Nýja uppáhalds búðin mín


Ég er búin að vera með einhverja bölvaða pest núna í tvo daga sem eflaust hálf þjóðin er búin að fá. Til að hressa mig við og hrista af mér slenið skruppum við mæðgur í smá verslunarleiðangur. Mér finnst fátt skemmtilegra en að versla mér falleg búsáhöld og ég er svo ótrúlega ánægð með kaupin að ég verð að sýna ykkur alla dýrðina.


Að þessu sinni fór ég í litla verslun að Höfðabakka 3 sem heitir Litla Garðbúðin. Þegar inn í búðina var komið missti ég vitið. Allir fallegu doppóttu diskarnir og pastellituðu bollarnir og allt þetta bleika! Og það dásamlegasta við þetta allt saman er það hvað fallegu vörurnar eru ódýrar. Kortið fékk ekki illt í röndina og ég gekk ekki út með samviskubit.

Ást við fyrstu sýn á innan við 3000 kr.

Ég elska svona litlar og heimilislegar búðir sem leyna á sér og mikið sem finnst mér gaman að vita til þess að það séu ennþá til verslanir sem eru ekki að tapa sér í verðlagningunni eins og vill svo alltof oft gerast með fyrirtæki hérna á þessu litla skeri.

 Ég ætla að drekka mikið te úr þessum risastóra bolla.

Konan sem afgreiddi mig og er jafnframt eigandi verslunarinnar krúttaðist með dóttur mína um litlu búðina á meðan ég skoðaði mig um. Hún var meira að segja svo yndisleg að bera pokana út í bíl fyrir mig.

  Ég veit ekki alveg hvað ég ætla að elda í þessu litla eldfasta móti, en það er bleikt og ég varð að eignast það.

 Doppótt súpuskál.
Og síðast en ekki síst...

 Dúkkulegur tebolli

Þessi dásamlega búð er svo sannarlega falinn fjársjóður.
 
 Jæja, það er víst tímabært að koma sér niður á jörðina og halda áfram með réttarheimspekiritgerð. Síðasta verkefni BA námsins!

Takk fyrir að fylgjast með mér kæru vinir.


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur