Makkarónumarengs með Milky Way sósu


Þann 25. febrúar átti ég afmæli og árin víst orðin 25. Í síðustu viku var mikið álag í skólanum svo enginn tími gafst fyrir kökubakstur eða veisluhöld. Ég keypti gamla, þurra og harða köku frá Bakarameistaranum sem var nýbökuð samkvæmt afgreiðslustúlkunni. Ég læt mér þetta að kenningu verða og baka sjálf næst! Systir mín bætti mér þennan kökuharmleik þó upp en hún kom færandi hendi með 1 1/2 kg af lakkrís og grillaði fyrir mig nautasteik. Kærastinn var að vinna fram á nótt og gat því ekki notið dagsins með okkur. En kvöldið fyrir afmælið mitt kom hann heim úr vinnunni og færði mér Nike Free skó, það var svo sannarlega ást við fyrstu sýn. Þvílíkur unaður sem það er að ganga í þeim! Þeir eru svo mjúkir og henta flötu iljunum mínum einstaklega vel.

Á laugardaginn hafði ég loksins tíma til að baka afmælistertu og taka á móti gestum. Afi minn kom í kaffi og átti notalega stund með langafastelpunum sínum tveimur. Tengdamamma kom í heimsókn með bróðurdóttur kærasta míns og hennar kærasta.
Móðir mín var svo indæl að baka fyrir mig dásamlega ostaköku sem ég bauð gestunum upp á ásamt marengstertunni minni.

Tertuna kalla ég makkarónumarengs því á milli marengsbotnanna setti ég þunnan möndlubotn sem bragðast alveg eins og gömlu góðu makkarónukökurnar. Ofan á makkarónumarengsinn setti ég svo Milky Way sósu.


Makkarónumarengs

Möndlubotn

2 eggjahvítur
1 dl sykur
1/4 tsk edik
örlítið salt
1/2 dl möndlumjöl

Stífþeytið eggjahvítur, hellið sykri saman við og þeytið áfram í stutta stund. Bætið við ediki og salti og stífþeytið. Sáldrið möndlumjöli í skálina og blandið varlega saman við marengsblönduna. Möndlumjölið er svolítið þungt og því er eðlilegt að marengsinn falli, botninn á að vera þunnur og frekar loftlítill.

Teiknið hring á bökunarpappírsörk, gott er að nota lausan botn úr 24 cm bökunarformi til að teikna eftir. Smyrjið blöndunni jafnt á hringinn þannig að úr verði þunnur botn.
Bakið við 150° í 40-45 mínútur.


Marengsbotnar
 
4 eggjahvítur
2 1/2 dl sykur
1/2 tsk edik
1 tsk Maizenamjöl
1/4 tsk salt

Stífþeytið eggjahvítur, hellið sykrinum saman við og þeytið áfram í stutta stund. Bætið ediki, Maizenamjöli og salti saman við og þeytið áfram þar til blandan verður stíf.

Ég nota borðedik en einnig er vel hægt að nota hvítvínsedik.

Teiknið hringi á sitthvora bökunarpappírsörkina. Smyrjið marengsblöndunni á hringina þannig úr verði tveir jafnstórir botnar. Bakið við 150° í 65-70 mínútur. Til að koma í veg fyrir að botnarnir springi við hitabreytingar er best að slökkva á ofninum og láta marengsbotnana kólna alveg inni í honum.


500 ml þeyttur rjómi
200 g bláber
350 g jarðarber

Setjið marengsbotn á fallegan tertudisk, smyrjið helmingi þeytta rjómans jafnt á hann og sáldrið bláberjum yfir. Setjið möndlubotninn ofan á tertuna og smyrjið hinum helmingi rjómans yfir. Skerið jarðarber í sneiðar og raðið ofan á rjómann. Leggið hinn marengsbotninn ofan á tertuna.

Bláber og jarðarber eru svolítið dýr og því nota ég oft frosin bláber í stað ferskra til að spara örlítið. En jarðarberin finnst mér verða að vera fersk.


Milky Way sósa

150 g Milky Way
90 g suðusúkkulaði
50 ml rjómi

Bræðið Milky Way og suðusúkkulaði saman við rjóma. Látið krauma við vægan hita í 4-5 mínútur og kælið.
Þegar sósan hefur kólnað og þykknað aðeins, smyrjið henni þá jafnt yfir tertuna. Hún á ekki að vera það þunn að hún leki niður hliðarnar heldur seigfljótandi svo hægt sé að smyrja henni á.

Skreytið tertuna með berjum og berið fram með bros á vör.


Ég hvet ykkur til að prófa þessa dásemd kæru vinir. Ef ekki á fallegum sunnudegi, hvenær þá?


Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur