Magga mín og mexíkóskt kjúklingasalat


Ég fór á langþráða líkamsræktaræfingu með Möggu vinkonu minni í dag en það er sko aldeilis ekki gefið að ég hafi orku, nenn eða tíma fyrir svoleiðis þessa dagana.

Við Magga æfðum stíft saman áður en ég varð ólétt en höfum lítið komist saman upp á síðkastið. Hún var að koma heim frá Úkraínu þar sem hún varð fyrsti Íslendingurinn til að hljóta heimsmeistaratitil í Bikini Fitness. Þess má til gamans geta að fyrr í kvöld var hún einmitt gestur í Loga í beinni.

Ætlunin er að reyna að komast á fleiri æfingar og taka aðeins til í mataræðinu svona á virkum dögum, takmarka kökuátið við helgarnar þótt það verði erfitt fyrir Tinnu sykurtönn. Enda ekki annað hægt ef maður ætlar að æfa með heimsmeistara! Ég treysti því að hún yndislega Magga mín verði með svipuna á mér. Það er frábært að æfa með góðri vinkonu og ekki skemmir fyrir að hún er einkaþjálfari og Íslandsmeistari í taekwondo svo hún gefur mér ekkert eftir á æfingum.

Af því að ég er í svo miklum heilsuræktarpælingum í dag (sem mun ekki endast til morguns) þá læt ég fylgja uppskrift að ofboðslega góðu og öðruvísi kjúklingasalati. Ég ætla nú ekki að fullyrða að salatið sé sérlega heilsusamlegt þar sem það inniheldur dágóðan slatta af ostasósu en það er komin helgi og nafnið á réttinum endar á salat!

Ég smakkaði salatið fyrst í útskriftarveislu Tinnu vinkonu minnar fyrir nokkrum árum og hef stundum gert það þegar mig langar í léttan kvöldverð.


Mexíkóskt kjúklingasalat
fyrir 4-6 manns

5 kjúklingabringur
1 iceberg höfuð
2 avocado
4 tómatar
1 dós chillibaunir
1 krukka ostasósa
taco krydd
salt
hvítur pipar

Kryddið kjúklingabringur með taco kryddi, salti og hvítum pipar og steikið í ofni við 180° í um 40 mínútur.

Rífið eða skerið iceberg kál í grunnt fat.
Skerið avocado og tómata í hæfilega stóra bita og dreifið yfir kálið.

Blandið saman chillibaunum og ostasósu í potti.
Hitið upp að suðu, lækkið hitann og látið krauma í nokkrar mínútur.

Skerið kjúklingabringur í bita og bætið saman við sósuna.

Hellið að lokum kjúklingaréttinum yfir salatið.
Berið fram með Doritos og ef til vill smá slettu af sýrðum rjóma.


Ég leitaði að chillibaunum í nokkrum búðum, þar á meðal í Bónus, Krónunni og Kosti. Eftir mikla leit fann systir mín þær loksins í Hagkaup.
Þetta einfalda kjúklingasalat kemur skemmtilega á óvart og ég hvet ykkur eindregið til að prófa.


Góða helgi kæru vinir!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur