laugardagur, 29. mars 2014

Gamli góði Langi Jón


 Laugardagur í dag og kominn tími til að deila einni sérlega ljúffengri uppskrift. Kruðeríið gerist bara ekki sælkeralegra en Langi Jón. Þeir sem hrifnir eru af kleinuhringjum og vanillu munu elska þessa gæja.

Það heyrir undantekningum til að finna langa jón í bakaríum nú til dags. Já ég sagði nú til dags þótt ég sé bara 25 ára. Því þegar ég var barn var það nokkurn veginn tryggt að maður gat gengið inn í næsta bakarí og verslað sér einn elskulegan langa jón. Eina bakaríið sem ég veit að selur þá í dag er Kallabakarí á Akranesi en þar fást einhverjir þeir allra bestu löngu jónar sem ég hef smakkað.

Þegar ég var með föður mínum og afa í Missouri í Bandaríkjunum árið 2008 fór ég á Dunkin' Donuts full eftirvæntingar því ég ætlaði svo aldeilis að smakka ekta amerískan langa jón, hann hlyti að vera sá allra besti. Ég hafði rangt fyrir mér. Í staðinn fyrir að innihalda þessa dásamlegu vanillufyllingu sem þekkist hér, var hann fylltur vanillukremi svipuðu hvíta Betty Crocker kreminu. Ekki misskilja mig, ég elska Betty Crocker kremið en það á ekki heima inni í langa jóninum mínum. Ofan á honum var svo hörð bragðlaus sykurleðja sem átti að heita glassúr. Þvílík vonbrigði. Þegar ég fer til Bandaríkjanna kem ég þangað til að borða alla þá fitandi dásemd sem þau hafa upp á að bjóða.

Til að þurfa ekki að fara alla leið upp á Akranes þegar mig langar í langa jón þá hef ég gert mína eigin. Þeir eru alveg meiriháttar góðir og ekki ósvipaðir þeim sem fást í bakaríum. Vanillufyllingin er auðvitað guðdómleg ein og sér, enda ratar bara um það bil helmingur hennar inn í löngu jónana, ef ég næ að hemja mig.

 
Langi Jón með karamelluglassúr
Langi Jón

3 msk þurrger
10 msk sykur
450 ml volg mjólk
3 egg 
675 g hveiti
1 tsk salt
150 g brætt smjör
3 tsk vanilludropar
1000 ml sólblómaolía til djúpsteikingar

Leysið ger og 1 1/2 msk af sykri upp í 6 msk af vel volgri mjólk. Leggið rakt viskastykki eða plastfilmu yfir skálina og látið hefast í 15 mínútur. 
Þeytið egg í skál og leggið til hliðar.
Blandið saman hveiti, salti og 8 1/2 msk af sykri í hrærivélarskál. Mótið holu í miðja hveitiblönduna og hellið gerdeiginu ofan í ásamt rest af mjólk. Hrærið saman og bætið þeyttum eggjum við, bræddu smjöri og vanilludropum. Leggið rakt viskastykki yfir hrærivélarskálina og látið hefast í 45 mínútur eða þar til deigið hefur tvöfaldast.

Sáldrið vel af hveiti á borðið og hnoðið deigið upp úr því með höndunum í um 5 mínútur. Fletjið deigið út þannig að það verði 2-3 cm þykkt og skerið út hæfilega stóra langa jóna.

Setjið löngu jónana á smjörpappírsklæddar ofnskúffur og leggið viskastykki yfir. Látið hefast í 30 mínútur á heitum stofuofni eða öðrum hlýjum stað þar til þeir hafa tvöfaldast.

Hitið olíu í stórum potti þar til hún hefur náð 180-190° hita.
Hægt er að prófa hana með því að láta brauðbita ofan í, ef hann verður gullinbrúnn eftir um það bil 30 sekúndur er olían tilbúin. Passið að hún hitni ekki of mikið.

Leggið nokkra langa jóna varlega ofan í olíuna og steikið í 3-5 mínútur. Takið upp úr pottinum með þar til gerðum djúpsteikingarspaða og leggið á eldhúspappírsklætt fat. 
Uppskriftin er svolítið stór en mér finnst gott að frysta nokkra löngu jóna til að eiga. Þá þarf bara að útbúa vanillufyllingu og karamelluglassúr þegar kruðerísköllunin kemur.
  
Vanillufylling

4 eggjarauður
1/3 bolli sykur
3 msk hveiti
2 msk Maizenamjöl
1 1/2 bolli mjólk
1/4 bolli rjómi
1 vanillustöng
1 tsk vanilludropar

Þeytið eggjarauður og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Þeytið svo Maizenamjöli og hveiti saman við og leggið til hliðar.

Hitið mjólk og rjóma í potti. Kljúfið vanillustöng, skafið úr henni fræin og bætið í pottinn. Látið suðuna koma upp á miðlungs hita þar til fer að krauma og hrærið stanslaust á meðan. Hellið heitu mjólkinni rólega saman við eggjablönduna, um það bil 1/4 bolla í einu og þeytið hratt með pískara á meðan. Með því að bæta alltaf smá mjólk rólega saman við eggjablönduna í einu hækkar hitastig eggjanna án þess að þau eldist. Hrærið vanilludropum saman við fyllinguna og hitið aftur á lágum hita. Hrærið áfram hratt með pískara í 1-2 mínútur eða þar til fyllingin verður nógu þykk til að hún leki ekki.

Stingið mjóum hníf eða prjóni í gegn um löngu jónana eftir endilöngu og þrýstið til hliðanna til að búa til holrúm. Setjið vanillufyllinguna í sprautupoka og sprautið inn í þá. Ég sprauta inn í báða enda svo fyllingin nái örugglega inn að miðju.

Karamelluglassúr 

200 g smjör
200 g púðursykur
2 dl rjómi
3 tsk vanilludropar
2-3 dl flórsykur

Sjóðið saman smjör, púðursykur, rjóma og vanilludropa.
Látið krauma við vægan  hita í nokkrar mínútur og kælið aðeins. Hrærið flórsykri saman við, byrjið á 1 dl og bætið svo við þar til glassúrinn er orðinn hæfilega þykkur.
Smyrjið glassúrnum á löngu jónana eða dýfið þeim í áður en hann byrjar að storkna.


Sérlegir sælkerar verða að prófa þessa uppskrift, ég meina það.

Fylgið mér endilega á Instagram : tinnabjorgcom

Góða helgi!


Tinna Björg

miðvikudagur, 26. mars 2014

Nýja uppáhalds búðin mín


Ég er búin að vera með einhverja bölvaða pest núna í tvo daga sem eflaust hálf þjóðin er búin að fá. Til að hressa mig við og hrista af mér slenið skruppum við mæðgur í smá verslunarleiðangur. Mér finnst fátt skemmtilegra en að versla mér falleg búsáhöld og ég er svo ótrúlega ánægð með kaupin að ég verð að sýna ykkur alla dýrðina.


Að þessu sinni fór ég í litla verslun að Höfðabakka 3 sem heitir Litla Garðbúðin. Þegar inn í búðina var komið missti ég vitið. Allir fallegu doppóttu diskarnir og pastellituðu bollarnir og allt þetta bleika! Og það dásamlegasta við þetta allt saman er það hvað fallegu vörurnar eru ódýrar. Kortið fékk ekki illt í röndina og ég gekk ekki út með samviskubit.

Ást við fyrstu sýn á innan við 3000 kr.

Ég elska svona litlar og heimilislegar búðir sem leyna á sér og mikið sem finnst mér gaman að vita til þess að það séu ennþá til verslanir sem eru ekki að tapa sér í verðlagningunni eins og vill svo alltof oft gerast með fyrirtæki hérna á þessu litla skeri.

 Ég ætla að drekka mikið te úr þessum risastóra bolla.

Konan sem afgreiddi mig og er jafnframt eigandi verslunarinnar krúttaðist með dóttur mína um litlu búðina á meðan ég skoðaði mig um. Hún var meira að segja svo yndisleg að bera pokana út í bíl fyrir mig.

  Ég veit ekki alveg hvað ég ætla að elda í þessu litla eldfasta móti, en það er bleikt og ég varð að eignast það.

 Doppótt súpuskál.
Og síðast en ekki síst...

 Dúkkulegur tebolli

Þessi dásamlega búð er svo sannarlega falinn fjársjóður.
 
 Jæja, það er víst tímabært að koma sér niður á jörðina og halda áfram með réttarheimspekiritgerð. Síðasta verkefni BA námsins!

Takk fyrir að fylgjast með mér kæru vinir.


Tinna Björg

laugardagur, 22. mars 2014

Mexíkóskt lasagna - Einfalt og svo ljúffengt!


Undanfarnir dagar og vikur hafa einkennst af endalausri verkefnavinnu og þreytu þess á milli, dóttir mín er búin að vera kvefuð og allir eitthvað voðalega tuskulegir. Ég hef því lítið dundað mér í eldhúsinu upp á síðkastið. Nú eru bara ein ritgerðarskil eftir og svo er fyrsta prófið um miðjan apríl. Lokasprettur þessarar annar verður svolítið langur en ég get huggað mig við það að ég útskrifast að öllum líkindum með BA gráðu í júní og hefst þá langþráð sumarfrí. Það sem heldur mér gangandi þessa dagana er tilhugsunin um Svíþjóðarferð með litlu fjölskyldunni minni í apríl og Vestfjarðaferð í júlí. Ég get hreinlega ekki beðið eftir að fara með dóttur mína í fyrstu bátsferðina sína yfir djúpið.

Í fyrradag gerði ég afar ljúffengt mexíkóskt lasagna. Uppskriftina fékk ég hjá systur minni en hún gerir það reglulega og fjölskyldunni finnst það alltaf jafn gott.
Þið verðið að afsaka myndgæðin, ég var svo svöng (aðallega gráðug) þegar ég var búin að elda að ég hafði engan tíma til að hugsa um að taka matarbloggshæfar myndir.


Mexíkóskt lasagna
Fyrir 7-8 manns
 
4 kjúklingabringur
olía
salt
svartur pipar
1 bréf tacokrydd
2 rauðar paprikur
2 laukar
3 hvítlauksrif
600 ml matreiðslurjómi
2 krukkur salsasósa
8 meðalstórar tortillakökur
400 g rifinn ostur
1 dós sýrður rjómi
1 poki Doritos

Skerið kjúklingabringur í litla bita og steikið á pönnu með smá olíu. Kryddið með salti, svörtum pipar og tacokryddi. Þegar kjúklingabitarnir eru gegnsteiktir, setjið þá í stóran pott. Skerið papriku, lauk og hvítlauk í litla bita og steikið í stutta stund þar til grænmetið fer að mýkjast. Blandið því svo saman við kjúklingabitana í pottinum ásamt matreiðslurjóma og salsasósu. Hitið að suðu og látið krauma við vægan hita í 10 mínútur.

Ausið 1/3 af kjúklingasósu í botninn á stóru eldföstu móti og setjið 4 tortillakökur ofan á. Til að þær passi í mótið og nái að þekja kjúklinginn þarf að skera þær til. Setjið aftur 1/3 af kjúklingasósu jafnt yfir tortillakökurnar og leggið aðrar 4 kökur yfir. Því næst er afganginum af sósunni ausið yfir tortillakökurnar og rifnum osti að lokum sáldrað yfir.
Bakið í ofni við 200° í 20-25 mínútur eða þar til osturinn bráðnar og verður svolítið stökkur.

Berið fram með sýrðum rjóma, Doritosflögum og ef til vill smá guacamole.

Uppskriftin passar í stórt eldfast mót en ef þið eigið ekki til stórt þá þarf að minnka hana um 1/3.

Þetta mexíkóska lasagna er svoleiðis meiriháttar stórfenglegt að það verða eiginlega allir að smakka. Svo er það líka svo einfalt!

Eigið dásamlega helgi.


Tinna Björg

föstudagur, 21. mars 2014

Berjaboost í tveimur útgáfum - laktósalaust fyrir fullorðna og sérstakt barnaboost

Þegar liggur vel á mér á morgnana geri ég stundum þetta svakalega góða berjaboost fyrir okkur mæðgurnar. Maginn í mér er svolítið viðkvæmur fyrir flestum mjólkurvörum og þá sérstaklega skyri svo ég nota laktósalaust skyr og mjólk í mitt boost. Dóttir mín er ekki orðin eins árs og ég reyni því að takmarka hennar mjólkurvöruneyslu við smjör á brauð og stundum smá smurost. Í staðinn fyrir skyr og mjólk fær hún Nanmjólk út í sitt boost. Ég nota þurrmjólk en þið getið líka notað Nanmjólkina úr fernu eða jafnvel stoðmjólk.
Í morgun renndum við Klara Sóllilja sitthvoru boostinu niður og skelltum okkur í ræktina með systur minni og hennar Sóllilju.


Barnaboost

1/2 dl frosin bláber 
2-3 frosin jarðarber
1/4 banani
1 msk hreint eplamauk
1/4 tsk hörfræ
90-120 ml köld Nanmjólk

Setjið bláber, jarðarber, banana, eplamauk og hörfræ í blandara ásamt 90 ml af Nanmjólk. Bætið restinni af Nanmjólkinni við ef boostið er of þykkt.


Laktósalaust berjaboost

1 dl frosin bláber
4-5 frosin jarðarber
1/2 banani
1/2 dl hreint eplamauk
1 msk hörfræ
1/2 dós Arna vanilluskyr
1 - 1 1/2 dl laktósalaus mjólk

Setjið bláber, jarðarber, banana, eplamauk, hörfræ og skyr í blandara ásamt 1 dl af laktósalausri mjólk. Bætið 1/2 dl við til að þynna ef þarf.

Eplamaukið sem ég nota í boostið er lífrænt frá Himneskt.

Mér þykir laktósafría skyrið gera boostið mun léttara og meira frískandi en venjulegt skyr, prófið og finnið muninn.


Ást og hamingja í glasi.

Tinna Björg

laugardagur, 15. mars 2014

Hornin hennar Steinunnar ömmu


Þá er þessi hráslagalegi laugardagur genginn í garð. Á svona dögum er tilvalið að vinda sér í bakstur til að eiga eitthvað að narta í með síðdegiskaffinu á meðan maður nöldrar yfir slepjulega veðrinu. Eða er ég kannski  ein um að vera eins og níræður karl?

Þegar ég var lítil, minni en þessir 165 cm sem ég er, var svo gott að fara í kaffiboð til ömmu. Hún var alltaf búin að baka þessi dásamlegu hveitihorn og gera heitt súkkulaði sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur systkinunum og frændsystkinum. Hornin borðuðum við af krúttlega kínverska stellinu hennar og drukkum súkkulaðið úr fallegum bollum í stíl.

Þessari uppskrift hafði bróðir minn uppi á heima hjá föðurafa okkar nokkrum árum eftir að Steinunn amma kvaddi okkur. Við héldum að uppskriftin hefði farið með henni því þegar við systurnar inntum ömmu eftir henni sagðist hún alltaf gera hornin eftir hendingu hverju sinni og vissi ekkert hvar uppskriftin væri niður komin. Það var því mikil gleði hjá okkur systkinunum þegar uppskriftin fannst ásamt fleiri sem voru í miklu uppáhaldi. Þótt grunnuppskriftin að hornunum hafi fundist þá verða þau aldrei eins og dásamlegu hornin hennar ömmu.
 

Ömmuhorn
16 stk
 
8 g þurrger
1 dl vatn
½ dl mjólk
4 dl hveiti
3 msk hveitiklíð
½ tsk salt
½ tsk sykur
50 g smjör

1 msk kúmen

1 egg

Hitið mjólk og vatn í 37° og leysið gerið upp í blöndunni.
Sigtið hveiti, hveitiklíð, salt og sykur í skál og myljið smjör út í. Vætið í með gerblöndunni og hnoðið.
 

Látið deigið hefast í 15-20 mínútur og hnoðið það aftur.
Fletjið út í tvær kringlóttar kökur, skerið í 8 hluta og rúllið upp í horn. Setjið hornin á smjörpappírsklædda ofnplötu, penslið með hrærðu eggi og látið hefast í 15-20 mínútur.
 

Bakið við 180° í miðjum ofni í 10-15 mínútur.

Njótið með miklu smjöri og heitu súkkulaði.Þótt hveitihornin komi aldrei til með að bragðast alveg eins og hjá yndislegu ömmu þá komast þau því sem næst. Ég hvet ykkur eindregið til að prófa.
  
Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

þriðjudagur, 11. mars 2014

Ofurfæðuhafragrautur


Ég setti mynd af ofurfæðuhafragrautnum mínum á Instagram um daginn sem vakti athygli. Vinkona mín bað mig að skella inn uppskriftinni enda oft sem mann vantar hugmyndir að leiðum til að fríska aðeins upp á þennan blessaða morgungraut.

Flestir kunna eflaust að búa til hafragraut en sumir eru kannski ekkert sérstaklega góðir í því. Í mörg ár var ég arfaslök í hafragrautargerð og gerði hann undantekningarlaust of þykkan. En misjafn er smekkur manna og sumir vilja sinn ef til vill dálítið þykkan.
 Fæstir fara eftir einhverri sérstakri uppskrift en hér er mín aðferð.


Ofurfæðuhafragrautur

1 dl haframjöl
2 tsk chiafræ
2 1/2 - 3 dl vatn
sjávarsalt

3/4 dl hreint eplamauk
handfylli bláber
1/2 msk gojiber
1 tsk kakónibbur
1 tsk möndluflögur

Hitið haframjöl, chiafræ og vatn að suðu og látið krauma við vægan hita í 4-5 mínútur eða þar til hafrarnir hafa eldast.
Hrærið örlitlu sjávarsalti saman við grautinn.

