Mexíkóskt lasagna - Einfalt og svo ljúffengt!
Undanfarnir dagar og vikur hafa einkennst af endalausri verkefnavinnu og þreytu þess á milli, dóttir mín er búin að vera kvefuð og allir eitthvað voðalega tuskulegir. Ég hef því lítið dundað mér í eldhúsinu upp á síðkastið. Nú eru bara ein ritgerðarskil eftir og svo er fyrsta prófið um miðjan apríl. Lokasprettur þessarar annar verður svolítið langur en ég get huggað mig við það að ég útskrifast að öllum líkindum með BA gráðu í júní og hefst þá langþráð sumarfrí. Það sem heldur mér gangandi þessa dagana er tilhugsunin um Svíþjóðarferð með litlu fjölskyldunni minni í apríl og Vestfjarðaferð í júlí. Ég get hreinlega ekki beðið eftir að fara með dóttur mína í fyrstu bátsferðina sína yfir djúpið.
Í fyrradag gerði ég afar ljúffengt mexíkóskt lasagna. Uppskriftina fékk ég hjá systur minni en hún gerir það reglulega og fjölskyldunni finnst það alltaf jafn gott.
Þið verðið að afsaka myndgæðin, ég var svo svöng (aðallega gráðug) þegar ég var búin að elda að ég hafði engan tíma til að hugsa um að taka matarbloggshæfar myndir.
Mexíkóskt lasagna
Fyrir 7-8 manns
4 kjúklingabringur
olía
salt
svartur pipar
1 bréf tacokrydd
2 rauðar paprikur
2 laukar
3 hvítlauksrif
600 ml matreiðslurjómi
2 krukkur salsasósa
8 meðalstórar tortillakökur
400 g rifinn ostur
1 dós sýrður rjómi
1 poki Doritos
Skerið kjúklingabringur í litla bita og steikið á pönnu með smá olíu. Kryddið með salti, svörtum pipar og tacokryddi. Þegar kjúklingabitarnir eru gegnsteiktir, setjið þá í stóran pott. Skerið papriku, lauk og hvítlauk í litla bita og steikið í stutta stund þar til grænmetið fer að mýkjast. Blandið því svo saman við kjúklingabitana í pottinum ásamt matreiðslurjóma og salsasósu. Hitið að suðu og látið krauma við vægan hita í 10 mínútur.
Ausið 1/3 af kjúklingasósu í botninn á stóru eldföstu móti og setjið 4 tortillakökur ofan á. Til að þær passi í mótið og nái að þekja kjúklinginn þarf að skera þær til. Setjið aftur 1/3 af kjúklingasósu jafnt yfir tortillakökurnar og leggið aðrar 4 kökur yfir. Því næst er afganginum af sósunni ausið yfir tortillakökurnar og rifnum osti að lokum sáldrað yfir.
Bakið í ofni við 200° í 20-25 mínútur eða þar til osturinn bráðnar og verður svolítið stökkur.
Berið fram með sýrðum rjóma, Doritosflögum og ef til vill smá guacamole.
Uppskriftin passar í stórt eldfast mót en ef þið eigið ekki til stórt þá þarf að minnka hana um 1/3.
Þetta mexíkóska lasagna er svoleiðis meiriháttar stórfenglegt að það verða eiginlega allir að smakka. Svo er það líka svo einfalt!
Eigið dásamlega helgi.
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli