Góður kvöldmatur á virkum degi


Þau eru ófá skiptin sem maður er galtómur þegar kemur að hugmyndum að kvöldverði á virkum dögum. Ég er mikið fyrir lasagna en sú uppskrift sem ég nota oftast er svolítið tímafrek og hentar ekkert of vel eftir langan dag í skólanum eða vinnunni. Fyrir nokkrum dögum prófaði ég að gera öðruvísi og mun fljótlegra lasagna sem er tilvalið að elda fyrir fjölskylduna á virkum degi.


Lasagna með kotasælusósu

1/2 bufflaukur
1/2 púrrulaukur
4 hvítlauksrif
olía
800-900 g  nautahakk (2 pk)
2 dósir niðursoðnir tómatar í teningum
1 1/2 dós tómatpúrra (Hunt's)
200 ml vatn
3-4 teningar nautakjötkraftur
3-4 msk oregano
svartur pipar
1 askja sveppir
700 g kotasæla
350 ml matreiðslurjómi
múskat
1 pakki lasagnablöð
350 g rifinn ostur

Saxið bufflauk, púrrulauk og hvítlauk og steikið í stórum potti með smá olíu þar til laukurinn mýkist. Bætið við nautahakki og steikið þar til það hefur eldast í gegn. Hrærið niðursoðnum tómötum og tómatpúrru saman við og hitið að suðu. Hellið vatni í pottinn og bætið við nautakjötkrafti. Smakkið til með oregano og svörtum pipar. Hitið kjötsósuna aftur að suðu og látið svo krauma við vægan hita í 10 mínútur. Skerið sveppi í bita og bætið við sósuna.

Hitið kotasælu og matreiðslurjóma í potti þar til kekkirnir bráðna og kryddið með örlitlu múskati.

Hellið smá kotasælusósu í eldfast mót þannig að hún hylji botninn. Þekið sósuna með lasagnablöðum og smyrjið kjötsósu yfir. Hellið kotasælusósulagi yfir og leggið annað lag af lasagnablöðum ofan á. Setjið því næst annað lag af kjötsósu ofan á blöðin og hellið kotasælusósu yfir. Að lokum fer þriðja lagið af lasagnablöðum ofan á og þunnt lag af kotasælusósu látið hylja þau. Sáldrið svo rifnum osti yfir réttinn og eldið í ofni við 200° í 50-60 mínútur. Gott er að hafa álpappírsörk yfir forminu fyrstu 15-20 mínúturnar svo osturinn brenni ekki áður en lasagnað er tilbúið.

Einfalt og ó svo ljúffengt!

Öll hráefni í þessa uppskrift fást í Fjarðarkaupum.



 Tinna Björg

 

Ummæli

Vinsælar færslur