Sunnudagsbrunch og ömmuskonsur


Við systir mín höfðum brunch fyrir fjölskylduna í gær til að gera okkur glaðan dag.
 Ég bakaði skonsurnar hennar móðurömmu minnar og amerískar pönnukökur úr gamalli pönnukökuuppskrift frá föðurömmu minni. Pönnukökurnar voru að sjálfsögðu borðaðar með smjöri og sýrópi.
Systir mín bakaði morgunverðarmuffins og New York Times brauð. Auk þess vorum við með alls kyns góðgæti, ýmiss konar álegg, melónu, vínber, egg og beikon.

Þetta var fyrsti brunchinn sem ég hef staðið að en ég held að allir hafi verið sammála um að hann verði endurtekinn fyrr en síðar.

Amerísku pönnukökurnar komu síðast á borðið og mér láðist því að taka myndir af þeim en ég mun birta uppskriftina með myndum innan tíðar.

 Hér er hins vegar uppskrift að yndislegum skonsum sem hún móðuramma mín gerði svo oft fyrir okkur barnabörnin og þá sérstaklega fyrir einn frænda minn sem hafði mikið dálæti á þeim.


Ömmuskonsur

3 bollar hveiti
6 tsk sykur
3 tsk lyftiduft
1 1/2 tsk salt
6 egg
150 g brætt smjör
mjólk

 Blandið þurrefnum saman í skál og byrjið á að hræra 2 dl af mjólk saman við með pískara.
Bætið síðan einu eggi í einu og smjöri við.

Ef deigið er of þykkt má hræra meiri mjólk út í en athugið að það á að vera svolítið þykkt svo það leki ekki út fyrir barma pönnukökupönnunnar.

Ég á það til í fljótfærni að setja of mikla mjólk í deigið þannig að það verður of þunnt. Í staðinn fyrir að bæta við hveiti læt ég skálina standa í 10-20 mínútur því hveitið bindur vökvann og þykkir deigið.

Til að koma í veg fyrir kekki er best að byrja að hella smá vökva í einu í mjórri bunu og hræra saman við þurrefnin í litla hringi í miðju skálarinnar. Stækkið svo hringina til að bæta meiri þurrefnum við deigið. Ef kekkir hafa myndast er best að hræra þá úr deiginu með pískaranum á meðan það er þykkt.

Ef miklir kekkir myndast í deiginu og erfitt er að hræra þá úr, er ágætt að sigta það.

Hitið pönnukökupönnu á hæstu stillingu og lækkið svo hitann að meðalhita.

Bræðið örlitla smjörklípu á pönnunni áður en deiginu er hellt á.

Þekið pönnuna með um 1/2 cm þykku deigi og hitið þar til loftbólugöt hafa myndast á yfirborð allrar skonsunnar.
Ef skonsan er orðin dökk undir, áður en loftbólugötin hafa myndast ofan á, er pannan of heit.
 Snúið skonsunni við með pönnukökuspaða og steikið þar til hún verður fallega brún.Að hræra pönnuköku- og vöffludeig í höndunum með pískara er svolítið þolinmæðiverk því það er ofboðslega auðvelt að búa til kekki. Áður en þið farið að draga fram handþeytarann vil ég minna á að æfingin skapar meistarann en með handþeytara verður deigið seigt og eiginlega bara frekar slímugt.


Takk fyrir að fylgjast með mér og eigið góðan dag!

Tinna Björg

Ummæli

Skrifa ummæli

Vinsælar færslur