vel með hlaupinu því þegar það byrjar að stífna þá gerist það nokkuð snögglega.

Takið ris a la mande fyllinguna úr kæli og leysið hliðarnar varlega frá forminu með beittum hníf. Einnig er gott að strjúka yfir hliðarnar á smelluforminu með klút eða tusku sem bleytt hefur verið með heitu vatni. Leggið marsípanbotninn síðan ofan á ris a la mande fyllinguna í smelluforminu og leysið formið frá. Leggið kökudisk á hvolfi yfir marsípanbotninn. Snúið disknum svo við með marsípanbotninum og fyllingunni. Fjarlægið botninn úr smelluforminu og bökunarpappírsörkina ofan af ris a la mande fyllingunni.

Hellið kirsuberjasósu yfir ris a la mande kökuna eða kirsuberjahlaupi við stofuhita og látið það storkna. Við viljum að hlaupið stífni ofan á kökunni án þess að renna niður hliðarnar. Gott er að setja stífa plastrenninga eða sellófan upp með hliðum kökunnar svo hlaupið leki ekki á meðan það stífnar eða einfaldlega að þrífa smelluformið og smella því utan um kökuna rétt á meðan hlaupið er sett á.

Öll hráefni í ris a la mande kökuna fást í Fjarðarkaupum.


Ég hvet ykkur til að prófa þennan dásamlega ris a la mande eftirrétt í hátíðarbúningi kæru vinir.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur