Helgarsteikin sem allir verða að prófa


Foreldrar mínir hafa reglulega helgarsteik þar sem öll fjölskyldan kemur saman og á notalega kvöldstund.
Við fórum saman stórfjölskyldan í sumarbústað síðustu helgi og auðvitað splæstu foreldrar mínir í guðdómlega laugardagssteik fyrir okkur.

Faðir minn sá um eldamennskuna en það var hún systir mín sem kom okkur upp á lagið með hægeldaðan svínabóg sem er í svo miklu uppáhaldi hjá okkur öllum.

Þótt pabbi hafi verið aðalkokkurinn síðasta laugardag þá vorum við sérþarfasysturnar aðeins með fingurna í pottunum hjá honum. Við viljum hafa allan mat mikið kryddaðan og þegar ég átti leið inn í eldhús kryddaði ég steikina og grænmetið aukalega, þegar systir mín átti leið í eldhúsið gerði hún slíkt hið sama.

 Steikin er elduð í 6 klukkustundir við vægan hita og verður því alveg ofboðslega mjúk og ljúffeng.



Hægeldaður svínabógur
fyrir 4-5 manns
1 svínabógur
sjávarsalt
svartur pipar
Season All
2-3 dl vatn

Skerið rifur í skinnið á svínabóginum næstum niður að kjöti og nuddið miklu sjávarsalti vel inn í rifurnar. Kryddið kjötið á öllum hliðum með Season All og svörtum pipar. Setjið svínabóginn í djúpa ofnskúffu og eldið í 40 mínútur við 220° eða þar til skinnið hefur breyst í stökka puru.

Lækkið hitann niður í 150°, leggið álpappírsörk yfir kjötið og setjið það aftur inn í ofn.
Eldið kjötið áfram í 4 klukkustundir og 50 mínútur og undirbúið grænmetið á meðan.

Hellið vatni í ofnskúffuna eftir um 4 klst. og látið krauma með kjötinu í 50 mínútur.
 
Til að fá örugglega stökka puru er gott að byrja á að setja bóginn á hvolf í fat með 2 cm djúpu vatni og elda í ofni við 170° í 30 mínútur. Þessar 30 mínútur dragast þá frá þeim tíma sem bógurinn er eldaður við 150°. Þetta er þó ekki nauðsynlegt skref.


Ofnbakað grænmeti
300 g skalottlaukur
300 g gulrætur
400 g kartöflur
1-2 laukar
1 askja litlir sveppir
svartur pipar
Season All
timjan
basilíka
oregano
2 lárviðarlauf

Afhýðið skalottlauk, lauk og gulrætur. Þvoið kartöflur og sveppi. Skerið kartöflur, smáar í tvennt og stærri í fernt þannig að bitarnir séu allir svipað stórir. Skerið lauk í fernt og gulrætur eftir endilöngu og í bita á stærð við kartöflurnar. Mikilvægt er að grænmetisbitarnir séu svipaðir að stærð svo þeir bakist jafnt í ofninum. Athugið að skalottlaukur og sveppir eru hafðir heilir.

Þegar svínabógurinn hefur eldast í samtals 5 1/2 klukkustund er hann tekinn út úr ofninum og færður á fat. Hellið mestum hluta soðsins úr ofnskúffunni í skál en skiljið eftir 3-4 msk.

Blandið skalottlauk, gulrótum, kartöflum, lauk og lárviðarlaufum saman í ofnskúffuna og veltið upp úr afganginum af kjötsoðinu. Kryddið með svörtum pipar, Season All, timjan, basilíku og oregano.

Hækkið hitann á ofninum í 200°. Leggið svínabóginn ofan á grænmetið í ofnskúffunni og eldið áfram án álpappírs í 30 mínútur.  
Þegar kjötið hefur eldast í samtals 6 klukkustundir er það tilbúið. Takið svínabóginn af ofnskúffunni, setjið á fat og breiðið álpappír yfir á meðan sósan er löguð.

Kryddið sveppi með Season All og setjið í ofnskúffuna með grænmetinu. Eldið grænmetið áfram í 30 mínútur þannig að það verði örlítið stökkt og fallega brúnað. Þegar grænmetið er tilbúið, setjið það í framreiðslufat, takið frá restina af soðinu í botni ofnskúffunnar og hellið í soðskálina.



Brún sósa
500-600 ml vatn
kjötsoð
svínakraftur eftir smekk
2 lárviðarlauf
svartur pipar
1 1/2 dl vatn 
3/4 dl hveiti
brúnn sósulitur

Við sósugerðina þarf maður svolítið að prófa sig áfram og smakka til.

 Byrjið á að fleyta sem mestri fitu ofan af kjötsoðinu. Sjóðið soð og vatn saman í potti ásamt lárviðarlaufum úr ofnskúffunni. Hristið saman hveiti og vatn og hellið smátt og smátt í sósuna til að þykkja hana. Látið krauma í nokkrar mínútur á meðan sósan þykknar. Dekkjið sósuna með nokkrum dropum af brúnum sósulit.

Ef sósan er of bragðlítil, smakkið hana til með svínakrafti og svörtum pipar.


Uppskriftin er tiltölulega lítil en hægt er að elda tvo svínabóga á sama máta og eldunartíminn er þá sá sami.

Ég gef upp að maturinn nægi fyrir 4-5 manns. Við erum venjulega sex fullorðin og eitt til þrjú börn og höfum því tvo bóga, það verður alltaf svolítið mikill afgangur.

Þið verðið síður en svo svikin af þessari dýrindis mjúku og meyru helgarsteik kæru vinir.

Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur