Falleg barnapeysa með blómamynstri


Mér finnst afar huggulegt að hafa eitthvað á prjónunum til að dúlla mér við yfir sjónvarpinu þegar ég á tíma aflögu. Það má segja að prjónaskapurinn sé eiginlega mitt jóga, hann er afslappandi og hreinsar hugann. Svo hef ég líka enga þolinmæði í jóga.

Ég byrjaði að prjóna þessa fallegu barnapeysu þegar ég var ólétt af dóttur minni en ég hef prjónað tvær samskonar peysur áður og gefið. Ég lauk ekki við hana fyrr en núna í sumar en ég ákvað að spýta í lófana og klára peysuna fyrir haustið því ég vissi að ég myndi hafa mikið á minni könnu með 4 mánaða barn og í 110% námi.


Uppskriftina að peysunni er að finna í prjónablaðinu Lopi 29. Hún er fljótgerð og tók mig aðeins nokkrar kvöldstundir yfir sjónvarpsglápi.

Þegar ég þvæ ullarföt handþvæ ég þau upp úr volgu vatni með þvottaefni og nudda svo hárnæringu vel inn í ullina til að mýkja hana. Síðan skola ég flíkurnar og legg á handklæði til þerris.

Ég hef heyrt ofboðslega margar konur segja að þær kunni ekki að prjóna og gætu aldrei lært það.
Prjónaskapur er alveg ofboðslega auðveldur og það kemur á óvart hversu fljótur maður er að læra réttu handtökin.


Það er um að gera að fá mömmu, ömmu, frænku eða vinkonu til að kenna sér og koma manni af stað. Eins og með allt annað þá gildir sú gullna regla um prjónaskapinn að æfingin skapar meistarann.Bestu kveðjur,

Tinna Björg!

Ummæli

Vinsælar færslur