Svíþjóðarsaga - Nautakjötspottréttur og ferskjupæ með berjum


Í lok ágúst fórum við fjölskyldan ásamt foreldrum mínum til Svíþjóðar að heimsækja bróður minn og fjölskyldu hans. Hann flutti út með kærustunni sinni og dóttur fyrir einu og hálfu ári og við höfðum ekki sést síðan þá. Í millitíðinni hafa þau eignast son og ég mitt fyrsta barn svo það var ótrúlega gaman að fá loksins að hitta þau öll í eigin persónu.

Við tölum saman nokkrum sinnum í viku á Skype sem gerir gæfumuninn því það gerir okkur kleift að fylgjast með börnum hvors annars vaxa og dafna. Mér fannst svolítið fyndið að þegar ég gekk inn um dyrnar heima hjá bróður mínum leið mér ekki eins og ég væri að koma þarna í fyrsta skipti. Þegar þau fluttu fór hann nefnilega með mig í skoðunarferð um húsið í gegn um Skype.

Við fengum milt og hlýtt veður þótt sólin hafi ekki látið sjá sig. Seinni hluta ferðarinnar fór þó að rigna reglulega.

Þetta var fyrsta flugferð dóttur minnar og jafnframt fyrsta utanlandsferð mín og kærasta míns saman svo spenningurinn var mikill.
Við flugum með WOW air og af því að við vorum með barn fengum heila sætaröð fyrir okkur. Þjónustan var frábær og starfsfólkið til fyrirmyndar.

Það fór vel um skvísuna í sínu eigin sæti

 Fyrsta daginn fórum við í gönguferð um Lund sem er rúmlega 80.000 manna bær stutt frá Kaupmannahöfn.
Lundur er háskólabær með ofboðslega mikið af ungu fólki. Bærinn er afar fjölskylduvænn og það kom mér á óvart hvað við sáum marga námsmenn þar með ung börn.

 Við skoðuðum meðal annars dómkirkjuna í Lundi. Kirkjan er alveg svakalega stór og skiptist í nokkra hluta eða sali, m.a. skírnarsalinn sem bróðursonur minn var skírður í.

Klukkan slær tvisvar á sólarhring og þá ganga karlar út úr henni og riddarar byrja að skylmast ofan á klukkunni.


Í kjallara dómkirkjunnar er stórt grafhýsi með þónokkrum gröfum og grafhvelfingum.


Grafir steyptar í gólfið

 Ein af grafhvelfingunum

Bróðir minn þekkir nammigrísinn hana systur sína greinilega manna best því hluti af skoðunarferðinni var leiðangur í nammibúðina. Mér þótti það nú ekki leiðinlegt.

Nammibúðin var svolítið stærri en þær gerast á Íslandi

 Við ætluðum yfir til Kaupmannahafnar í tívolíið en hættum við vegna rigningar. Í staðinn fórum við í mollið í Malmö þar sem ég týndi mér í H&M eins og sannri íslenskri stelpu sæmir.

Mollið í Malmö

Áður en við héldum heim á leið í lok dagsins kom ég við á ávaxtamarkaði í Lundi og keypti jarðarber og bláber. Þótt verðlagið í Svíþjóð sé í hærra lagi eru berin á svona útimörkuðum töluvert ódýrari en gengur og gerist á Íslandi.
Það var yndislegt að geta setið á kvöldin og nartað í jarðarber og bláber eins og mann lysti.

  Þessar öskjur keypti ég saman á innan við 1000 kr.

Foreldrar mínir flugu heim til Íslands degi á undan okkur litlu fjölskyldunni. Síðasta daginn fórum við með bróður mínum og dóttur hans í gönguferð um bæinn þar sem þau búa.

Ég er sérlega mikil áhugamanneskja um garðyrkju og strákarnir gerðu óspart grín að mér þegar ég tók myndir af hverju einasta eplatré sem ég sá.

Eplatré í garðinum hjá einhverjum saklausum Svíum

Svíar eru greinilega duglegir við ræktun matjurta, allavega í þessum bæ. Auk eplatrjáa rákumst við m.a. á hindberjatré, tómatatré og sólblóm sem voru um tveir metrar á hæð.

 Risavaxin sólblóm

 Dvergvaxnir tómatar sem héngu ofan af grindverki í einum garðinum

 
 Rétt áður en við lögðum af stað á flugvöllinn gerði ég heiðarlega tilraun til að taka myndir af frændsystkinunum þremur saman. Myndatakan gekk miður vel en ég náði einni ágætis mynd. Það er hægara sagt en gert að stilla upp þremur börnum!

Sindri Snær - 9 mánaða, Freyja Rún - 2 ára og Klara Sóllilja 4 mánaða

Daginn sem við kvöddum Svíþjóð ákvað sólin að láta sjá sig og sólhatturinn var dreginn upp í fyrsta og eina skipti sumarsins.

Mæðgur að bíða eftir lestinni

 Á meðan dvölinni stóð elduðum við kvöldmat heima enda höfðum við flesta dagana borðað á kaffihúsum eða McDonald's fyrr um daginn.

Á laugardagskvöldinu eldaði faðir minn þennan dýrindis nautakjötspottrétt sem ég ætla að deila með ykkur.


Nautakjötspottréttur

1500 g nautagúllas
200 g beikon
2 laukar
10 skallottlaukar
4-6 hvítlauksrif
250 g sveppir
3 gulrætur
handfylli fersk steinselja
handfylli ferskt timjan
handfylli ferskt oregano
2 lárviðarlauf
vatn
nautakraftur
smjör
hveiti
sykur
salt
pipar

Fituhreinsið nautagúllas, skerið í hæfilega stóra bita og veltið upp úr hveiti.

Skerið beikon í bita og steikið í stórum potti.
Hellið því í skál og leggið til hliðar. 

Steikið nautagúllas upp úr smjöri þannig að það brúnist á öllum hliðum.
Saltið og piprið eftir smekk.
Setjið í skál og leggið til hliðar.

Saxið lauk og hvítlauk og skerið gulrætur í bita. Steikið við vægan hita upp úr feitinni sem eftir verður í pottinum þegar búið er að steikja gúllasið.

Setjið kjöt og beikon aftur í pottinn með lauknum, hvítlaunkum og gulrótunum.

Bindið steinselju, timjan, oregano og lárviðarlauf saman í vönd með sláturbandi og setjið í pottinn.

Hellið vatni í pottinn þannig að það rétt fljóti yfir kjötið.
Skipta má vatninu út fyrir rauðvín eða hafa rauðvín og vatn til helminga.

Bætið við nautakjötkrafti eftir smekk.
Hitið upp að suðu og látið svo malla við vægan hita í 2 1/2 klst.

Á meðan pottrétturinn mallar, skerið skallottlauka í 3 hluta og setjið í pott.
Svissið laukinn með smá smjöri og örlitlum sykri, þar til hann verður mjúkur og fallega brúnaður.

Einnig er gott að hella 1 dl af rauðvíni í pottinn með lauknum en athugið að þá þarf að brúna laukinn aðeins áður.

Skerið sveppi í bita og steikið við vægan hita upp úr smjöri. Saltið og piprið eftir smekk.

Þegar pottrétturinn hefur mallað í 2 1/2 klst, fjarlægið kryddjurtavöndinn og smakkið til með salti og pipar.

Ef sósan í pottréttinum er þunn má þykkja hana með hveiti sem hrist hefur verið saman við vatn. Passið þó að sósan verði ekki of þykk.

Bætið lauk og sveppum út í nautapottréttinn ásamt saxaðri steinselju.

Berið fram með hrísgrjónum og salati.

Faðir minn er í pottréttadeildinni á heimilinu enda ofboðslega góður kokkur og þessi réttur var alveg hreint afbragð. Hann á að vera mikið kryddaður svo verið ekki sparsöm á fersku kryddjurtirnar, nautakraftinn, saltið og piparinn.Á sunnudagskvöldinu steiktum við allra bestu pylsur sem ég hef smakkað. Þær kallast Chorizo pylsur og minna svolítið á sterkt pepperoni en þær innihalda 95% kjöt.

Í eftirrétt notaði ég afganginn af berjunum sem ég hafði keypt og bjó til afar gott ferskju- og berjapæ.
Uppskriftin er sú sama og uppskriftin að jarðarberja- og hindberjapæinu en mér finnst svakalega þægilegt að búa það til þegar ég á ávexti sem þarf að bjarga undan skemmdum.

 
Ferskju- og berjapæ

200 g hveiti
200 g púðursykur
200 g mjúkt smjör
4 ferskjur eða nektarínur
250 g jarðarber
250 g bláber

Hnoðið hveiti, púðursykur og smjör saman í skál.

Fjarlægið steina úr ferskjum og skerið í hæfilega stóra bita.
Skerið jarðarber til helminga.

Blandið ferskjum, jarðarberjum og bláberjum saman í eldfast mót.

 
Dreifið deiginu yfir í bitum þannig að það hylji ávextina.

Bakið við 200° í 20-25 mínútur.

Berið fram með vanilluís eða rjóma.Takk fyrir að lesa kæru vinir, njótið vel!

Tinna Björg

Ummæli

Vinsælar færslur