Oreo unaður
Hún.is átti eins árs afmæli á dögunum og af því tilefni var boðið í svakalega flott hádegisboð á Sushi Samba. Við innganginn var boðið upp á freyðivín og þegar inn var komið tók á móti okkur hlaðborð með sushi og öðrum smáréttum ásamt hvítvíni og rauðvíni.
Ég borða alls ekki hráan fisk en það kom ekki að sök því boðið var upp á bæði grænmetissushi og surf and turf sushi sem inniheldur nautakjöt og humar. Ég hef aldrei smakkað svona ótrúlega gott fiskilaust sushi og ég mæli með því að þið prófið.
Við dóttir mín áttum ánægjulegt kósýkvöld með frænku minni í gærkvöldi en hún gisti hjá okkur í nótt. Við nenntum ómögulega að elda svo við pöntuðum mat frá Saffran, piri piri kjúklingur er í algjöru uppáhaldi hjá mér og það kemur varla annað til greina þegar ég ætla að fá mér skyndibita.
Ég hafði fyrr um daginn gert ostaköku sem við svo höfðum í eftirrétt. Allt er betra með Oreo og það átti svo sannarlega við um þessa ostaköku, hún var alveg svakalega góð og ennþá betri daginn eftir.
Oreo ostakaka
2 pakkar Oreo kex (32 kexkökur)
100 g brætt smjör
400 g rjómaostur
3 dl flórsykur
200 ml þeyttur rjómi
4 matarlímsblöð
3 msk rjómi
Myljið 4 Oreo kexkökur gróft og leggið til hliðar.
Malið afganginn af kexinu í matvinnsluvél og hrærið smjöri saman við.
Klæðið smelluform að innan með plastfilmu. Þrýstið kexmulningnum í botninn og upp með hliðunum á forminu.
Setjið í kæli.
Þeytið rjómaost og flórsykur saman og blandið þeyttum rjóma varlega saman við. Athugið að rjómaosturinn á að vera við stofuhita.
Leggið matarlímsblöð í vatnsbleyti þar til þau verða mjúk.
Bræðið þau í potti með 3 msk af rjóma og kælið þar til blandan verður volg.
Hellið matarlíminu í mjórri bunu út í rjómaostablönduna og hrærið stöðugt á meðan.
Blandið grófmuldu kexkökunum saman við fyllinguna og smyrjið henni ofan í kexbotninn.
Kælið í ísskáp í 3-4 klst.
Þessi ostakaka er tilvalin fyrir Oreounnendur eins og mig og ég hvet ykkur til að prófa.
Ég hafði hugsað mér að bæta aðeins við síðuna hjá mér og setja upp yfirlitssíðu með hinum ýmsu húsráðum og hugmyndum sem einhverjir geta vonandi nýtt sér. Það mun koma inn á næstu dögum svo fylgist endilega með.
Eigið góða helgi!
Bestu kveðjur,
Tinna Björg
Ummæli
Skrifa ummæli