Aðventukaka fyrir súkkulaðisælkera


Þennan þriðja sunnudag í aðventu býð ég ykkur upp á örlítið gómsætari útgáfu af hinni klassísku súkkulaðiköku með smjörkremi. Þótt súkkulaðikökur séu oftast góðar og geti varla klikkað þá geta þær lengi á sig blómum bætt. Ég lét það reyndar vera að bæta á þessa blómum en hún fékk sykurpúðakrem í staðinn. Ekki fá áfall þegar þið sjáið sykurmagnið sem kakan inniheldur, það er seinni tíma vandamál sem áramótaheitum og janúarmánuði er ætlað að takast á við. Svo má líka minnka þetta mikla magn af smjörkremi til að gera kökuna örlítið kaloríuléttari. Já eða bara að gera eins og ég geri oftast, sleppa því að pæla í þessu öllu saman og leyfa sér að troða í sig og njóta!

Afsakið myndgæðin, súkkulaðikakan var mynduð á snjallsíma í miklu flýti korteri fyrir kaffiboð.


Súkkulaðikaka með sykurpúðakremi

Súkkulaðibotnar

280 g hveiti
450 g sykur
80 g kakó
1 1/2 tsk matarsódi
3/4 tsk salt
2 egg
350 ml AB mjólk
60 g mjúkt smjör
2 tsk vanilludropar
235 ml heitt kaffi

Blandið saman í skál hveiti, sykri, kakó, matarsóda og salti. Hrærið saman í aðra skál eggjum, AB mjólk, smjöri og vanilludropum. Sigtið þurrefnin ofan í skálina með blautefnum og hrærið þar til allt hefur blandast vel saman. Hrærið að lokum heitu kaffi saman við deigið. Eðlilegt er að áferðin á deiginu verði eins og smjörið skilji sig þegar þurrefnum og blautefnum er blandað saman en þegar heitu kaffinu er hrært saman við verður deigið silkimjúkt.

Sníðið bökunarpappír ofan í tvö smelluform og smyrjið þau vel og vandlega. Skiptið kökudeiginu jafnt á milli forma og bakið súkkulaðibotnana við 175° í 25-30 mínútur eða þar til prjónn eða tannstöngull, sem stungið er í miðjan kökubotn, kemur upp hreinn. Kælið súkkulaðibotnana eða frystið jafnvel yfir nótt svo þeir verði rakari og mýkri.


Sykurpúðasmjörkrem

550 g mjúkt smjörlíki
450 g flórsykur
3-4 msk kakó
1 msk vanilludropar
200 g sykurpúðakrem

Þeytið smjörlíki, flórsykur, kakó og vanilludropa þar til allt hefur blandast vel saman og úr verður mjúkt smjörkrem. Bætið þá við sykurpúðakremi og blandið vel saman.

Setjið annan súkkulaðibotninn á fallegan kökudisk og smyrjið hæfilega þykku lagi af sykurpúðasmjörkremi yfir. Leggið hinn súkkulaðibotninn ofan á og smyrjið alla súkkulaðikökuna með kremi. Til að koma í veg fyrir að kökumylsna blandist saman við  kremið er gott að hylja kökuna fyrst með þunnu kremlagi, þrífa kremspaðann og smyrja svo afganginum af kreminu jafnt yfir kökuna.

Ástæðan fyrir því að ég nota smjörlíki í kremið frekar en smjör er sú að sykurpúðakremið vill leka svolítið þegar loftið hefur verið þeytt úr því. Smjörlíki er stífara en smjör við stofuhita og kremið verður þess vegna þykkra og kakan heldur sér betur fyrir vikið.

Stundum getur verið erfitt að finna tilbúið sykurpúðakrem í verslunum, þá er gott að geta búið til sitt eigið. Þegar ég geri sykurpúðakrem notast ég við eftirfarandi uppskrift en athugið að aðeins þarf um hálfa uppskrift af þessu sykurpúðakremi í smjörkremið.


Sykurpúðakrem

2 eggjahvítur
340 g Golden sýróp
1/4 tsk salt
110 g flórsykur
1/2 msk vanilludropar

Þeytið eggjahvítur, sýróp og salt saman í a.m.k. 5 mínútur. Blandið flórsykri síðan saman við á hægari stillingu ásamt vanilludropum.


Njótið aðventunnar kæru vinir.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur