Ofurfæðuhafragrautur


Ég setti mynd af ofurfæðuhafragrautnum mínum á Instagram um daginn sem vakti athygli. Vinkona mín bað mig að skella inn uppskriftinni enda oft sem mann vantar hugmyndir að leiðum til að fríska aðeins upp á þennan blessaða morgungraut.

Flestir kunna eflaust að búa til hafragraut en sumir eru kannski ekkert sérstaklega góðir í því. Í mörg ár var ég arfaslök í hafragrautargerð og gerði hann undantekningarlaust of þykkan. En misjafn er smekkur manna og sumir vilja sinn ef til vill dálítið þykkan.
 Fæstir fara eftir einhverri sérstakri uppskrift en hér er mín aðferð.


Ofurfæðuhafragrautur

1 dl haframjöl
2 tsk chiafræ
2 1/2 - 3 dl vatn
sjávarsalt

3/4 dl hreint eplamauk
handfylli bláber
1/2 msk gojiber
1 tsk kakónibbur
1 tsk möndluflögur

Hitið haframjöl, chiafræ og vatn að suðu og látið krauma við vægan hita í 4-5 mínútur eða þar til hafrarnir hafa eldast.
Hrærið örlitlu sjávarsalti saman við grautinn.

Setjið hafragrautinn í skál og hellið eplamauki yfir. Sáldrið bláberjum, gojiberjum, kakónibbum og möndluflögum yfir grautinn og njótið með góðum bolla af grænu tei.


 Ég á oftast til frosin bláber í frysti og finnst þau ekki síðri út á grautinn en þau fersku.
Eplamaukið sem ég nota fæst í litlum dósum, 6 saman í pakka, í Krónunni. Annars er lífræna maukið frá Himneskt líka mjög gott en það er svolítið súrara.
Vonandi getur eitthvert ykkar nýtt sér þessa hugmynd að hafragraut.
Verði ykkur að góðu!


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur