Skuggalega góðir Dumle Rice Crispies kubbar


Í lok ágúst fór ég ásamt litlu fjölskyldunni minni og foreldrum mínum í stutta heimsókn til bróður míns í Svíþjóð. Það var löngu kominn tími til að skella sér út og heimsækja stóra bró og hans fjölskyldu því við höfðum ekki sést í eitt og hálft ár. Töfrar tækninnar gera okkur þó kleift að tala saman reglulega á Skype.

Á næstu dögum ætla ég að setja inn örstutta ferðasögu með nokkrum myndum og læt eina eða tvær uppskriftir fylgja. Faðir minn, pottréttakarlinn sjálfur, matreiddi fyrir okkur ljómandi góðan nautakjötspottrétt sem ég verð að deila með ykkur.

Þegar ég kom heim úr skólanum í gær langaði mig í eitthvað sætt, eins og svo oft áður - eiginlega bara alltaf.
Ég keypti stóran poka af Dumle karamellum í Fríhöfninni og varð að prófa þær í Rice Krispies köku. Útkoman var alveg meiriháttar og ég leyfi mér að fullyrða að enginn stenst það að fá sér bara einn bita.

Dumle karamellur eru ekkert sérlega ódýrar en þær eru fáanlegar á hálfvirði á nammibarnum í Hagkaup á laugardögum.


Dumle Rice Krispies kubbar

20 Dumle karamellur
75 g smjör
3 msk sýróp
4 bollar Rice Krispies

Bræðið Dumle karamellur, smjör og sýróp saman í potti og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur.

Takið pottinn af hellunni og hrærið Rice Krispies saman við.
Þrýstið þétt ofan í kökuform og kælið.

Þegar kakan hefur kólnað, skerið hana í ferninga og berið fram. 


Þessa unaðslegu karamellukubba er tilvalið að gera fyrir barnaafmæli. Þeir eru ofboðslega einfaldir og fljótlegir í gerð og börnin verða alveg vitlaus í þá.


Eigið góðan dag!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur