Dekur helgarinnar


Ég ætla að deila með ykkur uppáhaldshumarsúpunni minni áður en ég skelli mér í sumarbústað með vinkonunum. Hún er svo ótrúlega góð að ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa henni. Og alveg þess virði að standa svolítið yfir pottunum. Upprunalega uppskriftin er frá Jóa Fel en hún hefur þó tekið á sig aðra mynd hjá mér í gegn um árin.


Humarsúpa
Fyrir 6-8 manns

1 1/2 kg humar (skelbrot)
3-4 msk smjör
cayenne pipar
1 1/2 laukur
2 gulrætur
2 stilkar sellerí
3 hvítlauksrif
3 lárviðarlauf
10 heil svört piparkorn
2,3  l vatn
4-6 teningar kjúklingakraftur
2 msk humarsúpugrunnur
2 msk tómatpúrra
2 1/2 dl hvítvín
3 stilkar steinselja
4 dl rjómi
4 msk smjör
6-8 msk hveiti

Skelhreinsið humar og setjið til hliðar.
Steikið humarskeljar upp úr smjöri í djúpum potti, brúnið þær vel og merjið. Kryddið skeljarnar með cayennepipar eftir smekk. Athugið að cayennepiparinn er það sem gerir súpuna sterka svo farið varlega með staukinn ef þið viljið hafa hana milda.
Saxið lauk, gulrætur og sellerí og steikið með humarskeljum. Merjið hvítlauk, setjið í pottinn ásamt svörtum piparkornum og steikið í 5 mínútur í viðbót.
Hellið vatni í pottinn og bætið við kjúklingakrafti, humarsúpugrunni, lárviðarlaufum og hvítvíni.
Hitið soðið að suðu og látið krauma við vægan hita í að minnsta kosti 3 klst. Því lengur sem soðið fær að malla, þeim mun sterkara og betra verður það. Einnig er gott að gera soðið deginum áður og láta það standa í kæli yfir nótt.
Þegar soðið hefur fengið að krauma í 2 klst. er saxaðri steinselju bætt við.

Sigtið soðið og kremjið vel allan vökva úr humarskeljunum.
Hitið soðið að suðu og hellið rjóma saman við. Hitið aftur að suðu og látið krauma í um 3 mínútur.

Súpan er svo þykkt með smjörbollu. Bræðið smjör í potti, takið pottinn af hellunni og hrærið hveiti saman við með pískara þannig að inni í pískaranum hnoðist hveitið saman í kúlu. Hrærið í súpunni með pískaranum þar til hún verður hæfilega þykk.

Takið súpupottinn af hellunni og setjið humarhalana ofan í 2-3 mínútum áður en hún er borin fram.


Öll hráefnin í þessa dásamlegu humarsúpu fást í Fjarðarkaupum.



 Eigið góða helgi öllsömul.

Tinna Björg 

Ummæli

Vinsælar færslur