Hollari smákökur


Nú er stutt í að jólamánuðurinn hefjist og þá er nú alveg leyfilegt að hefja smákökubaksturinn. Af því að það er ennþá svo langt í jólin ákvað ég að byrja á smákökum í hollari kantinum. Þær eru bæði sykur- og hveitilausar og henta vel fyrir þá sem vilja hollari kost í bland við sykruðu sortirnar. Ekki viljum við nú vera komin með jólabumbu fyrir jólin.


Sykur- 0g hveitilausar smákökur

2 dl Sukrin
150 g mjúkt smjör
1 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
1 tsk kanill
2 dl möndlumjöl
5 dl tröllahafrar
2 egg
2 tsk vanilludropar
1/2 dl kókosflögur
40 g trönuber
40 g rúsínur

Hrærið Sukrin og smjöri vel saman. Bætið við matarsóda, salti, kanil, möndlumjöli, tröllahöfrum, eggjum og vanilludropum og hrærið öllu vel saman. Myljið kókosflögur með fingrunum og blandið saman við deigið ásamt trönuberjum og rúsínum.

Mótið litlar smákökur með matskeið og raðið á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Bakið við 190° í 10-12 mínútur. Kælið kökurnar alveg áður en þær eru teknar af plötunni, þær molna auðveldlega á meðan þær eru heitar.

Þessar hollu og ljómandi góðu smákökur er tilvalið að maula yfir fyrsta aðventuljósinu á morgun. Ég hvet ykkur til að prófa þær.


Góða helgi kæru vinir!



Tinna Björg
 

Ummæli

Vinsælar færslur