Setjið hafragrautinn í skál og hellið eplamauki yfir. Sáldrið bláberjum, gojiberjum, kakónibbum og möndluflögum yfir grautinn og njótið með góðum bolla af grænu tei.


 Ég á oftast til frosin bláber í frysti og finnst þau ekki síðri út á grautinn en þau fersku.
Eplamaukið sem ég nota fæst í litlum dósum, 6 saman í pakka, í Krónunni. Annars er lífræna maukið frá Himneskt líka mjög gott en það er svolítið súrara.
Vonandi getur eitthvert ykkar nýtt sér þessa hugmynd að hafragraut.
Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

miðvikudagur, 5. mars 2014

Skírnartertugleði, kökuskreytingar og uppskrift að sykurmassa


Sólríka laugardaginn síðustu helgi byrjaði ég eldsnemma á skírnartertugerð fyrir litla vin minn sem fékk það fallega nafn Ólafur Orri.


Tertan samanstendur af tveimur marsipanbotnum með jarðarberjafrómas á milli. Hún er klædd hvítum sykurmassa og skreytt með blómum og lambi sem ég gerði úr sykurmassa tveimur dögum fyrr.


Sykurmassinn fæst tilbúinn í Hagkaup og fleiri búðum en hann er mun dýrari en sá sem maður býr til sjálfur.

Sykurmassi

160 g sykurpúðar
350-450 g flórsykur
1 - 1 1/2 msk vatn
gelmatarlitur
mjúk palminfeiti

 Smyrjið glerskál vel og vandlega með palminfeiti og setjið í hana sykurpúða og vatn. Setjið skálina í örbylgjuofn og hitið í 90-120 sekúndur. Hrærið í sykurpúðunum á 30 sekúndna fresti með sleikju sem smurð hefur verið með palminfeiti. Hrærið matarlit saman við sykurpúðana og hitið síðustu 30 sekúndurnar. Þegar sykurpúðarnir hafa bráðnað þarf að hafa hraðar hendur og hræra helmingi flórsykursins saman við á meðan þeir eru heitir.
Smyrjið borðflötinn með palminfeiti og hnoðið sykurpúðana upp úr afgangi flórsykursins á borðinu. Hnoðið sykurmassann þar til hann verður eins og leir, hann er tilbúinn ef hann lekur ekki þegar hann er tekinn upp.

Þegar sykurmassinn er flattur út er mikilvægt að smyrja borðflötinn og kökukeflið með palminfeiti svo hann klístrist ekki.

Athugið að sykurmassinn og þá sérstaklega heitir sykurpúðarnir festast við allt eins og lím og því þarf að smyrja öll áhöld sem þeir snerta með palminfeiti. Einnig er mikilvægt að smyrja hendurnar vel og ef þið notið einnota hanska þarf að smyrja þá líka.

Þegar ég geri skírnartertu sem er á stærð við ofnskúffu þá þrefalda ég uppskriftina. Ég miða við að nota einfalda uppskrift í skreytinguna og tvöfalda til að þekja tertuna.

Ef afgangur verður af sykurmassanum má geyma hann í loftþéttum umbúðum í ísskáp í mánuð og hálft ár í frysti.


Sykurmassablómin geri ég með sérstökum blómastimplum sem ég pantaði á Ebay. Þar eru þeir töluvert ódýrari en hér á landi, jafnvel þótt við bætist sendingarkostnaður og tollar.

Sömu stimpla notaði ég við gerð skírnartertu dóttur minnar.


Fígúrurnar geri ég svo eftir eigin hugdettum en mér þykir gott að skoða hugmyndir á internetinu áður en ég hefst handa.


Þessa jólapakkatertu gerði ég fyrir fjölskylduhitting hjá stórfjölskyldu kærasta míns sem kemur saman árlega og á notalega jólastund saman.

Ég læt svo fylgja með eina mynd af skírnartertu systurdóttur minnar sem systir mín gerði.


Nú er um að gera að prófa sig áfram og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn.
Munið að æfingin skapar meistarann!


