Lasagna með sveppum og ostasósu


Ég skellti mér á konukvöld Blómavals með góðri vinkonu sem ég hitti alltof sjaldan.
 Við gátum að sjálfsögðu keypt okkur alls kyns fallega hluti en einnig voru kynningar á hinum ýmsu vörum og svo tók hann Helgi minn Björnsson nokkur lög.

Við systurnar og foreldrar mínir eigum öll okkar sérrétti og eldum þá reglulega fyrir hvort annað. Lasagna hefur alltaf verið í ofboðslegu uppáhaldi hjá mér og er einn af mínum sérréttum.

Þessa uppskrift hef ég notað og betrumbætt síðan ég var 16 ára og ég leyfi mér fúslega að fullyrða að þetta er allra besta kjötlasagna sem ég hef smakkað.

Uppskriftin var birt með viðtalinu við mig í Vikunni í október.


Lasagna
Fyrir 4-6 


Kjötsósa
 
2 ½ laukur

5 hvítlauksrif
ólífuolía
400 g nautahakk

1 askja sveppir
3-4 teningar nautakraftur
1 1/2 - 2 dl heitt vatn
415 g Hunt‘s pastasósa með hvítlauk og kryddjurtum (ein glerkrukka)
4-5 msk tómatpúrra
1 dós niðursoðnir tómatar
4 tsk oregano

6 tsk Italiano krydd
1 ½ tsk svartur pipar
handfylli fersk basilíka

Saxið lauk og hvítlauk og steikið vel í stórum potti með smá olíu.

Bætið við nautahakki og brúnið.
Skerið sveppi í hæfilega stóra bita og setjið saman við hakkið.

Leysið upp kjötkraft í heitu vatni og hellið í pottinn ásamt pastasósu.

Skerið niðursoðna tómata í bita og hrærið saman við kjötsósuna.

Því næst er tómatpúrru bætt í pottinn og sósan smökkuð til með oregano, Italian seasoning, svörtum pipar og ferskri basilíku.

Bæta má meiri kjötkrafti við til að ná fram ríkara kjötbragði en athugið að teningarnir innihalda oft mikið salt svo setjið lítið af kjötkrafti í einu.

Látið krauma við vægan hita í 40 mínútur.


Ostasósa

2 msk smjör
¾ dl hveiti
500 - 600 ml nýmjólk
200 g gratínostur
Bræðið smjör í potti, takið af hellunni og hrærið hveiti saman við.

Setjið pottinn aftur á helluna, lækkið hitann og hrærið nýmjólk smátt og smátt saman við.
Hræra þarf stöðugt í sósunni því hún brennur auðveldlega við.


Þegar sósan hefur þykknað, hrærið gratínosti saman við.
 

Ostasósan er tilbúin þegar hún er orðin kekkjalaus og allur osturinn hefur bráðnað.


½ pakki lasagnablöð
200 g gratínostur 


Hellið þunnu lagi af ostasósu í botninn á eldföstu móti og leggið eitt lag af lasagnablöðum ofan á.

Athugið að lasagnablöðin eru ekki látin liggja í bleyti áður en þau eru elduð.

Dreifið kjötsósu yfir lasagnablöðin og hellið ostasósu yfir.

Leggið lasagnablöð ofan á ostasósuna, hellið kjötsósu yfir og aftur ostasósu.

Leggið þriðja lagið af lasagnablöðum ofan á og hellið ostasósu yfir.

Að lokum er gratínosti sáldrað yfir ostasósuna.

Bakið í ofni við 200° í 45-50 mínútur.

Leggið álpappírsörk yfir mótið fyrstu 20 mínúturnar svo osturinn brenni ekki áður en lasagnað er tilbúið.

Berið fram með parmesanosti, hvítlauksbrauði, salati.

Mér þykir ofboðslega gott að borða lasagnað með hrásalati og ég mæli með því að þið prófið það.


Hvítlauksbrauð

1 snittubrauð
150 g mjúkt smjör
2-4 hvítlauksrif
handfylli söxuð steinselja

Saxið hvítlauksrif og hrærið saman við smjör ásamt steinselju.

Skerið snittubrauð í þunnar sneiðar og smyrjið með hvítlaukssmjörinu.

Ristið hvítlauksbrauðið á grind í ofni við 200° í nokkrar mínútur eða þar til það verður stökkt að utan en ennþá mjúkt að innan.


Þetta er svo ótrúlega ótrúlega ótrúlega gott!

Þið sem hafið ekki prófað að hafa sveppi í lasagna verðið að prófa það.

Það er líka sniðug leið til að koma grænmeti ofan í börnin.


Eigið yndislega helgi kæru vinir, mín verður það svo sannarlega.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur