fimmtudagur, 26. september 2013

Falleg barnapeysa með blómamynstri


Mér finnst afar huggulegt að hafa eitthvað á prjónunum til að dúlla mér við yfir sjónvarpinu þegar ég á tíma aflögu. Það má segja að prjónaskapurinn sé eiginlega mitt jóga, hann er afslappandi og hreinsar hugann. Svo hef ég líka enga þolinmæði í jóga.

Ég byrjaði að prjóna þessa fallegu barnapeysu þegar ég var ólétt af dóttur minni en ég hef prjónað tvær samskonar peysur áður og gefið. Ég lauk ekki við hana fyrr en núna í sumar en ég ákvað að spýta í lófana og klára peysuna fyrir haustið því ég vissi að ég myndi hafa mikið á minni könnu með 4 mánaða barn og í 110% námi.


Uppskriftina að peysunni er að finna í prjónablaðinu Lopi 29. Hún er fljótgerð og tók mig aðeins nokkrar kvöldstundir yfir sjónvarpsglápi.

Þegar ég þvæ ullarföt handþvæ ég þau upp úr volgu vatni með þvottaefni og nudda svo hárnæringu vel inn í ullina til að mýkja hana. Síðan skola ég flíkurnar og legg á handklæði til þerris.

Ég hef heyrt ofboðslega margar konur segja að þær kunni ekki að prjóna og gætu aldrei lært það.
Prjónaskapur er alveg ofboðslega auðveldur og það kemur á óvart hversu fljótur maður er að læra réttu handtökin.


Það er um að gera að fá mömmu, ömmu, frænku eða vinkonu til að kenna sér og koma manni af stað. Eins og með allt annað þá gildir sú gullna regla um prjónaskapinn að æfingin skapar meistarann.Bestu kveðjur,

Tinna Björg!

mánudagur, 23. september 2013

Afmælisterta fyrir pabba - After Eight marengs


Faðir minn á afmæli í dag og af því tilefni fórum við öll fjölskyldan út að borða á Grillmarkaðinum í gærkvöldi.
Ég pantaði mér nautalund og sveppi til hliðar, þvílíkur unaður sem þetta var. Ekki skemmir fyrir hvað veitingastaðurinn er guðdómlega fallegur og hlýlegur.

Við vorum öll ofboðslega ánægð með matinn en það eina sem okkur fannst vanta var barnamatseðill. Litli 6 ára systursonur minn fékk bara krullufranskar og maísstöngla af meðlætisseðlinum því það voru engir aðrir réttir á matseðlinum ætlaðir litlum munnum.

Eftir þessa notalegu kvöldstund fórum við svo beint heim að gæða okkur á eftirréttinum en móðir mín gerði unaðslega góða ostaköku og ég bakaði marengsköku með After Eight og jarðarberjum.

Ostakökuuppskriftina ætla ég að setja inn síðar þegar við mamma höfum fínpússað hana aðeins en hérna er uppskrift að þessari dýrindis After Eight marengsköku.


After Eight marengs

3 eggjahvítur
150 g púðursykur
80 g strásykur
4 bollar Rice Krispies

200 g After Eight
500 ml rjómi
250 g jarðarber

Þeytið eggjahvítur í skál þar til þær verða stífar og ekki lengur froðukenndar.

Bætið púðursykri og strásykri við og þeytið þar til blandan verður ljós og alveg stíf.
Þegar maður heldur að marengsinn sé tilbúinn er gott að þeyta hann aðeins meira því ef hann er ekki nógu stífur getur hann farið að leka í ofninum og botnarnir verða flatir.

Blandið Rice Krispies varlega saman við.

Teiknið með blýanti hring á sitthvora bökunarpappírsörkina. Gott er að nota botninn úr 20 eða 24 cm kökuformi til að teikna eftir.

Skiptið marengsblöndunni jafnt á bökunarpappírsarkirnar og smyrjið þannig að blandan fylli upp í teiknuðu hringina.

Bakið í ofni við 150° í 40 mínútur.

Takið frá 6 plötur af After Eight og leggið til hliðar ásamt 25 ml af rjóma.

Þeytið 475 ml af rjóma. Skerið afganginn af After Eight í smáa bita og blandið saman við rjómann.

Setjið smá slettu af rjóma á kökudisk svo kakan festist við hann og renni ekki til.
Hvolfið öðrum marengsbotninum á diskinn og smyrjið helmingi rjómans ofan á.

Skerið jarðarberin í smáa bita og dreifið rúmlega helmingnum yfir tertuna.
Leggið hinn botninn ofan á og smyrjið með restinni af rjómanum.

Bræðið 6 After Eight plötur í potti við vægan hita með 25 ml af rjóma. Kælið þar til blandan verður volg og hellið yfir tertuna í mjórri bunu með skeið þannig að kakan verði röndótt.

Dreifið restinni af jarðarberjunum yfir kökuna og skreytið með myntulaufum.


Ég er rosalega mikið fyrir að hafa ber í kökum því mér finnst nauðsynlegt að hafa eitthvað súrt til að mæta öllu þessu sæta.

Rifsberin og myntan eru að syngja sitt síðasta svo ég skellti mér út í garð og tíndi í eina sumarlega skreytingu áður en haustlitirnir fara að setja svip sinn á baksturinn.

Myntan og jarðarberin eru himnesk blanda. Margir eiga eflaust aðalbláber í frystinum eftir sumarið og er tilvalið að bæta nokkrum á milli botnanna til að halda jarðarberjunum félagsskap. Kökur innihalda aldrei of mikið af berjum!


Verði ykkur að góðu!

Tinna Björg

föstudagur, 20. september 2013

Magga mín og mexíkóskt kjúklingasalat


Ég fór á langþráða líkamsræktaræfingu með Möggu vinkonu minni í dag en það er sko aldeilis ekki gefið að ég hafi orku, nenn eða tíma fyrir svoleiðis þessa dagana.

Við Magga æfðum stíft saman áður en ég varð ólétt en höfum lítið komist saman upp á síðkastið. Hún var að koma heim frá Úkraínu þar sem hún varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta heimsmeistaratitil í Bikini Fitness. Þess má til gamans geta að fyrr í kvöld var hún einmitt gestur í Loga í beinni.

Ætlunin er að reyna að komast á fleiri æfingar og taka aðeins til í mataræðinu svona á virkum dögum, takmarka kökuátið við helgarnar þótt það verði erfitt fyrir Tinnu sykurtönn. Enda ekki annað hægt ef maður ætlar að æfa með heimsmeistara! Ég treysti því að hún yndislega Magga mín verði með svipuna á mér. Það er frábært að æfa með góðri vinkonu og ekki skemmir fyrir að hún er einkaþjálfari og Íslandsmeistari í taekwondo svo hún gefur mér ekkert eftir á æfingum.

Af því að ég er í svo miklum heilsuræktarpælingum í dag (sem mun ekki endast til morguns) þá læt ég fylgja uppskrift að ofboðslega góðu og öðruvísi kjúklingasalati. Ég ætla nú ekki að fullyrða að salatið sé sérlega heilsusamlegt þar sem það inniheldur dágóðan slatta af ostasósu en það er komin helgi og nafnið á réttinum endar á salat!

Ég smakkaði salatið fyrst í útskriftarveislu Tinnu vinkonu minnar fyrir nokkrum árum og hef stundum gert það þegar mig langar í léttan kvöldverð.


Mexíkóskt kjúklingasalat
fyrir 4-6 manns

5 kjúklingabringur
1 iceberg höfuð
2 avocado
4 tómatar
1 dós chillibaunir
1 krukka ostasósa
taco krydd
salt
hvítur pipar

Kryddið kjúklingabringur með taco kryddi, salti og hvítum pipar og steikið í ofni við 180° í um 40 mínútur.

Rífið eða skerið iceberg kál í grunnt fat.
Skerið avocado og tómata í hæfilega stóra bita og dreifið yfir kálið.

Blandið saman chillibaunum og ostasósu í potti.
Hitið upp að suðu, lækkið hitann og látið krauma í nokkrar mínútur.

Skerið kjúklingabringur í bita og bætið saman við sósuna.

Hellið að lokum kjúklingaréttinum yfir salatið.
Berið fram með Doritos og ef til vill smá slettu af sýrðum rjóma.


Ég leitaði að chillibaunum í nokkrum búðum, þar á meðal í Bónus, Krónunni og Kosti. Eftir mikla leit fann systir mín þær loksins í Hagkaup.
Þetta einfalda kjúklingasalat kemur skemmtilega á óvart og ég hvet ykkur eindregið til að prófa.


Góða helgi kæru vinir!

Tinna Björg

þriðjudagur, 17. september 2013

Frískað upp á fötin með fatalit


Ég er ein af þeim sem leggja ástfóstur við ákveðnar flíkur og sama hversu sjúskaðar þær verða er það mér lífsins ómögulegt að henda þeim.

Móðir mín hefur oftar en ekki þurft að grípa inn í þessa fatavæntumþykju mína og hreinlega hent flíkum af mér í skjóli nætur.

Einu sinni átti ég boxer stuttbuxur sem ég hafði notað sem náttbuxur í fjölda ára. Þær voru ekki bara snjáðar og upplitaðar heldur líka gatslitnar. Mömmu þótti ómögulegt að ég héldi ennþá upp á þessar stuttbuxur þótt ég hefði fengið nýjar náttbuxur. Hún greip til sinna ráða, læddist inn til mín þegar ég sá ekki til og fleygði buxunum út í ruslatunnu. Það var fyrir tilviljun að ég fór út með ruslið þennan dag og fann þar elskulegu náttbrókina mína. Ég tók stuttbuxurnar auðvitað aftur með mér inn, þvoði þær og hélt áfram að nota.
Nokkru síðar lét móðir mín aftur til skarar skríða og þá hurfu stuttbuxurnar fyrir fullt og allt.

 Nú hljóma ég eflaust eins og níræð skrudda en mér finnst fötin sem maður kaupir í dag, sérstaklega gallabuxur, halda illa lit og verða fljótt snjáð. Sem er mjög óhentugt fyrir fólk eins og mig sem elskar fötin sín!

Klóka húsmóðirin hún mamma fékk þá hugmynd fyrir stuttu að kaupa fatalit og lita snjáðar gallabuxur. Hún hefur núna litað þónokkrar gallabuxur af sjálfri sér og föður mínum ásamt nýjum bol sem hafði komið blettur í.

Ég keypti mér svartar gallabuxur fyrir 5 árum sem eru ekki mikið notaðar en þær urðu snjáðar ansi fljótt. Móðir mín litaði þær til að skerpa á þeim með góðum árangri og nú eru þær eins og nýjar.

 Önnur flík sem ég hef tekið ástfóstri við þessi er úlpa sem ég keypti í Prag fyrir 6 árum. Ég bókstaflega bjó í henni þau 3 ár sem ég notaði hana og var mikið farið að sjá á henni. Hún varð snjáð og gerviloðkraginn ónýtur. Með miklum trega neyddist ég til að dæma úlpuna úr leik og fá mér nýja.


Svo ég haldi áfram að vera dramatísk þá bar söknuðurinn min ofurliði og ég keypti mér um daginn fatalit til að lita úlpuna í von um að geta notað hana aftur.

Fataliturinn heitir Dylon og fæst hjá Þorsteini Bergmann á Skólavörðustíg 16a. Litavalið er fjölbreytt og aðferðin við litunina er afar einföld. Flíkin er sett í þvottavél ásamt litarduftinu og 500 g af grófu salti. Saltið er sett með til að binda litinn.Útkoman gladdi mig mikið og ég er núna aftur flutt inn í hlýju og yndislegu úlpuna mína.

Ég tók af henni sjúskaða gerviloðkragann og festi á hana Cintamani loðkraga.

 Þetta er góð leið til að nýta fötin betur og ég hvet ykkur til að prófa þessa lausn áður en þið gefist upp á gömlu görmunum.


Bestu kveðjur!

Tinna Björg

laugardagur, 14. september 2013

Oreo unaður


Hún.is átti eins árs afmæli á dögunum og af því tilefni var boðið í svakalega flott hádegisboð á Sushi Samba. Við innganginn var boðið upp á freyðivín og þegar inn var komið tók á móti okkur hlaðborð með sushi og öðrum smáréttum ásamt hvítvíni og rauðvíni.

Ég borða alls ekki hráan fisk en það kom ekki að sök því boðið var upp á bæði grænmetissushi og surf and turf sushi sem inniheldur nautakjöt og humar. Ég hef aldrei smakkað svona ótrúlega gott fiskilaust sushi og ég mæli með því að þið prófið.

Við dóttir mín áttum ánægjulegt kósýkvöld með frænku minni í gærkvöldi en hún gisti hjá okkur í nótt. Við nenntum ómögulega að elda svo við pöntuðum mat frá Saffran, piri piri kjúklingur er í algjöru uppáhaldi hjá mér og það kemur varla annað til greina þegar ég ætla að fá mér skyndibita.

Ég hafði fyrr um daginn gert ostaköku sem við svo höfðum í eftirrétt. Allt er betra með Oreo og það átti svo sannarlega við um þessa ostaköku, hún var alveg svakalega góð og ennþá betri daginn eftir.


Oreo ostakaka

2 pakkar Oreo kex (32 kexkökur)
100 g brætt smjör
  

400 g rjómaostur
3 dl flórsykur
200 ml þeyttur rjómi
4 matarlímsblöð
3 msk rjómi

 Myljið 4 Oreo kexkökur gróft og leggið til hliðar.

Malið afganginn af kexinu í matvinnsluvél og hrærið smjöri saman við.
Klæðið smelluform að innan með plastfilmu. Þrýstið kexmulningnum í botninn og upp með hliðunum á forminu.
Setjið í kæli.

Þeytið rjómaost og flórsykur saman og blandið þeyttum rjóma varlega saman við. Athugið að rjómaosturinn á að vera við stofuhita.

Leggið matarlímsblöð í vatnsbleyti þar til þau verða mjúk.
Bræðið þau í potti með 3 msk af rjóma og kælið þar til blandan verður volg.
Hellið matarlíminu í mjórri bunu út í rjómaostablönduna og hrærið stöðugt á meðan.

Blandið grófmuldu kexkökunum saman við fyllinguna og smyrjið henni ofan í kexbotninn.
Kælið í ísskáp í 3-4 klst.


Þessi ostakaka er tilvalin fyrir Oreounnendur eins og mig og ég hvet ykkur til að prófa.


Ég hafði hugsað mér að bæta aðeins við síðuna hjá mér og setja upp yfirlitssíðu með hinum ýmsu húsráðum og hugmyndum sem einhverjir geta vonandi nýtt sér. Það mun koma inn á næstu dögum svo fylgist endilega með.


Eigið góða helgi!
Bestu kveðjur,

Tinna Björg

miðvikudagur, 11. september 2013

Svíþjóðarsaga - Nautakjötspottréttur og ferskjupæ með berjum


Í lok ágúst fórum við fjölskyldan ásamt foreldrum mínum til Svíþjóðar að heimsækja bróður minn og fjölskyldu hans. Hann flutti út með kærustunni sinni og dóttur fyrir einu og hálfu ári og við höfðum ekki sést síðan þá. Í millitíðinni hafa þau eignast son og ég mitt fyrsta barn svo það var ótrúlega gaman að fá loksins að hitta þau öll í eigin persónu.

Við tölum saman nokkrum sinnum í viku á Skype sem gerir gæfumuninn því það gerir okkur kleift að fylgjast með börnum hvors annars vaxa og dafna. Mér fannst svolítið fyndið að þegar ég gekk inn um dyrnar heima hjá bróður mínum leið mér ekki eins og ég væri að koma þarna í fyrsta skipti. Þegar þau fluttu fór hann nefnilega með mig í skoðunarferð um húsið í gegn um Skype.

Við fengum milt og hlýtt veður þótt sólin hafi ekki látið sjá sig. Seinni hluta ferðarinnar fór þó að rigna reglulega.

Þetta var fyrsta flugferð dóttur minnar og jafnframt fyrsta utanlandsferð mín og kærasta míns saman svo spenningurinn var mikill.
Við flugum með WOW air og af því að við vorum með barn fengum heila sætaröð fyrir okkur. Þjónustan var frábær og starfsfólkið til fyrirmyndar.

Það fór vel um skvísuna í sínu eigin sæti

 Fyrsta daginn fórum við í gönguferð um Lund sem er rúmlega 80.000 manna bær stutt frá Kaupmannahöfn.
Lundur er háskólabær með ofboðslega mikið af ungu fólki. Bærinn er afar fjölskylduvænn og það kom mér á óvart hvað við sáum marga námsmenn þar með ung börn.

 Við skoðuðum meðal annars dómkirkjuna í Lundi. Kirkjan er alveg svakalega stór og skiptist í nokkra hluta eða sali, m.a. skírnarsalinn sem bróðursonur minn var skírður í.

Klukkan slær tvisvar á sólarhring og þá ganga karlar út úr henni og riddarar byrja að skylmast ofan á klukkunni.


Í kjallara dómkirkjunnar er stórt grafhýsi með þónokkrum gröfum og grafhvelfingum.


Grafir steyptar í gólfið

 Ein af grafhvelfingunum

Bróðir minn þekkir nammigrísinn hana systur sína greinilega manna best því hluti af skoðunarferðinni var leiðangur í nammibúðina. Mér þótti það nú ekki leiðinlegt.

Nammibúðin var svolítið stærri en þær gerast á Íslandi

 Við ætluðum yfir til Kaupmannahafnar í tívolíið en hættum við vegna rigningar. Í staðinn fórum við í mollið í Malmö þar sem ég týndi mér í H&M eins og sannri íslenskri stelpu sæmir.

Mollið í Malmö

Áður en við héldum heim á leið í lok dagsins kom ég við á ávaxtamarkaði í Lundi og keypti jarðarber og bláber. Þótt verðlagið í Svíþjóð sé í hærra lagi eru berin á svona útimörkuðum töluvert ódýrari en gengur og gerist á Íslandi.
Það var yndislegt að geta setið á kvöldin og nartað í jarðarber og bláber eins og mann lysti.

  Þessar öskjur keypti ég saman á innan við 1000 kr.

Foreldrar mínir flugu heim til Íslands degi á undan okkur litlu fjölskyldunni. Síðasta daginn fórum við með bróður mínum og dóttur hans í gönguferð um bæinn þar sem þau búa.

Ég er sérlega mikil áhugamanneskja um garðyrkju og strákarnir gerðu óspart grín að mér þegar ég tók myndir af hverju einasta eplatré sem ég sá.

Eplatré í garðinum hjá einhverjum saklausum Svíum

Svíar eru greinilega duglegir við ræktun matjurta, allavega í þessum bæ. Auk eplatrjáa rákumst við m.a. á hindberjatré, tómatatré og sólblóm sem voru um tveir metrar á hæð.

 Risavaxin sólblóm

 Dvergvaxnir tómatar sem héngu ofan af grindverki í einum garðinum

 
 Rétt áður en við lögðum af stað á flugvöllinn gerði ég heiðarlega tilraun til að taka myndir af frændsystkinunum þremur saman. Myndatakan gekk miður vel en ég náði einni ágætis mynd. Það er hægara sagt en gert að stilla upp þremur börnum!

Sindri Snær - 9 mánaða, Freyja Rún - 2 ára og Klara Sóllilja 4 mánaða

Daginn sem við kvöddum Svíþjóð ákvað sólin að láta sjá sig og sólhatturinn var dreginn upp í fyrsta og eina skipti sumarsins.

Mæðgur að bíða eftir lestinni

 Á meðan dvölinni stóð elduðum við kvöldmat heima enda höfðum við flesta dagana borðað á kaffihúsum eða McDonald's fyrr um daginn.

Á laugardagskvöldinu eldaði faðir minn þennan dýrindis nautakjötspottrétt sem ég ætla að deila með ykkur.


Nautakjötspottréttur

1500 g nautagúllas
200 g beikon
2 laukar
10 skallottlaukar
4-6 hvítlauksrif
250 g sveppir
3 gulrætur
handfylli fersk steinselja
handfylli ferskt timjan
handfylli ferskt oregano
2 lárviðarlauf
vatn
nautakraftur
smjör
hveiti
sykur
salt
pipar

Fituhreinsið nautagúllas, skerið í hæfilega stóra bita og veltið upp úr hveiti.

Skerið beikon í bita og steikið í stórum potti.
Hellið því í skál og leggið til hliðar. 

Steikið nautagúllas upp úr smjöri þannig að það brúnist á öllum hliðum.
Saltið og piprið eftir smekk.
Setjið í skál og leggið til hliðar.

Saxið lauk og hvítlauk og skerið gulrætur í bita. Steikið við vægan hita upp úr feitinni sem eftir verður í pottinum þegar búið er að steikja gúllasið.

Setjið kjöt og beikon aftur í pottinn með lauknum, hvítlaunkum og gulrótunum.

Bindið steinselju, timjan, oregano og lárviðarlauf saman í vönd með sláturbandi og setjið í pottinn.

Hellið vatni í pottinn þannig að það rétt fljóti yfir kjötið.
Skipta má vatninu út fyrir rauðvín eða hafa rauðvín og vatn til helminga.

Bætið við nautakjötkrafti eftir smekk.
Hitið upp að suðu og látið svo malla við vægan hita í 2 1/2 klst.

Á meðan pottrétturinn mallar, skerið skallottlauka í 3 hluta og setjið í pott.
Svissið laukinn með smá smjöri og örlitlum sykri, þar til hann verður mjúkur og fallega brúnaður.

Einnig er gott að hella 1 dl af rauðvíni í pottinn með lauknum en athugið að þá þarf að brúna laukinn aðeins áður.

Skerið sveppi í bita og steikið við vægan hita upp úr smjöri. Saltið og piprið eftir smekk.

Þegar pottrétturinn hefur mallað í 2 1/2 klst, fjarlægið kryddjurtavöndinn og smakkið til með salti og pipar.

Ef sósan í pottréttinum er þunn má þykkja hana með hveiti sem hrist hefur verið saman við vatn. Passið þó að sósan verði ekki of þykk.

Bætið lauk og sveppum út í nautapottréttinn ásamt saxaðri steinselju.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Faðir minn er í pottréttadeildinni á heimilinu enda ofboðslega góður kokkur og þessi réttur var alveg hreint afbragð. Hann á að vera mikið kryddaður svo verið ekki sparsöm á fersku kryddjurtirnar, nautakraftinn, saltið og piparinn.Á sunnudagskvöldinu steiktum við allra bestu pylsur sem ég hef smakkað. Þær kallast Chorizo pylsur og minna svolítið á sterkt pepperoni en þær innihalda 95% kjöt.

Í eftirrétt notaði ég afganginn af berjunum sem ég hafði keypt og bjó til afar gott ferskju- og berjapæ.
Uppskriftin er sú sama og uppskriftin að jarðarberja- og hindberjapæinu en mér finnst svakalega þægilegt að búa það til þegar ég á ávexti sem þarf að bjarga undan skemmdum.

 
Ferskju- og berjapæ

200 g hveiti
200 g púðursykur
200 g mjúkt smjör
4 ferskjur eða nektarínur
250 g jarðarber
250 g bláber

Hnoðið hveiti, púðursykur og smjör saman í skál.

Fjarlægið steina úr ferskjum og skerið í hæfilega stóra bita.
Skerið jarðarber til helminga.

Blandið ferskjum, jarðarberjum og bláberjum saman í eldfast mót.

 
Dreifið deiginu yfir í bitum þannig að það hylji ávextina.

Bakið við 200° í 20-25 mínútur.

Berið fram með vanilluís eða rjóma.Takk fyrir að lesa kæru vinir, njótið vel!

Tinna Björg

mánudagur, 9. september 2013

Sunnudagsbrunch og ömmuskonsur


Við systir mín höfðum brunch fyrir fjölskylduna í gær til að gera okkur glaðan dag.
 Ég bakaði skonsurnar hennar móðurömmu minnar og amerískar pönnukökur úr gamalli pönnukökuuppskrift frá föðurömmu minni. Pönnukökurnar voru að sjálfsögðu borðaðar með smjöri og sýrópi.
Systir mín bakaði morgunverðarmuffins og New York Times brauð. Auk þess vorum við með alls kyns góðgæti, ýmiss konar álegg, melónu, vínber, egg og beikon.

Þetta var fyrsti brunchinn sem ég hef staðið að en ég held að allir hafi verið sammála um að hann verði endurtekinn fyrr en síðar.

Amerísku pönnukökurnar komu síðast á borðið og mér láðist því að taka myndir af þeim en ég mun birta uppskriftina með myndum innan tíðar.

 Hér er hins vegar uppskrift að yndislegum skonsum sem hún móðuramma mín gerði svo oft fyrir okkur barnabörnin og þá sérstaklega fyrir einn frænda minn sem hafði mikið dálæti á þeim.


Ömmuskonsur

3 bollar hveiti
6 tsk sykur
3 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk salt
6 egg
150 g brætt smjör
mjólk

 Blandið þurrefnum saman í skál og byrjið á að hræra 2 dl af mjólk saman við með pískara.
Bætið síðan einu eggi í einu og smjöri við.

Ef deigið er of þykkt má hræra meiri mjólk út í en athugið að það á að vera svolítið þykkt svo það leki ekki út fyrir barma pönnukökupönnunnar.

Ég á það til í fljótfærni að setja of mikla mjólk í deigið þannig að það verður of þunnt. Í staðinn fyrir að bæta við hveiti læt ég skálina standa í 10-20 mínútur því hveitið bindur vökvann og þykkir deigið.

Til að koma í veg fyrir kekki er best að byrja að hella smá vökva í einu í mjórri bunu og hræra saman við þurrefnin í litla hringi í miðju skálarinnar. Stækkið svo hringina til að bæta meiri þurrefnum við deigið. Ef kekkir hafa myndast er best að hræra þá úr deiginu með pískaranum á meðan það er þykkt.

Ef miklir kekkir myndast í deiginu og erfitt er að hræra þá úr, er ágætt að sigta það.

Hitið pönnukökupönnu á hæstu stillingu og lækkið svo hitann að meðalhita.

Bræðið örlitla smjörklípu á pönnunni áður en deiginu er hellt á.

Þekið pönnuna með um 1/2 cm þykku deigi og hitið þar til loftbólugöt hafa myndast á yfirborð allrar skonsunnar.
Ef skonsan er orðin dökk undir, áður en loftbólugötin hafa myndast ofan á, er pannan of heit.
 Snúið skonsunni við með pönnukökuspaða og steikið þar til hún verður fallega brún.Að hræra pönnuköku- og vöffludeig í höndunum með pískara er svolítið þolinmæðiverk því það er ofboðslega auðvelt að búa til kekki. Áður en þið farið að draga fram handþeytarann vil ég minna á að æfingin skapar meistarann en með handþeytara verður deigið seigt og eiginlega bara frekar slímugt.


Takk fyrir að fylgjast með mér og eigið góðan dag!

Tinna Björg

fimmtudagur, 5. september 2013

Skuggalega góðir Dumle Rice Crispies kubbar


Í lok ágúst fór ég ásamt litlu fjölskyldunni minni og foreldrum mínum í stutta heimsókn til bróður míns í Svíþjóð. Það var löngu kominn tími til að skella sér út og heimsækja stóra bró og hans fjölskyldu því við höfðum ekki sést í eitt og hálft ár. Töfrar tækninnar gera okkur þó kleift að tala saman reglulega á Skype.

Á næstu dögum ætla ég að setja inn örstutta ferðasögu með nokkrum myndum og læt eina eða tvær uppskriftir fylgja. Faðir minn, pottréttakarlinn sjálfur, matreiddi fyrir okkur ljómandi góðan nautakjötspottrétt sem ég verð að deila með ykkur.

Þegar ég kom heim úr skólanum í gær langaði mig í eitthvað sætt, eins og svo oft áður - eiginlega bara alltaf.
Ég keypti stóran poka af Dumle karamellum í Fríhöfninni og varð að prófa þær í Rice Krispies köku. Útkoman var alveg meiriháttar og ég leyfi mér að fullyrða að enginn stenst það að fá sér bara einn bita.

Dumle karamellur eru ekkert sérlega ódýrar en þær eru fáanlegar á hálfvirði á nammibarnum í Hagkaup á laugardögum.


Dumle Rice Krispies kubbar

20 Dumle karamellur
75 g smjör
3 msk sýróp
4 bollar Rice Krispies

Bræðið Dumle karamellur, smjör og sýróp saman í potti og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur.

Takið pottinn af hellunni og hrærið Rice Krispies saman við.
Þrýstið þétt ofan í kökuform og kælið.

Þegar kakan hefur kólnað, skerið hana í ferninga og berið fram. 


Þessa unaðslegu karamellukubba er tilvalið að gera fyrir barnaafmæli. Þeir eru ofboðslega einfaldir og fljótlegir í gerð og börnin verða alveg vitlaus í þá.


Eigið góðan dag!

Tinna Björg