laugardagur, 29. nóvember 2014

Hollari smákökur


Nú er stutt í að jólamánuðurinn hefjist og þá er nú alveg leyfilegt að hefja smákökubaksturinn. Af því að það er ennþá svo langt í jólin ákvað ég að byrja á smákökum í hollari kantinum. Þær eru bæði sykur- og hveitilausar og henta vel fyrir þá sem vilja hollari kost í bland við sykruðu sortirnar. Ekki viljum við nú vera komin með jólabumbu fyrir jólin.


Sykur- 0g hveitilausar smákökur

2 dl Sukrin
150 g mjúkt smjör
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk kanill
2 dl möndlumjöl
5 dl tröllahafrar
2 egg
2 tsk vanilludropar
1/2 dl kókosflögur
40 g trönuber
40 g rúsínur

Hrærið Sukrin og smjöri vel saman. Bætið við matarsóda, salti, kanil, möndlumjöli, tröllahöfrum, eggjum og vanilludropum og hrærið öllu vel saman. Myljið kókosflögur með fingrunum og blandið saman við deigið ásamt trönuberjum og rúsínum.

Mótið litlar smákökur með matskeið og raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið við 190° í 10-12 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en þær eru teknar af plötunni, þær molna auðveldlega á meðan þær eru heitar.

Þessar hollu og ljómandi góðu smákökur er tilvalið að maula yfir fyrsta aðventuljósinu á morgun. Ég hvet ykkur til að prófa þær.


Góða helgi kæru vinir!Tinna Björg
 

mánudagur, 24. nóvember 2014

Þakkargjörðarhátíð


Á fimmtudaginn halda Bandaríkjamenn sína árlegu þakkargjörðarhátíð. Af því að ég og fjölskyldan mín erum svolítið amerísk í hjarta þegar kemur að ást okkar á mat þá höfum við stundum þakkargjörðarkvöldverð um það leyti sem hátíðin er haldin. Þetta er auðvitað bara afsökun hjá okkur til að fá okkur kalkún í nóvember, ekkert dýpra en það.

Síðasta laugardag eldaði ég kalkúnabringur í fyrsta skipti og bjó til mína eigin útgáfu af fyllingu. Þvílíkt lostæti!
Sveskjurnar og eplin í fyllingunni gefa henni svolítið sætan keim og punktinn yfir i-ið setur svo smurosturinn með camembert.


Fylltar kalkúnabringur
(2 bringur fyrir 8-9 manns) 

Sveskju-og pecanhnetufylling
8 sneiðar beikon
150 g smjör
1 askja sveppir
1 ½ grænt epli
1 ½ laukur
3 stilkar sellerí
150 g pecanhnetur
½ búnt steinselja 
125 g sveskjur
2 tsk kalkúnakrydd frá Prima
2 tsk kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
4 tsk þurrkuð salvía
250 ml rjómi
4 msk smurostur með camembert
2 teningar kjúklingakraftur
10 brauðsneiðar
svartur pipar


Skerið beikon í bita og steikið í djúpum potti. Á meðan beikonið kurlast, skerið sveppi, grænt epli, lauk, sellerí og pecanhnetur í litla bita. Setjið smjör í pottinn með beikoninu ásamt sveppum, grænu epli, lauk, sellerí og pecanhnetum og steikið á miðlungs hita í 5 mínútur.
Saxið steinselju, skerið sveskjur í bita og bætið í pottinn. Kryddið með kalkúnakryddi og salvíu.
Setjið rjóma og smurost með camembert í pottinn og myljið kjúklingateningana út í. Hitið að suðu og látið krauma við vægan hita á meðan brauðsneiðar eru skornar í litla teninga. Hrærið síðan brauðteningum saman við fyllinguna og piprið eftir smekk.Kalkúnabringur

2 kalkúnabringur (um 1 kg hvor)
sveskju- og pecanhnetufylling
sjávarsalt
hvítur pipar
smjörklípa 


Kljúfið kalkúnabringur á hlið frá hægri til vinstri. Ekki skera þær alveg í tvennt heldur þannig að hægt sé að opna hvora fyrir sig eins og bók og leggja þær flatar út.
Smyrjið fyllingu yfir opnar bringurnar en hafið annan endann á hvorri bringu auðan svo fyllingin þrýstist ekki út þegar þeim er lokað. Athugið að öll fyllingin kemst ekki inn í bringurnar.


Rúllið bringunum upp og bindið saman með sláturbandi eða garni. Saltið og piprið kalkúnabringur og steikið á báðum hliðum með smjörklípu á háum hita í um eina mínútu. Setjið þær að lokum í ofnskúffu og eldið í ofni við 170° í 45-55 mínútur.

Með kalkúnabringunum höfðum við soðnar kartöflur kryddaðar með smá dilli, ofnbakaðan sætkartöflurétt og kalkúnasósu úr pakka sem pabbi bragðbætti.

Afganginn af kalkúnafyllingunni bakaði ég í ofni í nokkrar mínútur og bar fram með herlegheitunum.


Þvílíka veislan! Ég hvet ykkur til að gera ykkur glaðan þakkargjörðarfimmtudag með þessu ljúfmeti þótt við Íslendingar höldum ekki þessa amerísku hefð. Já eða bara í staðinn fyrir helgarsteikina.

Öll hráefni í fylltu kalkúnabringurnar fást í Fjarðarkaupum.


Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

föstudagur, 21. nóvember 2014

Helgarveislan í 6. þætti af Matur & Vín


Ég var ekki ennþá búin að sýna ykkur sjötta þáttinn af Matur&Vín sem birtur var á Króm fyrir nokkrum vikum.
Í þessum þætti geri ég humarpasta sem kemur verulega á óvart. Ég er almennt ekkert sérlega mikil pastamanneskja en ég á mér þó einn og einn uppáhalds pastarétt. Þessi er þar efstur á lista. Hvítlauksrjómasósan er alveg unaðsleg, svo létt og bragðgóð. Svo ég tali nú ekki um humarinn sem klikkar auðvitað aldrei. Öllum humarréttum verður svo auðvitað að fylgja heimagert hvítlauksbrauð. 
Humarpasta með hvítlauksbrauði

Humarpasta

450 g humarhalar
1/4 bolli olía
3 fínsaxaðir hvítlauksgeirar
börkur af 1 sítrónu
1 tsk sjávarsalt
1 tsk svartur pipar
450 g pasta (fettuccine eða tagliatelle)
1 bolli hvítvín
safi úr 1 sítrónu
1 msk smjör
1/2 bolli rjómi
1/4 bolli parmesanostur
1/4 bolli steinselja

Blandið saman í skál olíu, hvítlauk, sítrónuberki, sjávarsalti og svörtum pipar. Klippið humarskeljar og opnið þær. Hreinsið humarinn og marinerið í olíublöndunni í 30 mínútur. Raðið humarhölunum í eldfast mót eða á ofnplötu þannig að kjötið snúi upp.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum með sjávarsalti og smá olíu. Þegar pastað er tilbúið, hellið vatninu af.

Steikið afganginn af marineringunni á pönnu. Gætið að því að ekkert skelbrot af humrinum leynist í marineringunni. Hellið hvítvíni á pönnuna og látið krauma í um 5 mínútur þannig að vínið minnki um helming. Bætið smjöri, rjóma, sítrónusafa og parmesanosti við sósuna. Setjið pasta og saxaða steinselju á pönnuna og veltið  upp úr sósunni. Að lokum er sjávarsalti og svörtum pipar sáldrað yfir pastað og hrært aðeins saman við.
Ástæðan fyrir því að ég set sjávarsaltið og svarta piparinn síðast er sú að mér finnst svo ofboðslega gott að bíta í eina og eina stökka saltflögu og sterkt piparkorn með hverjum bita.
Það gerir pastað svolítið ferskara.

Hitið ofninn í 200° á grillstillingu og grillið humarhalana í 3-6 mínútur.

Í blálokin er pastanum skammtað jafnt á diska og humarhalarnir lagðir fallega ofan á.

Með humri ber ég alltaf fram einfalt heimagert hvítlauksbrauð. Það er svo miklu betra en þetta sem maður kaupir frosið, þið verðið sko ekki svikin.


Hvítlauksbrauð

1 snittubrauð
150 g mjúkt smjör
2-4 hvítlauksrif
handfylli söxuð steinselja

Saxið hvítlauksrif og hrærið saman við smjör ásamt steinselju. Skerið snittubrauð í þunnar sneiðar og smyrjið með hvítlaukssmjöri. Ristið hvítlauksbrauðið á grind í ofni við 200° í nokkrar mínútur eða þar til það verður fallega brúnt og stökk að utan en ennþá mjúkt að innan.

Ef smjörið er kalt og hart þá er gott að rífa það með rifjárni, þannig er það fljótara að mýkjast og auðvelt að hræra hvítlaunkum og steinseljunni saman við.
Ég set smjörið líka stundum á afþíðingu í örbylgjuofni í nokkrar sekúndur til að mýkja það.

Þessa ofurrómantísku diska undir humarpastað fékk ég í Litlu Garðbúðinni en fatnaðurinn er frá Lolita.is.
Allar matvörur í uppskriftina fást í Fjarðarkaupum. 


Innilegar þakkir fyrir að fylgjast með mér kæru vinir!
Þeir sem vilja fylgjast enn betur með geta fylgt mér á Instagram @tinnabjorgcom.

Góða helgi!


Tinna Björg

www.krom.is

þriðjudagur, 18. nóvember 2014

Góður kvöldmatur á virkum degi


Þau eru ófá skiptin sem maður er galtómur þegar kemur að hugmyndum að kvöldverði á virkum dögum. Ég er mikið fyrir lasagna en sú uppskrift sem ég nota oftast er svolítið tímafrek og hentar ekkert of vel eftir langan dag í skólanum eða vinnunni. Fyrir nokkrum dögum prófaði ég að gera öðruvísi og mun fljótlegra lasagna sem er tilvalið að elda fyrir fjölskylduna á virkum degi.


Lasagna með kotasælusósu

1/2 bufflaukur
1/2 púrrulaukur
4 hvítlauksrif
olía
800-900 g  nautahakk (2 pk)
2 dósir niðursoðnir tómatar í teningum
1 1/2 dós tómatpúrra (Hunt's)
200 ml vatn
3-4 teningar nautakjötkraftur
3-4 msk oregano
svartur pipar
1 askja sveppir
700 g kotasæla
350 ml matreiðslurjómi
múskat
1 pakki lasagnablöð
350 g rifinn ostur

Saxið bufflauk, púrrulauk og hvítlauk og steikið í stórum potti með smá olíu þar til laukurinn mýkist. Bætið við nautahakki og steikið þar til það hefur eldast í gegn. Hrærið niðursoðnum tómötum og tómatpúrru saman við og hitið að suðu. Hellið vatni í pottinn og bætið við nautakjötkrafti. Smakkið til með oregano og svörtum pipar. Hitið kjötsósuna aftur að suðu og látið svo krauma við vægan hita í 10 mínútur. Skerið sveppi í bita og bætið við sósuna.

Hitið kotasælu og matreiðslurjóma í potti þar til kekkirnir bráðna og kryddið með örlitlu múskati.

Hellið smá kotasælusósu í eldfast mót þannig að hún hylji botninn. Þekið sósuna með lasagnablöðum og smyrjið kjötsósu yfir. Hellið kotasælusósulagi yfir og leggið annað lag af lasagnablöðum ofan á. Setjið því næst annað lag af kjötsósu ofan á blöðin og hellið kotasælusósu yfir. Að lokum fer þriðja lagið af lasagnablöðum ofan á og þunnt lag af kotasælusósu látið hylja þau. Sáldrið svo rifnum osti yfir réttinn og eldið í ofni við 200° í 50-60 mínútur. Gott er að hafa álpappírsörk yfir forminu fyrstu 15-20 mínúturnar svo osturinn brenni ekki áður en lasagnað er tilbúið.

Einfalt og ó svo ljúffengt!

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í Fjarðarkaupum. Tinna Björg