Tinna Björg

sunnudagur, 2. mars 2014

Makkarónumarengs með Milky Way sósu


Þann 25. febrúar átti ég afmæli og árin víst orðin 25. Í síðustu viku var mikið álag í skólanum svo enginn tími gafst fyrir kökubakstur eða veisluhöld. Ég keypti gamla, þurra og harða köku frá Bakarameistaranum sem var nýbökuð samkvæmt afgreiðslustúlkunni. Ég læt mér þetta að kenningu verða og baka sjálf næst! Systir mín bætti mér þennan kökuharmleik þó upp en hún kom færandi hendi með 1 1/2 kg af lakkrís og grillaði fyrir mig nautasteik. Kærastinn var að vinna fram á nótt og gat því ekki notið dagsins með okkur. En kvöldið fyrir afmælið mitt kom hann heim úr vinnunni og færði mér Nike Free skó, það var svo sannarlega ást við fyrstu sýn. Þvílíkur unaður sem það er að ganga í þeim! Þeir eru svo mjúkir og henta flötu iljunum mínum einstaklega vel.

Á laugardaginn hafði ég loksins tíma til að baka afmælistertu og taka á móti gestum. Afi minn kom í kaffi og átti notalega stund með langafastelpunum sínum tveimur. Tengdamamma kom í heimsókn með bróðurdóttur kærasta míns og hennar kærasta.
Móðir mín var svo indæl að baka fyrir mig dásamlega ostaköku sem ég bauð gestunum upp á ásamt marengstertunni minni.

Tertuna kalla ég makkarónumarengs því á milli marengsbotnanna setti ég þunnan möndlubotn sem bragðast alveg eins og gömlu góðu makkarónukökurnar. Ofan á makkarónumarengsinn setti ég svo Milky Way sósu.


Makkarónumarengs

Möndlubotn

2 eggjahvítur
1 dl sykur
1/4 tsk edik
örlítið salt
1/2 dl möndlumjöl

Stífþeytið eggjahvítur, hellið sykri saman við og þeytið áfram í stutta stund. Bætið við ediki og salti og stífþeytið. Sáldrið möndlumjöli í skálina og blandið varlega saman við marengsblönduna. Möndlumjölið er svolítið þungt og því er eðlilegt að marengsinn falli, botninn á að vera þunnur og frekar loftlítill.

Teiknið hring á bökunarpappírsörk, gott er að nota lausan botn úr 24 cm bökunarformi til að teikna eftir. Smyrjið blöndunni jafnt á hringinn þannig að úr verði þunnur botn.
Bakið við 150° í 40-45 mínútur.


Marengsbotnar
 
4 eggjahvítur
2 1/2 dl sykur
1/2 tsk edik
1 tsk Maizenamjöl
1/4 tsk salt

Stífþeytið eggjahvítur, hellið sykrinum saman við og þeytið áfram í stutta stund. Bætið ediki, Maizenamjöli og salti saman við og þeytið áfram þar til blandan verður stíf.

Ég nota borðedik en einnig er vel hægt að nota hvítvínsedik.

Teiknið hringi á sitthvora bökunarpappírsörkina. Smyrjið marengsblöndunni á hringina þannig úr verði tveir jafnstórir botnar. Bakið við 150° í 65-70 mínútur. Til að koma í veg fyrir að botnarnir springi við hitabreytingar er best að slökkva á ofninum og láta marengsbotnana kólna alveg inni í honum.


500 ml þeyttur rjómi
200 g bláber
350 g jarðarber

Setjið marengsbotn á fallegan tertudisk, smyrjið helmingi þeytta rjómans jafnt á hann og sáldrið bláberjum yfir. Setjið möndlubotninn ofan á tertuna og smyrjið hinum helmingi rjómans yfir. Skerið jarðarber í sneiðar og raðið ofan á rjómann. Leggið hinn marengsbotninn ofan á tertuna.

Bláber og jarðarber eru svolítið dýr og því nota ég oft frosin bláber í stað ferskra til að spara örlítið. En jarðarberin finnst mér verða að vera fersk.


Milky Way sósa

150 g Milky Way
90 g suðusúkkulaði
50 ml rjómi

Bræðið Milky Way og suðusúkkulaði saman við rjóma. Látið krauma við vægan hita í 4-5 mínútur og kælið.
Þegar sósan hefur kólnað og þykknað aðeins, smyrjið henni þá jafnt yfir tertuna. Hún á ekki að vera það þunn að hún leki niður hliðarnar heldur seigfljótandi svo hægt sé að smyrja henni á.

Skreytið tertuna með berjum og berið fram með bros á vör.


Ég hvet ykkur til að prófa þessa dásemd kæru vinir. Ef ekki á fallegum sunnudegi, hvenær þá?


Tinna Björg